Framsal Háskóla Íslands á einkaleyfi til peningahappdrættis

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 14:33:56 (2552)

1999-12-08 14:33:56# 125. lþ. 39.10 fundur 166. mál: #A framsal Háskóla Íslands á einkaleyfi til peningahappdrættis# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[14:33]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Sem svar við fyrirspurninni þá veit ég ekki til né ráðuneytið að Happdrætti Háskóla Íslands hafi framselt einkaleyfi sitt til peningahappdrættis til einkafyrirtækja. Í tilefni af fyrirspurninni óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá Happdrætti Háskóla Íslands um hana. Í svarbréfi sem er dagsett 17. nóvember sl. er fullyrt að Háskóli Íslands hafi hvorki framselt einkaleyfi sitt né hafi komið til álita að hann framseldi það.

Einkaleyfi Happdrættis Háskóla Íslands er bundið í lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973. Óheimilt er að framselja leyfið. Dómsmrn. hefur eftirlit með happdrættisrekstrinum að hann sé í samræmi við lög og reglugerðir um það. Einkafyrirtækjum hefur ekki verið framselt einkaleyfi háskólans en ráðuneytið mundi vissulega taka til athugunar ef grunur væri um það.

Eftirlit með fjármálum Háskóla Íslands hefur endurskoðandi háskólans og Ríkisendurskoðun svo sem er um aðrar ríkisstofnanir. Ég tel að í þessu sambandi sé rétt að gera nokkra grein fyrir umboðum sem happdrætti veita tilteknum aðilum til að koma fram í nafni happdrættanna svo að hægt sé að sinna þjónustu fyrir happdrættin um land allt. Umboðsmenn reka fyrir hönd umbjóðanda síns, hver svo sem hann er, á hans ábyrgð og fyrir hans reikning tiltekið verkefni og geta þegið fyrir það þóknun. Í því felst ekki framsal réttinda. Í hugtakinu happdrætti felst m.a. að fjármunir þeir sem spilað er fyrir renna til þess sem rekur happdrættið og greiðir happdrættið vinninga sem hlutfall af þeim fjármunum. Ljóst er að aðalskrifstofa Happdrættis Háskóla Íslands í Reykjavík getur ekki sinnt sölu happdrættismiða um allt land. Þess vegna hafa starfað í happdrættinu sérstakir umboðsmenn allt frá árinu 1934. Koma þeir fram í nafni Happdrættis Háskóla Íslands og innheimta andvirði seldra miða, greiða vinninga sem á þá kunna að falla og þiggja fyrir þá þóknun sem er hlutfall af upphæð viðskiptanna. Hér er ekki um framsal á réttindum eða skyldum happdrættisins að ræða svo sem tilgreint er í lögum nr. 13/1973.

Síðustu árin hafa átt sér stað nokkrar breytingar á þeirri tækni sem notuð er við happdrættisrekstur og við að veita viðskiptamönnum þjónustu. Í samræmi við það hafa nýir sölu- og umboðsaðilar bæst við þá 95 aðila sem eru umboðsmenn fyrir flokkahappdrættið. Þar má nefna um 500 aðila sem hafa með höndum sölu happaþrennu og eru það einkum verslanir og söluturnar. Á sama hátt þiggja þessir söluaðilar þóknun í hlutfalli við sölu. Söluaðilar Gullnámunnar eru 49 talsins, einkum veitingahús en auk þess þrír háspennusalir. Vélarnar og allt kerfi þeirra er í höndum Happdrættis Háskóla Íslands á sama hátt og sölukerfi annarra happdrættistegunda happdrættisins. Umboðsaðilar sjá hins vegar um að fylgt sé öðrum reglum í tengslum við vélarnar, þrífa þær og passa að aðgengi að þeim sé í samræmi við lög og reglugerðir, svo sem um aldurstakmark. Þiggja þeir þóknun fyrir þjónustuna sem er ákveðin prósenta af rekstri vélanna á sama hátt og aðrir umboðsmenn fá þóknun í samræmi við sölu miða.

Ráðuneytið hefur ekki gert athugasemdir við hin lögbundnu happdrætti að þau hafi umboðsmenn í þjónustu sinni víðs vegar um land, enda hefur það verið talinn eðlilegur þáttur í starfsrækslu happdrættanna eigi að vera unnt að reka þau á landsvísu.