Verndun náttúruperlna

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 14:11:37 (2543)

1999-12-08 14:11:37# 125. lþ. 39.20 fundur 202. mál: #A verndun náttúruperlna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[14:11]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þetta er virkilega athyglisverð fyrirspurn sem hér liggur fyrir og henni var vel fylgt úr hlaði af hv. fyrirspyrjanda, Pétri H. Blöndal. Ég hegg eftir því að í svari hæstv. umhvrh. kemur í ljós að Náttúruvernd ríkisins er með lista yfir fjárþörf sína þar sem kemur fram að 400 millj. kr. sé þörf til að gera eftir því sem mér skilst lágmarksúrbætur á 100 fjölförnustu stöðunum sem heyra undir náttúruvernd. Það kemur fram í máli hæstv. ráðherra að starfshópur sé líka í gangi sem ætli sér að gera tillögur til úrbóta og nefnd er í gangi sem á að skoða þessi mál varðandi mögulegan aðgangseyri en ég minni á að það eru 15 millj. sem gert er ráð fyrir að komi inn í aðgangseyri af friðlýstum svæðum á næsta ári samkvæmt fjárlögum.

Í máli hæstv. ráðherra kemur hins vegar ekkert fram hver skoðun hennar er varðandi þetta, hvernig við eigum að standa betur að málum þarna því að 400 millj., herra forseti, er ekki lítil upphæð.