Verndun náttúruperlna

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 14:06:47 (2542)

1999-12-08 14:06:47# 125. lþ. 39.20 fundur 202. mál: #A verndun náttúruperlna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[14:06]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir fyrirspurnina. Verndun náttúruperlna fyrir átroðslu sívaxandi fjölda vegfarenda er mun stærra mál en svo að hægt sé að greina frá því út frá aðgerðum á þessum þremur svæðum sem fyrirspyrjandi nefnir í fyrirspurninni.

Náttúruvernd ríkisins hefur umsjón með flestum vinsælum viðkomustöðum ferðamanna þar sem flestir þeirra eru friðlýstir en þeir sem ekki hafa verið friðlýstir eru yfirleitt á náttúruminjaskrá. Stofnunin hefur því miður ekki haft nægar fjárveitingar til að grípa til nauðsynlegra aðgerða vegna ágangs ferðamanna á síðustu árum og hefur bent á að það þurfi að leggja til þess verulega auknar fjárhæðir til að bæta aðstöðu og koma í veg fyrir skemmdir. Það er lauslegt mat stofnunarinnar að það vanti allt að 400 millj. kr. á næstu árum til að bæta úr brýnustu þörfinni á 100 vinsælustu ferðamannastöðum landsins. Stofnunin telur mikilvægt að bæta aðgengi með því að leggja og bæta göngustíga sem fyrir eru og leggja nýja göngustíga, göngubrýr og vegi, veita fræðslu og leiðbeiningar, bæta salernisaðstöðu og með því að draga úr hættu á skemmdum svo að eitthvað sé nefnt.

Síðan 1996 hefur verið í lögum um náttúruvernd ákvæði um að Náttúruvernd ríkisins skuli hafa umsjón með gerð verndaráætlana fyrir náttúruverndarsvæði en fram að þessu hefur tekist að taka tvö slík svæði og vinna að náttúruverndaráætlun fyrir þau, þ.e. þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum og verndaða svæðið á Breiðafirði.

Í verndaráætlunum skal m.a. greina frá þeim atriðum sem spurt er um í í fyrri lið fyrstu spurningar, þ.e. aðgerðum til þess að vernda viðkomandi svæði.

Náttúruvernd ríkisins hefur umsjón með tveimur þessara svæða, þ.e. Landmannalaugum og Dimmuborgum í Mývatnssveit, þar sem þau eru friðlýst en stofnunin hefur ekki mikil afskipti af Þórsmörk þótt svæðið hafi um árabil verið á náttúruminjaskrá. Í Dimmuborgum hafa landverðir reynt að viðhalda göngustígum, merkja gönguleiðir og veita fræðslu um svæðið og í Landmannalaugum hefur verið gerður samningur við Ferðafélag Íslands og heimamenn um umsjón með svæðinu sem felur m.a. í sér eftirlit og vernd, aðgerðir til að vernda svæðin.

Undanfarið hefur samstarfshópur Náttúruverndar ríkisins, Vegagerðar ríkisins og Ferðamálaráðs tekið saman áætlun um aðgerðir til úrbóta á náttúruverndarsvæðum og vinsælum ferðamannastöðum og tillagna hópsins er að vænta á næstunni um hvað beri að gera. Þar verða líka upphæðir nefndar til sögunnar, hvað þarf að kosta til.

Hvað varðar aðgangseyri og gjaldtöku fyrir veitta þjónustu á þessum svæðum þá er nefnd að störfum sem skipuð var nýlega til að skoða þau mál og gera tillögur en nefndarstörfum er ekki lokið en þeim mun væntanlega ljúka bráðlega þar sem við fáum þá tillögur um hvernig á að innheimta aðgangseyri ef það er tillaga nefndarinnar.

Hvað varðar sjón- og hávaðamengun er erfitt að takmarka umferð á vegum landsins til að draga úr slíkum áhrifum. Það er rétt að ítreka að með nýjum náttúruverndarlögum hefur akstur utan vega klárlega verið bannaður en hins vegar þarf að skilgreina betur en gert er í dag hvað telst vegur og hvað ekki. Það er ekki mjög skýrt í dag þannig að menn eru að keyra þvers og kruss um hálendið. Á þetta hefur Náttúruvernd ríkisins bent og við erum að undirbúa aðgerðir eða vinnu til þess að eyða þessari óvissu til að bæta úr því ófremdarástandi sem ríkir á hálendinu varðandi keyrslu utan vega. En að sjálfsögðu getur lögreglan ekki tekið menn fyrir akstur utan vega ef það er ekki mjög skýrt hvað er vegur og hvað ekki.

Að sjálfsögðu þarf jafnframt að huga að flugi yfir vinsæla ferðamannastaði og þjóðgarða landsins í þeim tilgangi að auka friðsæld þessara staða. Sjálfsagt er að skoða þau mál til framtíðar hvernig má standa að því en við höfum fengið eitthvað af kvörtunum þegar menn hafa verið að stunda æfingaflug, t.d. sem eru tengd heræfingum, þar sem menn hafa kvartað undan hávaða á hálendinu vegna þess.