Orkuvinnsla á bújörðum

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 15:04:20 (2562)

1999-12-08 15:04:20# 125. lþ. 39.5 fundur 158. mál: #A orkuvinnsla á bújörðum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[15:04]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég tek í sjálfu sér undir þessi orð hv. fyrirspyrjanda og tel að þarna séu til staðar, ekki síst kannski á mörgum bújörðum, veruleg tækifæri á þessu sviði. Ég lýsti því áðan að við stöndum frammi fyrir fyrirkomulagi sem gerir mönnum það ekki kleift í dag að framleiða inn á raforkukerfið nema með sérstöku samkomulagi við þá sem njóta einkaréttar í þeim efnum, þ.e. Landsvirkjun. Hvort sem það eru dreifiveitur eða framleiðendur þá þarf að gera samrekstrarsamning til þess að slíkt sé hægt. Þessu fyrirkomulagi hef ég lýst yfir að ég vilji breyta. Ég vil sjá aukna samkeppni sem á að leiða til þess að lækka raforkuverð til landsmanna þegar fram líða stundir og ég trúi því að með aukinni samkeppni muni það takast.

Ég veit um áhuga raforkubænda í þessum efnum og ég fagna því frumkvæði sem hefur komið frá þeim um að þeir hafi skipulagt sig til að vera í stakk búnir þegar að þessari samkeppni kemur og tækifærin gefast. Ég held að sá undirbúningur sé til fyrirmyndar.

Ég hef líka óskað eftir því að það verði kannað, og ætla mér að setja á fót nefnd til þess að fara sérstaklega í þau mál, þ.e. hvernig hægt sé einmitt að aðstoða bændur í þessum efnum og þar tel ég að til eigi að koma samstarf Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, gömlu stofnlánadeildarinnar eða Búnaðarsjóðsins, og hef óskað eftir því að formaður iðnn., sem er jafnframt formaður Búnaðarsjóðsins, verði formaður þeirrar nefndar til þess einmitt að leiða þessa hluti saman. Þessi nefnd verður skipuð á næstu dögum með þetta meginmarkmið þannig að ég tek undir með hv. þm. að þetta er mjög mikilvægt skref sem þarna er hægt að stíga til undirbúnings því þegar að samkeppninni kemur. En alveg er ég nú viss um að þær raddir eru hér innan dyra sem engu vilja breyta í því eins og svo mörgu öðru. Það er alveg sama hverju á að breyta, menn eru alltaf á móti því. Hins vegar held ég að þetta sé mjög mikilvægt tæki til þess að lækka raforkuverð til landsmanna.