Beinþynning

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 15:29:20 (2571)

1999-12-08 15:29:20# 125. lþ. 39.12 fundur 180. mál: #A beinþynning# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[15:29]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég hef lagt fsp. fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. um beinþynningu, fyrirspurn sem lýtur annars vegar að rannsóknum og hins vegar forvörnum vegna þessa vaxandi vandamáls í vestrænum löndum.

Fram hefur komið að beinþynning herjar í ríkari mæli á konur en karla og að um helmingslíkur eru á því að fimmtug kona eigi eftir að hljóta framhandleggsbrot, hryggsúlubrot eða mjaðmarbrot, eitt eða fleiri. Beinbrot af völdum beinþynningar verða við lítinn eða engan áverka sem gerist ekki með eðlileg bein. Brot af þessu tagi eru fátíðari meðal karlmanna en þeim fer fjölgandi. Menn hafa velt því fyrir sér hverjar helstu orsakirnar eru, það hefur að einhverju leyti verið rannsakað en væntanlega mun hæstv. ráðherra geta upplýst okkur betur um það hér á eftir. Þó er nokkuð ljóst að einhver blanda af mataræði, hormónabreytingum og lifnaðarháttum almennt liggi þar að baki.

Talið er að um 1.000 Íslendingar beinbrotni á ári hverju af völdum beinþynningar. Eins og fram kom, virðulegi forseti, verða þessi slys við tiltölulega lítið álag vegna þess hve bein þeirra sem hafa þennan sjúkdóm þola lítið, viðnám þeirra er lítið.

Það eru ýmsar alvarlegar hliðar á þessu máli. Ljóst er að þeir sem brotna illa þurfa að leggjast inn á sjúkrahús og liggja lengi. Bein sem skemmd eru af beinþynningu eru lengur að gróa. Það er ljóst að það er ekki bara um mikla erfiðleika og sársauka að ræða fyrir þá sem beinbrotna heldur einnig mikinn kostnað fyrir heilbrigðiskerfið. Ég hef því, herra forseti, lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. heilbrrh.:

,,1. Hvaða rannsóknir hafa farið fram á beinþynningu hér á landi og hverjar hafa verið meginniðurstöður þeirra? Hversu útbreiddur er þessi heilbrigðisvandi? Hefur ráðuneytið staðið að rannsóknum á beinþynningu?

2. Hvernig er unnið að forvörnum gegn beinþynningu og hver hefur þáttur ráðuneytisins verið í þeim?

3. Er áformuð þátttaka Tryggingastofnunar í kostnaði við beinþéttnimælingar?``