Almenningssamgöngur á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 15:55:54 (2581)

1999-12-08 15:55:54# 125. lþ. 39.18 fundur 194. mál: #A almenningssamgöngur á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[15:55]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Vegna þess sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda er nauðsynlegt að undirstrika og taka fram að skuldir einstakra rekstraraðila hljóta að vera á ábyrgð þeirra. Það er því ekki hægt að gera almenna kröfu um ábyrgð annarra á þeim en þeirra sem til slíkra skulda hafa stofnað.

Ég vil í lok umræðunnar í fyrsta lagi segja að margt bendir til þess að skipulag sérleyfa á landsbyggðinni sé orðið úrelt og ekki lagað að þeim aðstæðum sem ríkja og þurfa að ríkja í dag. Augljóst er einnig að vegna skorts á fjármunum, rekstrarfjármunum og að eiginfjárstaðan er slök er vandinn viðvarandi. Í öðru lagi bendir margt til þess að of mörg fyrirtæki sem stunda akstur séu of smá og veikburða til að geta staðið í slíkum rekstri, það virðist liggja fyrir. Í þriðja lagi hefur þessi þjónusta stöðugt þurft að láta undan síga í samkeppni við einkabílinn eins og reyndar víðar. Í fjórða lagi tel ég að ábyrgð sveitarfélaganna á landsbyggðinni á þessum samgöngum sé of lítil og ekki nægjanlega skilgreind.

Í ljósi allra þessara staðreynda liggur fyrir að endurskipuleggja þurfi slíka starfsemi og það er vilji minn að nýta þá úttekt sem unnin hefur verið á vegum Háskóla Íslands og leggja á ráðin um nýtt skipulag sem gæti leitt til betri þjónustu og gæti leitt til þess að fyrirtækin sem taka að sér slíkan rekstur geti staðið í honum með sæmilegu móti.