Almenningssamgöngur á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 15:45:09 (2578)

1999-12-08 15:45:09# 125. lþ. 39.18 fundur 194. mál: #A almenningssamgöngur á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[15:45]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Fyrirspurn mín er til samgrh. og varðar almenningssamgöngur á landsbyggðinni. Fyrirspurnin var lögð fram fyrir a.m.k. einum og hálfum mánuði en af ýmsum ástæðum hefur hún ekki komist á dagskrá fyrr en núna. En það breytir ekki því að trúlega er ástandið svipað nú og var fyrir einum og hálfum mánuði og ætla ég því að gera grein fyrir ástæðu fyrirspurnarinnar.

Á undanförnum áratug hefur rekstrarstaða sérleyfishafa versnað jafnt og þétt og stefnir í að þessi þjónusta leggist alfarið niður ef ekki koma til einhvers konar aðgerðir til að tryggja reksturinn. Það væri alvarleg staða ef almenningssamgöngur legðust niður, sérstaklega í tengslum við flugsamgöngur og ferjusiglingar.

Fjögur ár eru síðan samgrh. fékk Háskólann á Akureyri til að gera úttekt á rekstri sérleyfishafa. Frummatsskýrsla var unnin og í framhaldi af því var ráðinn starfsmaður til að gera ítarlega úttekt á rekstrarkostnaði. Á þeim tíma sem liðið hefur hafa nokkrir sérleyfishafar hætt vegna erfiðleika í rekstri, gefist upp og ekki treyst sér til að bíða eftir úrlausn. Sérleyfishafar hafa þennan tíma vonast eftir breytingum í sambandi við innskatt, þ.e. endurgreiðslu á virðisaukaskattinum.

Margt hefur breyst varðandi flutninga sérleyfishafanna en á þeim tíma sem póstur var fluttur með sérleyfishöfunum skiptust flutningarnir gróflega þannig að 1/3 voru fólksflutningar, 1/3 póstur og 1/3 frakt. Nú er bæði fraktin og pósturinn kominn yfir á aðra þannig að rekstur þessara aðila er mjög erfiður og því eru spurningarnar eftirfarandi:

1. Hver var afkoma sérleyfishafa sem annast ferðir á landsbyggðinni á síðasta ári og það sem af er þessu ári?

2. Hver er staða sérleyfisrekstrar á Austurlandi, m.a. til og frá Hornafjarðarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli?

3. Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar af hálfu ráðuneytisins til að treysta almenningssamgöngur á landsbyggðinni?