Verndarsvæði samkvæmt Ramsar-samþykktinni

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 16:13:49 (2587)

1999-12-08 16:13:49# 125. lþ. 39.21 fundur 208. mál: #A verndarsvæði samkvæmt Ramsar-samþykktinni# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[16:13]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Fjeldsted fyrir þessa ágætu fyrirspurn. Samkvæmt Ramsar-samningnum er aðildarlöndum skylt að tilnefna eitt svæði á skrána. Það eru skuldbindingarnar. Ísland hefur hins vegar gert gott betur og tilnefnt þrjú svæði á skrá Ramsar-samþykktarinnar um vernd votlendis. Íslensku Ramsar-svæðin eru Mývatn og Laxársvæðið sem fyrst var tilnefnt á skrána þegar Ísland gerðist aðili að samþykktinni árið 1978. Síðan þá höfum við Íslendingar bætt við á skrá um Ramsar-svæði bæði Þjórsárverum og Grunnafirði í Borgarfirði. Þá hefur verið í athugun að tilnefna hið friðaða svæði á Breiðafirði á skrána en um það hefur ekki enn þá verið tekin ákvörðun. Upp á síðkastið hefur einnig verið talsverð umræða um annað svæði, þ.e. Eyjabakkasvæðið.

Áhrif af aðild Íslands að samþykktinni hafa hingað til fyrst og fremst komið fram í betri vitund og aukinni vernd þeirra svæða sem tilkynnt hafa verið á skrána. Þannig hefur tilnefning Mývatns, Laxár, Þjórsárvera auk Grunnafjarðar styrkt vernd þessara svæða og njóta þau núna betri og meiri virðingar sem Ramsar-svæði.

Breiðafjörður er svæði sem vert er að skoða, en eins og menn vita hér manna best, þá er búið að ákveða að nýta Eyjabakkana í annað og var það gert fyrir talsverðum tíma síðan.

Gagnvart öðrum votlendissvæðum hefur samþykktin haft þau áhrif að nú er búið að setja inn í náttúruverndarlög ákvæði sem kveða m.a. á um sérstaka vernd stöðuvatna og tjarna sem eru þúsund fermetrar að stærð eða stærri og mýra og flóa sem eru þrír hektarar eða stærri. Jafnframt hefur í samvinnu umhvrn. og landbrn. verið sett á laggirnar sérstök votlendisnefnd til að stuðla að endurheimt votlendis, en það er ein af áherslum í starfi Ramsar-samþykktarinnar. Og það er hárrétt sem fram kom í máli fyrirspyrjanda að margar mýrar hafa verið ræstar fram á síðustu árum og á votlendisnefndin einmitt að stuðla að því að þær verði endurheimtar.

Reglur til að meta mikilvægi votlendissvæða sem aðildarríkin geta haft til hliðsjónar við val á nýjum Ramsar-svæðum voru samþykktar á aðildarfundi samningsins árið 1990, en á aðildarfundi samningsins árið 1996 var vísindanefnd samningsins falið að yfirfara og endurskoða reglurnar frá 1990. Tillögur þessarar vísindanefndar voru síðan lagðar fram til umfjöllunar á síðasta aðildarríkjafundi samningsins á Costa Rica í maí sl. og samkvæmt þeim eru votlendissvæði m.a. álitin mikilvæg ef þau uppfylla eftirfarandi þrjú skilyrði:

1. Fóstra reglulega plöntu- eða dýrategundir á viðkvæmu stigi lífsferils eða veita athvarf frá erfiðum skilyrðum.

2. Fóstra reglulega 20 þúsund votlendisfugla.

3. Fóstra reglulega 1% af einstaklingum stofns einnar tegundar eða deilitegundar.

Þetta á við um svæði þar sem upplýsingar eru tiltækar.

Í stefnu Ramsar sem samþykkt var á aðildarþingnu í vor var samþykkt það markmið að árið 2005 verði Ramsar-svæðin í heiminum orðin 2000 að tölu. Í dag eru þau 1009. En Íran hefur nýverið tilnefnt nýtt Ramsar-svæði. Hvíta-Rússland gerðist aðili að samningnum og tilnefndi eitt svæði og Filippseyjar tilnefndu í síðustu viku tvö ný svæði á skrá samningsins. Þá er samanlögð stærð þessara Ramsar-svæða heimsins orðin tæpir 72 millj. hektara.

Framkvæmd Ramsar-samþykktarinnar hér á landi er í höndum Náttúruverndar ríkisins og í kjölfar aðildarríkjaþingsins í vor og í tengslum við vinnslu náttúruverndaráætlunar verður hugað að því hvernig Ísland getur stuðlað að því að þetta markmið samningsins náist, en samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í nýjum náttúruverndarlögum ber umhvrh. að leggja náttúruverndaráætlun í fyrsta sinn fyrir Alþingi árið 2002. Þannig mun Alþingi væntanlega gefast kostur á að fjalla um þetta mál sérstaklega þegar þar að kemur og áætlunin verður hér til umfjöllunar.