Kynferðisleg misnotkun á börnum

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 14:20:49 (2547)

1999-12-08 14:20:49# 125. lþ. 39.11 fundur 167. mál: #A kynferðisleg misnotkun á börnum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[14:20]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Varðandi fyrstu spurninguna þá vísa ég til þess að hér á landi sem og annars staðar í heimshluta okkar gildir reglan um þrígreiningu ríkisvaldsins. Í samræmi við það segir í 2. gr. stjórnarskrárinnar að dómendur fari með dómsvaldið, dómum verði því ekki skotið til löggjafarvaldsins eða framkvæmdarvaldsins til endurskoðunar. Í þessu máli er það reyndar álitaefni hvort færð hefði verið lögfull sönnun fyrir sök ákærða og taldi meiri hluti Hæstaréttar að svo væri ekki.

Mat á sönnun getur verið margslungið og ekki óeðlilegt að sitt sýnist hverjum í þeim efnum. Ég tel hins vegar engan veginn eðlilegt að ég tjái mig um þetta mál í einstökum atriðum.

Ég tel að sú umræða sem fram hefur farið að undanförnu gefi tilefni til þess að almenningi sé kynnt betur það mikilvæga starf sem fram fer í dómstólum landsins. Þess er nauðsynlegt að gæta að jafnan sé byggt upp traust almennings á dómstólum. Kynning og uppfræðsla um starfsemi dómstólanna, ekki síst fyrir upprennandi kynslóðir, getur verið mjög þýðingarmikil í þessum efnum. Ég hef þegar fært þetta í tal við dómstólaráð og vakti máls á þessu á nýafstöðnu dómsmálaþingi.

Sem svar við annarri spurningu um ákvæði 3. mgr. 157. gr. laga um meðferð opinberra mála þá hefur Hæstiréttur aldrei beitt því ákvæði.

Varðandi þriðju spurninguna vil ég vekja athygli á því að dómsmrh. skipaði nefnd árið 1998 og fól henni að rannsaka ákvörðun refsinga, svo sem samhengi viðurlagaákvæða og dóma þegar um tiltekna brotaflokka væri að ræða, en þar á meðal eru kynferðisafbrot. Nefnd þessi var skipuð í samræmi við ályktun Alþingis frá því ári. Nefndin er nú að störfum og ég vænti þess að niðurstöður hennar muni liggja fyrir snemma á næsta ári.

Að þeim fengnum er ástæða til að huga að refsimörkum vegna kynferðisbrota og ýmissa annarra brota og hvort ástæða er til að gera breytingar á þeim. Ég minni þó á að nýlega, eða árið 1992, var allur kynferðisafbrotakafli almennra hegningarlaga endurskoðaður.

Varðandi lágmarksrefsingar vegna kynferðisafbrota á börnum vil ég vekja athygli á því að almennt hefur verið talið rétt að nema úr lögum ákvæði um lágmarksrefsingar. Þykir eðlilegt að eftirláta dómstólunum refsimatið auk þess sem fyrirmæli laga um lágmarksrefsingu getur í einstaka tilvikum leitt til ósanngjarnrar niðurstöðu. Ef ákveðið verður að mæla fyrir um lágmarksrefsingar í frekari mæli en nú er tel ég að það komi fyrst og fremst til álita þegar kynferðisafbrot eru framin gegn börnum. Ég tel rétt að skoðað verði sérstaklega hvort tilefni sé til slíkra breytinga á hegningarlögunum og mun ég láta kanna það þegar fyrrgreind rannsókn á viðurlögum við afbrotum liggur fyrir á næsta ári.

Varðandi fjórðu spurningu vek ég athygli á því að lög um meðferð opinberra mála voru endurskoðuð árið 1991, en frá þeim tíma hafa verið gerðar á þeim allnokkrar breytingar. Þótt þessi lög séu nýleg er heildarendurskoðun á þeim fyrirhuguð og við hana munu öll efnisatriði laganna koma til athugunar, þar á meðal ákvæði um meðdómendur með sérfræðikunnáttu. Slík heildarendurskoðun er hins vegar mjög viðamikil og mun fyrirsjáanlega taka allnokkurn tíma.

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að gera stutta grein fyrir því sem á síðustu árum hefur verið gert til að bæta stöðu brotaþola og þá sérstaklega barna sem hafa orðið þolendur kynferðisafbrota. Árið 1995 tóku gildi lög um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Á þessu þingi hef ég mælt fyrir frv. til laga um breytingu á þessum lögum þar sem lagt er til að lögfest verði heimild til að víkja frá skilyrðum laganna fyrir greiðslu bóta þegar veigamikil rök mæla með. Eins og fram kemur í greinargerð með frv. er þessi heimild fyrst og fremst hugsuð vegna kynferðisafbrota gegn börnum og er ætluð til þess að rýmka bótarétt þeirra.

Með lögum nr. 63/1998 var gerð sú breyting á ákvæðum almennra hegningarlaga að fyrningarfrestur byrjar ekki að líða fyrr en brotaþoli nær 14 ára aldri þegar um er að ræða kynferðisafbrot. Þetta tekur mið af því að aðstæður barna til að kæra eru oft takmarkaðar auk þess sem ekki er rétt að gera ráð fyrir að þau hafi þroska og skilning til að gera sér grein fyrir því að þau hafi orðið þolendur afbrots.

Að lokum vil ég geta þess að á síðasta þingi var gerð viðamikil breyting á lögum um meðferð opinberra mála og m.a. mælt fyrir um skyldu til að tilnefna börnum réttargæslumann ef um kynferðisafbrot gegn börnum er að ræða. Jafnframt hafa vinnubrögð og aðstaða við yfirheyrslur verið bætt mikið.

Ljóst er að sá málaflokkur sem hér er til umræðu hefur hlotið verðskuldaða athygli undanfarin ár og mikil vinna verið lögð í úrbætur á lagaumgjörð og málsmeðferð. Hins vegar er jafnframt ljóst að mál af þessum toga eru vandasöm og viðkvæm og krefjast þess að við höldum vöku okkar og skirrumst ekki við að grípa til þeirra aðgerða sem þörf er á.

Um langan aldur lágu kynferðisafbrot gegn börnum í þagnargildi. Þögnin hefur nú verið rofin og mikið hefur verið gert til þess að rétta hlut þeirra sem mátt hafa þola misgjörðir. Á þeirri braut verður haldið áfram.