Könnun á hagkvæmni kalkþörungavinnslu

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 13:57:40 (2537)

1999-12-08 13:57:40# 125. lþ. 39.3 fundur 100. mál: #A könnun á hagkvæmni kalkþörungavinnslu# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi JB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[13:57]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég leyfi mér að beina fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. um hvað líður framkvæmd ályktunar sem var samþykkt á Alþingi 7. maí 1997, en hafði þá verið endurflutt, varðandi hagkvæmni kalkþörungavinnslu bæði á Húnaflóa og Arnarfirði. Við rannsóknir sem gerðar voru á þessu svæði, sem eru reyndar nokkuð gamlar, frá því fyrir 1980, fundust víðáttumiklar breiður af kalkþörungaseti bæði á Húnaflóa og í Arnarfirði. Í rannsóknarskýrslu, sem unnin var af Kjartani Thors og Guðrúnu Helgadóttur á vegum Hafrannsóknastofnunar, segir, með leyfi forseta:

,,Af framangreindri athugun virðist ljóst að við sunnanverðan Húnaflóa, þ.e. í Miðfirði, Hrútafirði og Bitrufirði utanverðum, eru víðáttumiklar breiður af kalkþörungaseti. Ekki er unnt að segja til um þykkt þess sets en hin mikla útbreiðsla þess sýnir að um mikið magn er að ræða. Kalkþörungasetið er á litlu dýpi og því aðgengilegt til dælingar eða moksturs á hafsbotni.

Kalkþörungar hafa verið nýttir öldum saman til áburðarframleiðslu, t.d. í Frakklandi, og þykja, m.a. vegna efnasamsetningar sinnar, mjög heppilegir til slíks. Því sýnist okkur eðlilegast að beina athyglinni að kalkþörungabreiðunum í sunnanverðum flóanum.``

Hliðstæðar rannsóknir voru gerðar nokkru fyrr á kalkþörungum í Arnarfirði þar sem fundust einnig allmörg set.

Herra forseti. Það er mjög eðlilegt að byggðir vítt og breitt um landið vilji láta kanna náttúruauðlindir sínar og möguleika á að nýta þær með sjálfbærum hætti eða kanna hagkvæmni nýtingar þeirra. Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. sjútvrh.: Hvað líður framkvæmd þessarar ályktunar um tilraunavinnslu á kalkþörungum á Húnaflóa og Arnarfirði?