Orkuvinnsla á bújörðum

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 15:02:18 (2561)

1999-12-08 15:02:18# 125. lþ. 39.5 fundur 158. mál: #A orkuvinnsla á bújörðum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi DrH
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[15:02]

Fyrirspyrjandi (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er mjög mikilvægt að verið er að vinna af fullum krafti í þessum málum.

Það er rétt að geta þess að á Íslandi eru nú um 300 lítil orkuver, flest á bújörðum. En fyrr á árum voru þau mun fleiri. Í Félagi raforkubænda eru nú milli 60 og 70 manns. Mikill áhugi er á þessum málum og margir hafa gefið sig fram sem hafa tæknikunnáttu og má þar nefna vélsmiðjur, verktaka, smiði og söluaðila vélbúnaðar. Í samtölum mínum við bændur hefur komið fram að stuðningur ríkisins við smærri rafmagnsframleiðendur er lítill sem enginn, frekar megi tala um höft þar sem greiða þarf afar hátt gjald, eða um 2 millj., til að mega selja rafmagn inn á kerfið.

Norðmenn lögðu af slíkt gjald um síðustu áramót. Um 100--200 stöðvar sem eru starfræktar nú eru að framleiða umframrafmagn sem ekki er hægt að koma í verð í dag. Tenging inn á kerfi frá litlu rafstöðvunum er einfalt og þar sem mikið rafmagnstap er í dreifikerfi landsins er talið mjög æskilegt að fá inn rafmagn hér og þar til að vega upp á móti tapi.

Herra forseti. Víða eru umtalsverð hlunnindi á bújörðum og er jarðvarmi og vatnsafl til raforkuframleiðslu hluti af þeim. Það er mjög mikilvægt að opinberir aðilar styðji áform bænda með fjármagni og miðlun þekkingar og með markaðsstarf í huga. Nauðsynlegt er að þeir sem vilja og hafa tök á að fara í virkjanir fái til þess fyrirgreiðslu hjá Lánasjóði landbúnaðarins og Orkusjóði. Byggðastefnan á að efla bjartsýni og kraft til að takast á við margvísleg verkefni og nýta þarf þau fjölmörgu tækifæri sem eru fyrir hendi.