Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 10:48:32 (2613)

1999-12-09 10:48:32# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[10:48]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að ég hafi komið í framsögu minni, þótt knöpp væri, inn á meginatriði þessa máls sem liggur í því að það er skynsamlegra út frá öllum efnahagslegum forsendum að uppfylla skilyrði Verðbréfaþings með því að selja úr hlut ríkissjóðs fremur en að bjóða út nýtt hlutafé. Ef hins vegar á að taka upp umræðu um það hvort yfirleitt sé rétt að hafa bankana skráða á þinginu eða hvort fara eigi fram á fram lengri aðlögunartíma, svo maður tali ekki um að taka bankana af skrá, þá er náttúrlega verið að tala um allt aðra hluti sem breyta þeim forsendum sem fólk, sem hefur verið að fjárfesta í bönkunum, hefur gert slíkar ráðstafanir á. Ég tel að það væri mikið alvörumál ef þingheimur ætlaði að taka sér það fyrir hendur að rýra verðgildi þeirra hluta sem eru í bankanum, hvort sem þeir hlutar eru í eigu almennings, stofnana, fyrirtækja eða ríkissjóðs með því að hringla með skráningu bankans á Verðbréfaþinginu. Ég tel að það sé alveg einsýnt ef bankarnir vilja standa undir nafni og koma fram eins og önnur fyrirtæki á Verðbréfaþingi og vera góðir fjárfestingarkostir sé það ekki gert með því að verið sé að hringla með skráningu þeirra eða skilyrði til skráningar á þinginu. Það á að uppfylla þetta einn, tveir og þrír, eftir að búið er að fá frestinn og eftir að bankarnir eru farnir að starfa á verðbréfamarkaði eins og önnur fyrirtæki.