Orkuvinnsla á bújörðum

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 14:54:09 (2559)

1999-12-08 14:54:09# 125. lþ. 39.5 fundur 158. mál: #A orkuvinnsla á bújörðum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi DrH
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[14:54]

Fyrirspyrjandi (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Eins og öllum er kunnugt hefur mikil byggðaröskun orðið síðustu ár og allir eru því sammála að vinna þarf ötullega að því að snúa dæminu við. En til þess að það gerist þarf að beita nýjum og öflugri aðferðum en gert hefur verið hingað til og nota alla þá nútímatækni sem til er að styrkja byggðina.

Í nýútkominni skýrslu Byggðastofnunar, Byggðir á Íslandi, er birt niðurstaða greiningar stofnunarinnar á ástandi búsetu í landinu. Þar er m.a. fjallað um aukinn hluta þekkingar í framleiðslu og breytt gildismat fólks. Þessir þættir hafa á síðari árum leitt til brottflutnings fólks af landsbyggðinni en bjóða jafnframt upp á ýmsa möguleika til atvinnusóknar og eflingar búsetu. Horfa verður til möguleika sem svæðin hafa og einbeita sér að því sem getur talist styrkleiki þeirra.

Eitt allra stærsta viðfangsefnið hlýtur að vera að efla samkeppnishæfni landsbyggðarinnar og markmiðið að ný störf verði til í vaxtargreinum atvinnulífsins í stað þeirra sem hverfa með almennri hagræðingu og breyttum atvinnuháttum. Landbúnaður á Íslandi hefur gengið í gegnum miklar breytingar undanfarin ár, breytingar sem hafa orðið til þess að bændur hafa hagrætt í búrekstri sínum. Búin hafa stækkað og þeim hefur fækkað.

Þegar rætt er um nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífinu þá verðum við að huga að þeim möguleikum sem geta falist á bújörðum meðfram hefðbundnum búskap til þess að styrkja hann eða til nýrra atvinnutækifæra. Einn af þeim vaxtarbroddum í landbúnaði tel ég vera fólginn í meiri og öfugri nýtingu á jarðvarma og virkjun vatnsafls til raforku sem er vissulega vannýtt enn sem komið er. Því þarf að huga vel að slíkum möguleikum og sóknarfærum.

Til að treysta þessi markmið þarf að leita samstarfs við háskóla og rannsóknarstofnanir. Ég er sannfærð um að margir aðilar sem hafa aðgang að vatnsfalli væru tilbúnir að virkja ef skilyrði yrðu sköpuð til þess af hálfu stjórnvalda. Það er ljóst að hér er um atvinnusköpun og verðmæti að ræða sem kæmu sér vel í hinum dreifðu byggðum landsins og þetta hefur bein áhrif á byggðaþróun og búsetu. Þeim jarðeigendum sem eiga þess kost, og ef það telst hagkvæmt, þarf að gera kleift að ráðast í virkjanir. Margir aðilar sem hafa aðgang að vatnsfalli væru tilbúnir til þess ef skilyrði væru fyrir hendi og því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hvernig hefur iðnaðarráðuneytið stutt þá sem vilja nýta heitt vatn á jörðum sínum? Hefur ráðuneytið stutt jarðeigendur sem vilja reisa litlar vatnsaflsvirkjanir?