Verndarsvæði samkvæmt Ramsar-samþykktinni

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 16:10:56 (2586)

1999-12-08 16:10:56# 125. lþ. 39.21 fundur 208. mál: #A verndarsvæði samkvæmt Ramsar-samþykktinni# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[16:10]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Í fyrirspurn minni til umhvrh. er ég að fjalla um verndarsvæði samkvæmt svokallaðri Ramsar-samþykkt, en Ramsar er bær í Íran nálægt Kaspíahafi. Þaðan kemur þetta sérkennilega nafn.

Ramsar-samningurinn eða samþykktin tók gildi 2. febrúar 1971 en á Íslandi tók hún ekki gildi fyrr en 2. apríl 1978 í ráðherratíð Eysteins Jónssonar. Á þeim tíma var gengið frá megninu af þeim friðlýsingum sem átt hafa sér stað á votlendi á Íslandi í samræmi við samninginn.

Vitað er að stór hluti mýrlendis á Íslandi hefur verið þurrkaður upp á nokkrum áratugum. Það er meira að segja talið að helmingur votlendis í byggð hér á landi hafi verið skertur. Menn telja að grafnir hafi verið um það bil 33 þús. km af skurðum á landinu. Til mótvægis hefur verið mokað ofan í innan við 10 km, sumir segja kannski bara tvo eða þrjá. Ég hef ekki nákvæmari tölu en þetta.

Sagt er að til mótvægis við það að raska áður ósnortnu votlendi þurfi jafnvel tvisvar til þrisvar sinnum stærra landsvæði að flatarmáli, en hafi landinu verið raskað áður þarf nokkru minna til mótvægis. Við vitum öll hversu mikið vandamál gróðureyðing hefur verið á Íslandi. Við vitum að skógur sem áður var milli fjalls og fjöru þekur nú e.t.v. 1% af landinu. Þannig hefur gróðurlendið verið skert í aldanna rás. Þar sem við erum aðilar að alþjóðlegum samningum þá veltir maður því fyrir sér hvernig okkur tekst að uppfylla þá. Spurningar þær sem ég legg fyrir ráðherrann lúta að þessu:

,,1. Hve mörg svæði hérlendis hafa verið útnefnd verndarsvæði samkvæmt Ramsar-samþykktinni um vernd votlendis, sem samþykkt var á Alþingi 5. maí 1977, og hvenær voru þau útnefnd? Hafa borist rökstuddar ábendingar um að fjölga þeim?

2. Hvaða áhrif hefur samþykktin haft á verndun votlendis hér á landi?

3. Hvernig er mikilvægi votlendissvæða metið?

4. Hvaða áhrif mun það hafa á verndun votlendis á Íslandi að síðastliðið vor var sett fram það markmið að árið 2005 verði Ramsar-svæði orðin tvö þúsund, en þau munu nú vera um eitt þúsund talsins?``