Verndarsvæði samkvæmt Ramsar-samþykktinni

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 16:18:45 (2588)

1999-12-08 16:18:45# 125. lþ. 39.21 fundur 208. mál: #A verndarsvæði samkvæmt Ramsar-samþykktinni# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[16:18]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég þakka ráðherranum skýr svör og þó að ég hafi ekki sérstaklega minnst á Eyjabakka í máli mínu er að sjálfsögðu ljóst að lýsingin á því sem uppfyllir Ramsar-sáttmálann á auðvitað mjög vel við það svæði.

En meining mín var sú að vekja athygli á stöðu votlendis á Íslandi. Ég fékk nýlega í hendurnar bók sem heitir Íslensk votlendi. Henni er ritstýrt af Jóni S. Ólafssyni og hún er afar vönduð. Margir höfundar koma þar inn á þetta merka mál og ég hvet menn til að verða sér úti um bókina og kynna sér hana.

Ég hef áhyggjur af því að við höfum kannski ekki lagt á okkur nóg til að uppfylla þessa samþykkt. Ég tel að það hvernig við stöndum að alþjóðasamningum sé hluti af þeirri ímynd sem við höfum meðal þjóðanna. Frumkvæðið í þessu máli, eins og ég skil það, er ráðherrans og ég hvet ráðherrann þar með til þess að fela Náttúruvernd ríkisins að vinna ítarlega að málinu svo tryggt verði að við uppfyllum betur samninga af þessu tagi í framtíðinni. Við þurfum að koma okkur upp okkar votlendispólitík. Við þurfum að hafa yfirsýn yfir votlendi á Íslandi og setja okkur þau markmið að uppfylla Ramsar-sáttmálann með eins miklu stolti og við getum og horfa framan í heiminn með góðri samvisku hvað þetta snertir.