Brunavarnir og brunamál

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 18:31:13 (2590)

1999-12-08 18:31:13# 125. lþ. 40.1 fundur 244. mál: #A brunavarnir og brunamál# (brunavarnagjald) frv. 127/1999, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 125. lþ.

[18:31]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um brunavarnir og brunamál, nr. 41/1992, með síðari breytingum. Frv. þetta er lagt fram þar sem ákveðið var að leggja ekki fram sérstakt frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, svo kallaðan bandorm, samhliða framlagningu frv. til fjárlaga en sl. ár hafa tekjur til Brunamálastofnunar af brunavarnagjaldi verið skertar með ákvæði í bandormi.

Frv. þetta er í samræmi við áform í frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 um að tekjur af brunavarnagjaldi umfram 87 millj. kr. renni í ríkissjóð. Samkvæmt lögum nr. 41/1992, um brunavarnir og brunamál, má brunavarnagjald nema allt að 0,045 prómillum af vátryggingarfjárhæð brunatrygginga, fasteigna og lausafjár. Ekki er þó innheimt brunavarnagjald af viðlagatryggingu og brunatryggingu skipa og flugvéla. Brunavarnagjald nemur í dag 0,045 prómillum af vátryggingarfjárhæð brunatrygginga.

Samkvæmt frv. þessu er lagt til að tekjur, sem eru innheimtar að fjárhæð 87 millj. kr., renni til Brunamálastofnunar ríkisins en þær tekjur sem eru umfram þá upphæð renni til ríkissjóðs og er áætlað að sú upphæð nemi 13 millj. kr. fyrir árið 2000.

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir þá breytingu sem frv. þetta mælir fyrir um og ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til umfjöllunar í hv. umhvn.