Þolmörk ferðamannastaða á hálendinu

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 16:06:24 (2584)

1999-12-08 16:06:24# 125. lþ. 39.19 fundur 201. mál: #A þolmörk ferðamannastaða á hálendinu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi PHB
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[16:06]

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. svörin. Reyndar ollu nokkur atriði í svörunum mér vonbrigðum, t.d. að ekkert mat hafi farið fram á því hversu margir heimsækja hálendið og að hálendið hefur ekki einu sinni verið skilgreint sem ég held þó að brýnt sé að gera. Einnig held ég að brýnt sé að reyna að átta sig á því hve margir fara inn á hálendið til að sjá jafnframt hversu margir geta farið inn á hálendið án þess að skaða þessar náttúruperlur.

Ég er ánægður með það svar hæstv. ráðherra að ferðamannatíminn sé að dreifast yfir árið. Það jafnar álagið auk þess sem álagið á náttúruperlur okkar er miklu minna þegar menn ferðast um þær á snjó, t.d. á snjósleðum. Hins vegar verð ég að setja spurningarmerki við það sem hæstv. ráðherra sagði um bættar samgöngur vegna þess að það getur aukið álagið á þessum stöðum enn meira ef samgöngur eru bættar. Varasamt getur verið að fara þá leið.

Ég held að við Íslendingar stöndum eftir sem áður frammi fyrir þeim vanda að hér eru náttúruperlur og við verðum því einhvern veginn að takmarka aðgang fólks, bæði innlendra og erlendra ferðamanna, á þessa staði.