Orkuvinnsla á bújörðum

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 14:57:03 (2560)

1999-12-08 14:57:03# 125. lþ. 39.5 fundur 158. mál: #A orkuvinnsla á bújörðum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[14:57]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 179 ber hv. þm. Drífa Hjartardóttir fram svohljóðandi fyrirspurn:

,,Hvernig hefur iðnaðarráðuneytið stutt þá sem vilja nýta heitt vatn á jörðum sínum? Hefur ráðuneytið stutt jarðeigendur sem vilja reisa smáar vatnsaflsvirkjanir?``

Í maí á síðasta ári undirrituðu iðnrn., Orkusjóður og Byggðastofnun samkomulag um að leita sérstaklega að jarðhita á svæðum þar sem ekki eru hitaveitur en hugsanlegt er að hagkvæmt geti verið að nýta jarðhita til húshitunar. Þetta átak, sem tekur til áranna 1998 og 1999, hefur til ráðstöfunar 60 millj. kr. og er framlag iðnrn. til þess 25 millj., Orkusjóðs 25 millj. og Byggðasjóðs eða Byggðastofnunar 10 millj. Gert er ráð fyrir því að mótframlag frá sveitarfélögum eða orkufyrirtækjum sé a.m.k. 50% af heildarkostnaði. Þetta verkefni hefur m.a. stuðlað að jarðhitaleit í grennd við þéttbýlisstaði og einnig komið bændum og landeigendum til góða. Alls bárust um 50 umsóknir um stuðning og voru 30 verkefni styrkt.

Árangur jarðhitaleitar á þessum svæðum hefur eðlilega verið mismunandi enda eru flest þeirra a.m.k. svæði sem talin hafa verið til kaldari svæða. Nokkur þeirra hafa nú þegar skilað góðum árangri.

Á árinu 1996 var hlutverki Orkusjóðs breytt nokkuð frá því sem var og í vor voru sett ný lög um sjóðinn. Samkvæmt lögunum er Orkusjóði m.a heimilt að veita opinberum aðilum, félögum og einstaklingum lán til að leita og afla jarðvarma með jarðvísindalegum forrannsóknum, jarðborunum og vinnslurannsóknum til að meta árangur borananna. Ef borun sem lánað er til á grundvelli þessarar heimildar reynist árangurslaus eða árangur mun lakari en gert var ráð fyrir eða kostnaður óeðlilega hár og ávinningur borunar minni en upphaflega var gert ráð fyrir og fjárhagslegri afkomu lántakenda stefnt í hættu af þessum sökum, þá er ráðherra heimilt að fenginni tillögu orkuráðs að fella niður að hluta eða öllu leyti endurgreiðslu lántaka þannig að þarna erum við í raun að ræða áhættulán hvað þetta snertir.

Leitast er við að meta áhættuna bæði tæknilega og markaðslega fyrir fram og er það fjármagn sem veitt er á fjárlögum sett í sjóði til að mæta þeirri áhættu. Á fjárlögum yfirstandandi árs eru 6 millj. kr. í þessu skyni, þ.e. bara til þessara þátta og sama fjárhæð er í frv. til fjárlaga fyrir árið 2000. Miðað við áhættumat sem lagt hefur verið til grundvallar svarar þetta til þess að unnt sé að lána um 30 millj. kr. á ári til þessara verkefna. Talsvert er um að bændur og aðrir jarðeigendur sæki um og fái slík lán.

Varðandi seinni spurninguna þar sem spurt er: ,,Hefur ráðuneytið stutt jarðeigendur sem vilja reisa smáar vatnsaflsvirkjanir?``

Fyrr á árum veitti Orkusjóður bændum lán til að reisa vatnsaflsstöðvar til heimilisnota. Sú heimild var felld úr gildi árið 1996 enda höfðu slík lán ekki verið veitt um langt árabil og ekkert fé verið veitt í þessu skyni á fjárlögum. Þá var hinni eiginlegu sveitarafvæðingu lokið og heita má að allir sveitabæir hafi aðgang að rafmagni frá raforkukerfi landsins. Í þessu sambandi má þó geta þess að samkvæmt gildandi lögum um Orkusjóð er orkuráði heimilt að veita fyrirtækjum eða einstaklingum styrki eða áhættulán til hönnunar eða smíði frumgerðar tækja og búnaðar sem ætla má að leiði til þess að dregið verði úr orkunotkun og notkun á jarðefnaeldsneyti. En það verður að hafa í huga að reglunum var breytt 1996 í þeim tilgangi að nota fjármuni sjóðsins betur til annarra hluta vegna þess að ekki hafði verið sérstaklega sótt um það að fá af bændum eða landeigendum lán til þessara hluta. Ástæðan er fyrst og fremst sú að við erum með heildstætt raforkukerfi fyrir landið allt og einstaklingar, sveitarfélög eða landeigendur geta í sjálfu sér ekki framleitt inn á það kerfi eins og nú er nema með sérstökum samningum. Hins vegar standa fyrir dyrum, og það hef ég boðað, róttækar skipulagsbreytingar á raforkukerfinu sem ganga út á það að innleiða samkeppni og þáltill. um það efni hef ég lagt hér fyrir og vonandi kemur frv. til laga um gjörbreytt skipulag orkumála eftir áramót sem þá og í ljósi þess mun skapa landeigendum og þeim sem ráða yfir vatnsafli eða jarðvarma hugsanlega tækifæri til þess að framleiða inn á Íslandsnetið, þ.e. flutningskerfi landsmanna sem svo er nefnt að vinnuheiti.