Almenningssamgöngur á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 15:53:51 (2580)

1999-12-08 15:53:51# 125. lþ. 39.18 fundur 194. mál: #A almenningssamgöngur á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[15:53]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en ég vona að skýrsla Háskóla Íslands sem nú liggur fyrir sé á þann veg að hægt verði að fara í úrbætur þegar í stað. Ég get ekki svarað fyrir hvern og einn en ég veit alla vega að staða rekstraraðila á Austurlandi, þeirra sem núna eru í rekstri, er mjög alvarleg og þeir hafa sagt að þeir muni hætta ef ekkert kemur inn í reksturinn til lengri tíma sem þeir geta treyst á að muni standa. Það er ekki hægt að reka fyrirtæki á lánum. Þeir hafa gert það í þeirri von að einhverjar úrbætur verði, því það er hreint og beint krafa okkar sem búum úti á landi að hafa slíka þjónustu. Það er ekki bara þjónusta við áætlunarflugið, að komast á leiðarenda heldur varðar þjónustan ekki síður börn sem eru í skóla, að þau komist heim um helgar, og að tryggt verði að fólk komist á milli staða án þess að verða að treysta á einkabíla.

Ég heiti á hæstv. samgrh. að taka skýrslu Háskóla Íslands til afgreiðslu og viðunandi lausn finnist til framtíðar þannig að þessir rekstraraðilar geti greitt upp skuldir sínar og rekið fyrirtæki sín áfram.