Frummatsskýrsla um álver á Reyðarfirði

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 14:44:37 (2556)

1999-12-08 14:44:37# 125. lþ. 39.4 fundur 132. mál: #A frummatsskýrsla um álver á Reyðarfirði# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[14:44]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 152 ber hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fram svohljóðandi fyrirspurn:

,,Hver hefur borið kostnaðinn af gerð frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs álvers sem kynnt var 14. október 1999 í nafni eignarhaldsfélagsins Hrauns ehf.?``

Allt frá upphafi 8. áratugarins þegar staðarvalsnefnd um iðnrekstur hóf störf hafa farið fram margháttaðar rannsóknir á náttúrulegum aðstæðum til uppbyggingar stóriðjureksturs á Reyðarfirði. Á vegum Kísilmálmverksmiðjunnar hf. sem stofnuð var af íslenska ríkinu 1982 fyrir tilstuðlan Hjörleifs Guttormssonar og í kjölfar athugana staðarvalsnefndar fóru fram víðtækar rannsóknir á Hrauni og nágrenni Hrauns vegna áforma sem þá voru uppi um byggingu kísilmálmvinnslu. Þessar rannsóknir voru allar kostaðar af iðnrn. á sínum tíma, ýmist með beinum framlögum eða í gegnum hlutafjárframlög ríkisins til Kísilmálmvinnslunnar hf.

Eftir að Markaðsskrifstofa iðnrn. og Landsvirkjunar var stofnuð árið 1988 var haldið áfram athugunum á aðstæðum til stóriðjuuppbyggingar við Reyðarfjörð eftir því sem efni og ástæður voru til. Í tengslum við fyrirhugaða byggingu Atlantal-álversins í kringum 1990 --- þá fyrir tilstuðlan ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, en í henni voru eins og menn þekkja og ekki þarf að rifja upp margir ágætir þingmenn sem nú sitja á Alþingi, m.a. hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, landbrh. í þáv. ríkisstjórn --- komu peningar bæði af almennu ráðstöfunarfé markaðsskrifstofunnar, sem eins og kunnugt er er í eigu Landsvirkjunar og iðnrn. og af sérfjárveitingum frá iðnrn.

Árið 1997 var efnt til formlegs samstarfs við orku- og stóriðjunefnd Sambands sveitarfélaga á Austurlandi en markaðsskrifstofan hafði átt farsælt samstarf við nefndina og sveitarfélög á Miðausturlandi mörg ár þar á undan. Inn í þennan samning gekk árið 1998 nýstofnað sveitarfélag, Fjarðabyggð. Hefur rannsóknum síðan verið haldið áfram á vegum verkefnisstjórnar STAR, eða samstarfsnefndar um staðarvalsathuganir iðnaðarsvæða á Reyðarfirði. Fjármagn sem STAR hefur haft til ráðstöfunar hefur einkum komið af almennu ráðstöfunarfé Fjárfestingarstofunnar -- orkusviðs og sérframlögum frá iðnrn. en einnig frá öðrum þátttakendum í STAR-hópnum. Í tengslum við viðræður við Hydro Aluminium hefur það fyrirtæki einnig lagt fram fjármagn í þessar rannsóknir sl. tvö ár. Það er því ljóst að enginn einn aðili hefur borið kostnað af gerð frummatsskýrslunnar heldur allir þeir sem ég hef hér nefnt.

Af framansögðu má ljóst vera að erfitt er að gefa í einni tölu kostnað við gerð frummatsskýrslunnar. Við gerð hennar hafa allar tiltækar upplýsingar verið notaðar og margvíslegar athuganir gerðar. Einnig kemur til að vegna væntanlegra umsókna um umhverfisstarfsleyfi frá Hollustuvernd ríkisins hafa sumar rannsóknirnar verið ítarlegri en ætla má að nauðsynlegt hafi verið að gera ef eingöngu hefði staðið til að gera skýrslu um frummat á umhverfisáhrifum álversins. Þá er frummatsferlinu ekki lokið. Það er þó ljóst að kostnaðurinn við gerð frummatsskýrslunnar verður mun hærri en áður hefur þekkst í hliðstæðum dæmum, enda svæðið meira rannsakað en nokkurt annað svæði á Íslandi til þess að byggja upp stóriðju.

Þannig hefur kostnaður sem Fjárfestingarstofan -- orkusvið hefur greitt vegna vinnu STAR og ráðunauta við gerð frummatsskýrslunnar á árunum 1998 og 1999 og áætluð útgjöld til nk. áramóta numið samtals 50,5 millj. kr. Í þeirri upphæð er innifalið það fjármagn sem Hydro Aluminium hefur lagt fram til verkefnisins og rétt er að geta þess að gengið er út frá því að endanlegur framkvæmdaraðili að byggingu álversins muni greiða þennan kostnað þegar þar að kemur. Þegar upp verður staðið verður því kostnaðurinn borinn af framkvæmdaraðilanum en ekki ríkinu. Hydro Aluminium hefur nú þegar farið að ráðstafa peningum til að taka þátt í þessu verkefni og með því er undirstrikað hversu mikill vilji og alvara er af hálfu fyrirtækisins að halda verkefninu áfram og um leið er það skiljanlegt af þeirra hálfu að þeir leggi höfuðáherslu á að við alla framkvæmdaáætlunina um samstarfsyfirlýsinguna, sem gefin var á Hallormsstað, sé staðið til þess að þeir fjármunir sem fyrirtækið nú þegar er farið að ráðstafa nýtist sem best.