Beinþynning

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 15:32:18 (2572)

1999-12-08 15:32:18# 125. lþ. 39.12 fundur 180. mál: #A beinþynning# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[15:32]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Þetta eru viðamiklar spurningar sem lagðar eru fyrir mig og ég ætla að reyna að svara þeim í sem stystu máli.

Margvíslegar rannsóknir hafa verið framkvæmdar hér á landi á síðustu árum með tilliti til beinþynningar, m.a. á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, Akureyri og víðar, um beinbrot og beinþynningu. Þessar rannsóknir hafa verið framkvæmdar á ýmsum aldurshópum, einkum meðal kvenna sem verða mun fremur fyrir barðinu á þessum sjúkdómi en karlar eins og hv. þm. benti á.

Rannsóknir þessar hafa aðallega snúist um mælingar á beinþéttni og ýmsum næringarþáttum eins og kalki og D-vítamíni og einnig líkamlegum þáttum eins og líkams\-áreynslu. Aldurshópar kvenna, 16--25 ára, voru kannaðir en á því aldursbili nær beinmagnið hámarki og reynt var að meta hvaða þættir kynnu að hafa þar áhrif á. Góð líkamleg þjálfun fyrir tvítugt með skólaleikfimi og íþróttum virtist tengjast hærri beinþéttni meðal stúlkna og gæti því bent til mikilvægis líkamlegrar hreyfingar á vaxtarárunum 10--20 ára. Áberandi var að talsverður hópur stúlkna á þessum aldri tók ekki aukalega D-vítamín að vetrinum, svo og að sumar þeirra voru nálægt mörkum D-vítamínsskorts. Þetta kynni að koma niður á beinþéttni þeirra og beinstyrkleika síðar á ævinni.

Ályktun af þessum rannsóknum var m.a. að mælt var með að D-vítamínbæta mjólk og mjólkurafurðir að vetrinum. Sjötugar reykvískar konur hafa verið kannaðar á svipaðan hátt með beinþéttnimælingum og mataræðiskönnunum og athyglisvert að 80% þeirra taka lýsi eða D-vítamín aukalega. Þessi rannsókn á sjötugum konum er hluti af samnorrænni rannsókn, en verið er að vinna úr þeirri rannsókn einmitt núna. Kalkneysla hefur verið könnuð á ýmsum aldurshópum sem hluti af þessum rannsóknum í samvinnu við manneldisráð. Í heild virðist kalkneysla góð hér á landi miðað við flestar aðrar þjóðir, en þó virðast hópar fólks hérlendis neyta minna magns af kalki en mælt er með og það kynni að koma niður á beinþéttni þeirra til lengdar. Mataræðiskönnun sú sem fyrirhuguð er á vegum manneldisráðs á næsta ári kynni að gefa hér veigamiklar viðbótarupplýsingar um næringarástand mismunandi aldurshópa með tilliti til kalks, D-vítamíns og fleira.

Í gangi er víðtæk rannsókn á erfðum beinþynningar á Íslandi í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu en erfðir virðast skipta miklu máli í sambandi við beinþynningu. Þörf er á fyllri upplýsingum um brotatíðni hér á landi og upplýsingum um við hvaða aðstæður þau brot verða. Væntanlega mun hinn miðlægi gagnagrunur geta gefið mikilvægar upplýsingar sem ekki liggja fyrir í dag nema að hluta. Við verðum því að álykta út frá erlendum tölum að fjöldi beinbrota sem verða við lítinn áverka og tengjast því væntanlega beinþynningu sé um það bil 1.000 brot hérlendis á ári hverju. Hér hefur verið talið upp hver eru algengustu brotin og ég ætla ekki að telja það upp aftur en talið er að hvert brot kosti íslenska heilbrigðiskerfið 1,5 millj. kr.

Síðan er spurt um forvarnaþáttinn. Beinþéttnimælingar skipta miklu máli í sambandi við mat á greiningu á beinþynningu. Þær hafa verið framkvæmdar á Sjúkrahúsi Reykjavíkur á sl. fimm árum og hafa yfir 9.000 einstaklingar verið mældir á þessu tímabili. Sams konar aðstaða er nú komin á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Tæki til mælingar á hælbeini eru einnig fyrir hendi á Landspítala. Beinþéttnimælingar hafa einnig verið framkvæmdar á vegum röntgenstofunnar í Domus Medica.

Heilbrrn. hefur staðið fyrir því að gigtarannsóknarstofa hefur verið opnuð á Landspítalanum og samþykkt svokallaða landsáætlun um gigtarvarnir og það nýjasta sem Gigtarfélagið er að gera er að þeir hafa opnað svokallaða gigtarlínu sem er hægt að hringja í alls staðar að af landinu og fá upplýsingar er varða þessi mál. Einnig er til sérstakt félag sem Ólafur Ólafsson, fyrrv. landlæknir, er formaður fyrir. Beinvernd heitir það félag og það ásamt Gigtarfélaginu er að gera mjög marga hluti til fræðslu og forvarna.

Svo er spurt um kostnaðarhlutann, hvort Tryggingastofnun muni greiða hluta af kostnaðinum við rannsóknir á beinþynningu. Tryggingastofnun kemur þar ekki inn í heldur er búið að gera samning við stofnunina og í dag borgar fólk eins og fyrir röntgenrannsókn þegar það fer í þessa rannsókn, eða 1.000 kr. Það hefur því lækkað verulega.