Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 19:17:38 (2599)

1999-12-08 19:17:38# 125. lþ. 40.2 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 125. lþ.

[19:17]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það má segja að innihald frv. sem hér er verið að ræða og lagt var fram fyrir nokkru síðan komi í sjálfu sér ekki á óvart einfaldlega vegna þess að á undanförnum vikum og mánuðum, reyndar allt undanfarið ár hefur átt sér stað mjög mikil umræða um svokallaða friðarskyldu sem ríkir á almenna vinnumarkaðnum, ákvæði sem ekki er í lögum sem varða opinbera starfsmenn. Það hefur gerst þó nokkrum sinnum að fjöldi starfsmanna hefur sagt upp störfum og notað það til þess m.a. að knýja fram úrbætur á kjarasamningum eða betri laun en samið hafði verið um.

Það að fara í hópuppsagnir til að knýja fram betri laun en stéttarfélag hefur samið um og félagsmenn hafa samþykkt, ef samningarnir hafa á annað borð tekið gildi, er ekki góður samskiptamáti milli launafólks og atvinnurekenda. En það er heldur ekki góður samskiptamálti að banna fólki að segja upp vegna óánægju með laun sín, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða hópa. Það er mikil nauðsyn að um þetta ríki mjög góð samstaða og að samræmdar reglur gildi á öllum vinnumarkaðnum sem lúta að þessu svokallaða friðarskylduákvæði og það sé þá auðvitað virt á báða bóga.

Þetta hefur líka með það að gera að opinberir starfsmenn hafa í raun ekki sömu möguleika heldur til þess að beita verkfallsvopninu, þ.e. það sem vantar á ákvæði í lög. Það er mjög misjafnt hve mikill þungi er í uppsögnum fólks. Annars vegar er um að ræða sérmenntað fólk sem hefur á undanförnum mánuðum beitt svokölluðum hópuppsögnum án þess þó að það sé viðurkennt til þess að knýja fram betri samninga, þó að flestir hafi gengið til vinnu sinnar aftur eftir að hafa náð fram kjarasamningum og þá við sveitarfélögin í þó nokkuð mörgum tilvikum eða aðra vinnuveitendur. En ófaglært starfsfólk BSRB hefur ekki getað beitt þessu vopni líkt og hinar sérmenntuðu stéttir hafa gert.

Það hefur sætt verulegri gagnrýni að ekki gildi sömu reglur varðandi friðarskyldu um opinbera starfsmenn og á almennum vinnumarkaði. Ég tek undir þá gagnrýni að þarna eigi í raun að gilda sambærileg lög um allt launafólk í landinu, hvaða stéttarfélagi sem það tilheyrir. Mér finnst virðingarvert að BSRB, BHM og Kennarasambandið hafa sýnt ákveðið frumkvæði með því að ganga á fund fjmrh. og bjóða það fram að hefja vinnu við að samræma lög og reglur sem gilda um launafólk.

Hins vegar finnst mér það sýna að viljinn sé kannski ekki til staðar því að ekkert samráð var t.d. við ASÍ áður en þessar viðræður voru boðnar. Mér er kunnugt um að ekkert var leitað eftir samstarfi við ASÍ um að ganga á fund ríkisvaldsins eða hæstv. fjmrh. til þess að leita eftir þessari samræmingu.

Það er grundvallaratriði gagnvart launafólki, hvort sem það starfar á almenna vinnumarkaðnum eða hjá hinu opinbera, að eins mikil sátt og mögulegt er ríki um þau lög er þessar starfsstéttir varða. Þess vegna er mjög erfitt að horfa upp á það að hér er komið fram enn eitt frv. í tíð þessarar og síðustu ríkisstjórnar er varðar kjör og réttindi launafólks þar sem ekki hefur verið reynt til hlítar að ná fram samningum á milli ríkisvalds annars vegar og launafólks hins vegar. Skemmst að minnast þeirra frv. og laga sem voru samþykkt á síðasta kjörtímabili. Það vekur eðlilega upp reiði þeirra stéttarfélaga og samtaka launafólks sem hafa boðið fram sáttarhönd. Það kemur m.a. fram í frétt í Degi, miðvikudaginn 1. desember, að skýrt er frá því að BSRB, BHM og kennarafélögin hafi gengið á fund hæstv. fjmrh. til þess að bjóða fram vinnukrafta sína við að samræma lög um opinbera starfsmenn og lög um stéttarfélög og vinnudeilur á almenna vinnumarkaðnum en því var ekki svarað. Þetta kemur fram í fréttinni og er haft eftir hv. þm. Ögmundi Jónassyni, formanni BSRB. En það er mikil nauðsyn á því að þessi samræmingarvinna eigi sér stað og að þar komi allir hópar að.

Frumvarpið sjálft er aðeins ein grein fyrir utan gildistökuákvæðið og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Það telst til verkfalla í skilningi laga þessara þegar starfsmenn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná tilteknu sameiginlegu markmiði. Sama gildir um aðrar sambærilegar aðgerðir ...``

Ég býst við að þessar aðrar sambærilegar aðgerðir séu þar sem um hópuppsagnir er að ræða en vil þó fá skýringar frá hæstv. fjmrh. hvort þessi orð, þ.e. ,,sambærilegar aðgerðir af hálfu starfsmanna``, sé nokkuð hægt að teygja umfram það að þarna sé eingöngu um hópuppsagnir að ræða.

Ríkisstjórnin brást fljótt við þegar sveitarfélögin kölluðu eftir því að þarna yrði tekið sérstaklega á þar sem heildarkjarasamningar sem gerðir höfðu verið giltu, að mati sveitarstjórnarmanna og fulltrúa í launanefnd sveitarfélaga, ekki lengur þar sem einstakar stéttir sem áður höfðu samþykkt heildarkjarasamning drógu sig út með þeim hætti að segja upp störfum sínum til þess að knýja fram betri launakjör. Það hafði gerst í mörgum tilvikum áður þegar síðan var gripið til þess ráðs að fara með málið fyrir í Félagsdóm. Félagsdómur úrskurðaði á grundvelli gildandi laga að ekki væri hægt að meðhöndla málið á sama hátt og ef um væri að ræða að það ákvæði, sem hér er lagt til að fari inn í lögin, hefði verið til staðar. Eftir það býst ég við að viðræður hafi hafist af hálfu sveitarfélaga og ríkisvalds um að þarna þyrfti að eiga sér stað ákveðin samræming. Óskir hafa einnig komið fram af hálfu ASÍ og núna frá BSRB, BHM og Kennarasambandinu um heildarsamræmingu þeirra laga sem í gildi eru. Það er nauðsynlegt að verða við þeirri ósk og ég tel mjög mikilvægt að sú vinna hefjist sem allra fyrst.

En það er ekki brugðist eins við ef við snúum ferlinu við, þ.e. þegar atvinnurekendur grípa til hópuppsagna án þess að fara að gildandi lögum og reglum. Í skýrslu forseta ASÍ fyrir árið 1999 er m.a. fjallað um framkvæmd laga um hópuppsagnir. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Fyrri hluta ársins 1999 átti sér stað hrina uppsagna á Suðurlandi, Norðurlandi og á Vestfjörðum. Í framhaldinu hrinti Alþýðusamband Íslands af stað könnun meðal verkalýðsfélaga og trúnaðarmanna á þeim stöðum þar sem hópuppsagnir höfðu átt sér stað og beindist hún að samráðsferli við trúnaðarmenn áður en til uppsagna kom, samráðsferli við stéttarfélag áður en til uppsagna kom, ef ekki hafði verið haft samráð við trúnaðarmenn og atburðum eftir að uppsagnir komu fram.

Á tímabilinu 10. júní til 17. ágúst 1999 var tíu verkalýðsfélögum sendur spurningalisti. Svör bárust frá átta þeirra. Samkvæmt þeim var alls 408 starfsmönnum sagt upp með hópuppsögnum á framangreindu tímabili, þar af voru 271 kona og 137 karlar.

Í einu tilviki hafði verið haft samráð við trúnaðarmenn áður en til uppsagna kom. Það samráð fór fram að því er virðist til málamynda eða sama dag eða dagana áður en uppsögnum var hrint í framkvæmd. Jafnframt var ekki leitað samráðs um allt það sem leita átti samráðs um eða veittar þær upplýsingar sem veita átti en um hvort tveggja eru ítarleg ákvæði í lögum. Í einu tilviki var haft samráð við viðkomandi stéttarfélag með aðkomu trúnaðarmanna áður en til uppsagna kom og var það með líku sniði og greinir hér að framan. Í einu tilviki var haft samráð við stéttarfélag án aðkomu trúnaðarmanna en það verklag samrýmist ekki lögum. Í þremur tilvikum er vitað fyrir víst að tilkynning um hópuppsögn hafi verið send vinnumiðlun á svæðinu. Afrit tveggja bárust trúnaðarmönnum og afrit þriggja bárust viðkomandi stéttarfélögum. Í öllum þremur tilvikum voru ekki veittar réttar eða fullnægjandi upplýsingar um þau atriði sem lög kveða á um.

Af framangreindri könnum var dregin sú ályktun að þær hópuppsagnir sem skoðaðar voru og sem beindust að 408 félagsmönnum ASÍ hafi verið framkvæmdar með ólögmætum hætti og um hafi verið að ræða gróf brot á gildandi reglum. Þessar niðurstöður voru kynntar Vinnumálastofnun og óskað ítarlegra upplýsinga frá stofnuninni um framkvæmd þeirra hópuppsagna sem skoðaðar voru. Afrit var sent félagsmálaráðuneytinu ásamt tilmælum um viðræður um breytingar á lögunum um hópuppsagnir. Þegar skýrsla þessi er skrifuð hafa svör ekki borist frá ráðuneytinu en á vinnuréttarsviði ASÍ eru í smíðum tillögur sem sendar verða ráðuneytinu samhliða kröfu um breytingar á gildandi lögum hópuppsagnir.``

Við erum svo heppin hér að hafa í salnum hæstv. félmrh. sem gæti kannski svarað því hvers vegna stjórnvöld hafa ekki brugðist við þegar atvinnurekendur í svo mörgum tilvikum beita verkafólk órétti samkvæmt þeim niðurstöðum sem sendar hafa verið Vinnumálastofnun. Ekkert bólar á neinum breytingum eða tillögum frá hæstv. félmrh. í því efni til þess að styrkja rétt launafólksins. En í þeim tilvikum sem um hópuppsagnir af hálfu launafólks er að ræða, sem vissulega eru umdeilanlegar, þá höfum við fengið viðbrögð strax þar sem er auðvitað gengið á rétt mjög stórs hóps launafólks.

Eins og ég hef sagt hér þá er ég hlynnt því að sömu reglur gildi á vinnumarkaðnum hvort sem um er að ræða opinbera starfsmenn eða fólk á almenna vinnumarkaðnum. Það eiga að sjálfsögðu að gilda sömu reglur. En áður þurfa að eiga sér stað viðræður milli stéttarfélaga við ríkisvald og einnig atvinnurekendur svo að þessi samræming geti átt sér stað. Og það þarf að gerast á fleiri sviðum.

[19:30]

Vissulega er verkfallsréttur á almenna vinnumarkaðnum rýmri og meðfærilegri á margan hátt og margir opinberir starfsmenn búa við mjög skerta möguleika til þess að beita honum sem vopni í kjarabaráttu. En það er líka mjög margt í lögum opinberra starfsmanna sem gefur þeim rétt umfram það sem gerist á almenna vinnumarkaðnum. Það vitum við öll og nægir að nefna t.d. fæðingarorlof og lífeyrisréttindi og marga aðra þætti sem eru í samningum opinberra starfsmanna. En fyrst og síðast þá hlýtur þetta alltaf að vera samningsatriði og við vildum gjarnan sjá fólk á vinnumarkaði standa saman sem einn hóp þannig að sömu reglur gildi um alla.

Virðulegi forseti. Forseti ASÍ fjallaði í skýrslu sinni um hópuppsagnir af hálfu launafólks. Og þar segir, með leyfi forseta:

,,Vegna fjöldauppsagna opinberra starfsmanna urðu mikil blaðaskrif. Starfsmenn ASÍ tóku nokkurn þátt í þeim. Þar var því meðal annars haldið fram fjöldauppsagnir ýmissa hópa á opinberum vinnumarkaði til þess að þvinga fram breytingar á kjarasamningum undir friðarskyldu, ógni réttindum alls launafólks og samskiptareglum á vinnumarkaði sem þó væru nógu slæmar fyrir. Öllum bæri ótvíræð skylda til að virða lög og reglur um samskipti á vinnumarkaði. Ef launafólk sjálft virti ekki þær skyldur sem á það væru lagðar gæti verkalýðshreyfingin ekki krafist þess að atvinnurekendur virtu sínar, m.a. annars þær skyldur sem þeir hafa við framkvæmd hópuppsagna. Því var haldið fram að í lögunum um framkvæmd hópuppsagna fælust grundvallarréttindi sem tilheyrðu bæði ráðningarréttindum hvers og eins og ekki síður almennum félagslegum réttindum launafólks, en að þessi réttindi hefðu atvinnurekendur ítrekað brotið. Svo virtist einnig að stjórnvöld litu á þessi lögbrot sem óviðráðanlegar markaðshamfarir sem þau réðu ekkert við. Síðan væri það allrar athygli vert að ráðherrum, sveitarstjórnarforkólfum og atvinnurekendum væri hvorki afskipta eða orða vant þegar launafólk undir friðarskyldu leggi hópum saman inn uppsagnir til að þvinga fram launahækkanir með ólögmætum hætti. Þá væri hótað lagabreytingum, lögsókn og refsiaðgerðum og ekki látið sitja við orðin tóm.``

Virðulegi forseti. Þarna er forseti ASÍ að draga fram mismuninn á því hver viðbrögð stjórnvalda eru þegar að launafólk beitir hópuppsögnum annars vegar og hins vegar þegar atvinnurekandinn beitir hópuppsögnum og fer ekki að lögum, en þá eru viðbrögðin ekki hin sömu.

Virðulegi forseti. Það er alltaf ámælisvert þegar fram koma frv. þar verið er að fjalla um kjarasamninga eða rétt launafólks þegar að ekki hefur farið fram eðlilegt samráð við þær stéttir sem hlut eiga að máli. Ég tek undir efni frv. vegna þess að það er í samræmingarátt fyrir allt launafólk. En við hljótum jafnframt að fara fram á það við hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn að eðlilegt samráð sé haft við launafólk á vinnumarkaði og að ekki sé verið að leggja fram lagabreytingar þar sem eingöngu er verið að ganga á réttindi en um leið sé ekki tekið á ýmsum þáttum þessara laga sem og annarra sem bæta réttindi launafólks. Það hefur verið mjög erfitt að fylgjast með þeirri þróun sem hefur átt sér stað varðandi samninga á opinbera vinnumarkaðnum, hjá opinberum starfsmönnum, og líka þeirri mismunun sem er milli einstakra stétta innan opinbera geirans, ef svo má orða það, til þess að knýja fram launabreytingar eða leiðréttingar á sínum kjörum. Það er ekki hægt að jafna saman réttindum ófaglærða verkafólksins sem vinnur hjá hinu opinbera og því faglærða. Það er ekki hægt að líkja því saman. Og kjarasamningar sem gengið hafa til atkvæða í stéttarfélögum og stéttarfélög hafa samþykkt eiga auðvitað og eðli máls samkvæmt að gilda út samningstímabil. Annað veikir þessar stéttir þegar til lengri tíma er litið.

En ég vil eindregið hvetja hæstv. ráðherra til þess, og þannig mun nefndin örugglega vinna að þessu máli, að sjónarmið þeirra sem þarna eiga hlut að máli, hvort sem um er að ræða opinbera starfsmenn eða á almenna vinnumarkaðnum, fái að koma fram. Örugglega verða lagðar fram margar brtt. í átt til samræmingar, ekki bara til að skerða réttinn heldur einnig til að auka þau réttindi sem fyrir eru.