Þolmörk ferðamannastaða á hálendinu

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 16:08:12 (2585)

1999-12-08 16:08:12# 125. lþ. 39.19 fundur 201. mál: #A þolmörk ferðamannastaða á hálendinu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[16:08]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það hefur lengi verið rætt um að allar grunnrannsóknir skorti í ferðaþjónustu. Síðastliðinn vetur var samþykkt í Alþingi breyting á lögum um skipulag ferðamála sem gerir ráð fyrir því að Ferðamálaráð sinni rannsóknum og kanni allt er varðar ferðaþjónustuna.

Ferðamálaráð leiðir nú rannsókn á þolmörkum ferðamannastaða á Íslandi. Verkefnið er unnið í samvinnu við Náttúruvernd ríkisins, Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Verkefnið nýtur stuðnings frá Rannsóknaráði. Alls er áætlað að rannsaka níu ferðamannastaði á Íslandi á þremur árum.

Markmið verkefnisins er að leiða í ljós hve mikinn ágang ferðamannastaðir á Íslandi þola. Sumarið 2000 verður lagt í fyrsta áfangann þar sem þrír ferðamannastaðir verða teknir út. Þeir staðir eru Lónsöræfi, Skaftafell og Landmannalaugar. Niðurstöður verkefnisins að loknum fyrsta áfanga liggja fyrir í nóvember á næsta ári og munu þær nýtast til skipulags ferðamennsku á þeim stöðum sem rannsakaðir eru.

Útilokað er að svara á einfaldan hátt spurningunni sem hv. fyrirspyrjandi bar upp í síðasta lið, þ.e. um hvort náttúruperlur landsins þoli meiri umferð í heild en nú er. Það er eðlilega mjög breytilegt eftir því hverjar þessar perlur eru þar sem um sumar þeirra er nú engin umferð en um aðrar er geysilega mikil umferð. Heildarniðurstaðan er hins vegar sú að við þurfum að sinna þessu betur, rannsaka nánar og á öruggari hátt umferðina um hálendið. Ég vil eindregið hvetja menn til þess að veita ferðamannaþjónustunni stuðning til þess að sinna þessu. Ég vænti þess að hv. þm. muni gera það á þeim vettvangi sem þeir hafa tök á því. Það skiptir mjög miklu máli og það er mikill vilji til þess, bæði í samgrn. og hjá Ferðamálaráði.