Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 11:49:45 (2615)

1999-12-09 11:49:45# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, Frsm. 2. minni hluta ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[11:49]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Lagabreytingin er ekki mikil að vöxtum en þar segir, með leyfi forseta:

,,Heimilt er að selja af hlutafé ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. 15% hlut í hvorum banka fyrir sig. Frekari sala á hlutafé í eigu ríkissjóðs í hlutafélagabönkunum er óheimil án samþykkis Alþingis.``

Svo mörg voru þau orð en 2. gr. frv. kveður á um að lög þessi skuli öðlast þegar gildi.

Hvers vegna skyldi liggja svo mikið á að keyra frv. í gegnum Alþingi? Jú, það eru að koma jól. Fólk fer að kaupa jólagjafir og það getur fengið skattafslátt um áramótin og þess vegna verður að flýta þessu fyrir hátíðar. Þetta eru í alvöru talað rökin sem ríkisstjórn Íslands færir fram fyrir því að selja hlut almennings í þessum tveimur ríkisbönkum, Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands. Það eru að koma jól. (Viðskrh.: Og gefa sparnað í jólagjöf.) Að gefa sparnað í jólagjöf, segir hæstv. iðn.- og viðskrh. og staðfestir hér með þá röksemd sem margir hafa án efa tekið sem grín en er alvara málsins, vegna þess að það er ekkert sem knýr á um þessa sölu núna annað en þetta.

Samkvæmt reglum sem gilda á Verðbréfaþingi yrði að vera búið að ganga frá því að ríkið losaði sig við 25% hluta í ríkisbönkunum fyrir 1. júní, fyrir mitt næsta ár. Ef ríkisstjórnin ætlaði að verða við þessu þá er það að sönnu rétt að ráðast þyrfti í þessar breytingar fyrir þann tíma en ekki núna fyrir áramót. Reyndar er ég því andvígur að yfir höfuð verði ráðist í þessar breytingar, hvað sem viðkemur reglum sem gilda á Verðbréfaþinginu. Ég held að hagsmunir þjóðarinnar allrar eigi að vega hér þyngra.

Að undanförnu hefur farið fram í þjóðfélaginu mikil umræða um fjármálastofnanir landsins, um bankana, og þær yfirlýsingar sem hafa verið gefnar í þessari umræðu hafa verið harla misvísandi. Hæstv. viðskrh., Finnur Ingólfsson, hefur talað mjög í véfréttastíl. En þó var hann afdráttarlaus um eitt atriði í viðtali sem Morgunblaðið átti við hann um síðustu helgi undir fyrirsögninni Bankar í tilhugalífi. Þar segir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Ég vil engin skilaboð senda um einn sameiningarkost umfram annan. Ég vil að þau boð komi frá markaðnum.``

Þetta var yfirlýsing hæstv. ráðherra varðandi þá umræðu sem nú fer fram í heimi fjármálanna um hugsanlega hagræðingu í bankaheiminum, hugsanlega sameiningu banka, en sú umræða er sprottin af áformum ríkisstjórnarinnar nú um sölu á 15% hlut í ríkisbönkunum.

Fyrir nokkrum árum ritaði hagfræðingur, prófessor við Princeton-háskólann í Bandaríkjunum grein fremur en bók, ég held það hafi verið grein, sem bar heitið ,,Is Government too Political?``, er ríkisvaldið of pólitískt? Þessi grein fjallaði um afskipti fulltrúa almannavaldsins af fjármálalífinu og hvort eðlilegt væri að pólitískra áhrifa gætti, t.d. í seðlabönkum eða í bankakerfinu almennt. Þetta var frjálshyggjuviðhorf sem byggði á því að almannahagsmunir og almannasjónarmið ættu að víkja fyrir hagsmunum peninganna, gróðahagsmunum.

Þetta er sú stefna sem Framsfl. hefur nú tekið upp undir forustu hæstv. viðskrh., Finns Ingólfssonar. Hann segir að boðin eigi að koma frá markaðnum. Hann ætli ekki að hafa skoðun á þessum málum. Þetta sagði hæstv. viðskrh. í viðtali við Morgunblaðið um síðustu helgi.

En á markaðnum hafa komið ýmis skilaboð og þau hafa ekki öll verið á einn veg. Kristján Ragnarsson, formaður bankaráðs Íslandsbanka, sagði í viðtali við Morgunblaðið sl. sunnudag að stjórnendur bankans hafi mætt miklu meiri skilningi í þessu máli --- og þá er hann að tala um hugsanlega sameiningu banka og verið var að fjalla um hvort ráðlegra væri að sameina ríkisbankana eða sameina Íslandsbanka öðrum hvorum ríkisbankanna, Landsbanka eða Búnaðarbanka --- hjá stjórnendum Landsbankans en Búnaðarbankans.

Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, er að vísu varkár í viðtali við Morgunblaðið en segir að eftir áramótin eigi stærstu einingarnar á markaðnum, þ.e. Íslandsbanki og Landsbanki, að koma fyrst til skoðunar þegar farið verður að hagræða í bankakerfinu.

Yfirlýsingar af þessu tagi hafa enn kynt undir umræðunni. Í fréttum Ríkisútvarpsins í gær segir, með leyfi forseta:

,,Spenna ríkir á verðbréfamarkaðnum vegna hreyfinga á hlutabréfum í viðskiptabönkunum.``

Síðan eru þessar yfirlýsingar raktar og ummæli forsvarsmanna bankanna.

Og ekki er lát á viðbrögðum vegna þessa. Í fjölmiðlum í dag er talsverð umfjöllun um þessi efni. Einn ráðherra ríkisstjórnarinnar og samflokksmaður hæstv. viðskrh., Guðni Ágústsson, hæstv. landbrh., segir í Degi í dag, með leyfi forseta:

,,Það má ekki líta fram hjá því að sameinaðir Íslands- og Landsbanki yrðu með 60--70% hlutdeild af bankamarkaðnum.``

Hann segir enn fremur í þessu sama viðtali, með leyfi forseta:

,,Landsbankinn er afar verðmætt fyrirtæki, fólkið í landinu á hann og það verður að vera tryggt að þjóðin tapi ekki eign sinni heldur verði hún efld.``

Þetta eru ummæli hæstv. landbrh., Guðna Ágústssonar, og samflokksmanns hæstv. viðskrh.

[12:00]

Í sömu fréttaumfjöllun í Degi er vitnað í Guðmund Hauksson, sparisjóðsstjóra í SPRON. Hann sagðist í samtali við Dag sjá ýmsa annmarka á því út frá samkeppnissjónarmiðum að Íslandsbanki og Landsbanki sameinuðust. Hæstv. viðskrh. lýsti því hins vegar yfir í Morgunblaðinu, eins og ég vitnaði til, að hann hefði enga skoðun á þessum málum. Markaðurinn ætti að ráða og hann biði eftir boðum frá markaðnum.

Þessi skilaboð hafa borist upp á síðkastið og vakið gremju, óánægju og óróa, t.d. hjá ungum framsóknarmönnum. Þeir hafa af þessu þungar áhyggjur. Á stjórnmálavef Sambands ungra framsóknarmanna var í gær fjallað um hugmyndir um að Íslandsbanki fái Landsbankann til sín. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Kristján Ragnarsson, formaður LÍÚ og stjórnarformaður Íslandsbanka, sagðist í viðtali í kvöldfréttum sjónvarpsins í gær fagna því mjög að Íslandsbanki fengi að yfirtaka Landsbankann. Enda fór hann ekki leynt með þá ánægju sína að slíkum stórbanka yrði stjórnað af þeim Íslandsbankamönnum í krafti stærri eignarhluta eftir sameiningu. Í mikilli fréttaskýringu um bankamálin í Mogganum sl. sunnudag kemur fram að eftir boðaða sölu ríkisins á hlutafé sínum í bankanum á næstu vikum mundi ríkið eiga um 40% í hinum sameinaða stórbanka, en núverandi hlutahafar Íslandsbanka 44%. Það sjá það því aðrir en Kristján Ragnarsson hvað þeir Íslandsbankamenn kæmust í feitt ef þessi sameiningarkostur yrði ofan á. Einn af forustumönnum sparisjóðanna segir í fréttaskýringunni:

,,Það sér hver maður í hendi sér, að með því yrði samkeppnismarkaðurinn eyðilagður. Við verðum að gera það upp við okkur hvernig þjóðfélag við viljum skapa. Við höfum búið við frjálst hagkerfi þar sem samkeppnin hefur ráðið. Því yrði stefnt í voða.``

Þetta segir talsmaður sparisjóðanna, sem ekki vill láta nafn síns getið af skiljanlegum ástæðum. Þau eru hins vegar afar skiljanleg í ljósi þess að sameiginleg hlutdeild Landsbanka og Íslandsbanka á íslenska bankamarkaðinum yrði rétt um 60%, eða nærri þrefalt meiri en keppinautanna Búnaðarbankans og sparisjóðanna.``

Þetta sagði á vefsíðu ungra framsóknarmanna í gær.

En ég legg við hlustir þegar talsmenn bankamanna, starfsmanna bankanna tjá sig um þessi mál. Í viðtali við Friðbert Traustason, formann Sambands ísl. bankamanna, í Degi í dag segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Persónulega mundi ég telja það vænlegri leið að sameina ríkisbankana tvo. Með því yrði meira úr eign landsmanna og það mundi skila meiri arði til þjóðarinnar. Þegar sameining Landsbanka og Búnaðarbanka var rædd á sínum tíma þótti eigendum Íslandsbanka það alveg útilokað, vegna þess hve sú eining yrði stór. Nú þykir þeim hins vegar alveg sjálfsagt að búa til enn stærri einingu með sameiningu Landsbanka og Íslandsbanka en sá banki hefði 65% hlutdeild á almennum bankamarkaði. Hver skilur þessa röksemdafærslu?``

Þannig spyr formaður Sambands ísl. bankamanna í blaðaviðtali sem birt er í Degi í dag.

Þetta eru umræðurnar sem nú kvikna í þjóðfélaginu. Um þetta hefur verið fjallað ítarlega í öðrum fjölmiðlum einnig. Morgunblaðið hefur tekið afstöðu með þessari sölu í leiðara. Í leiðara Morgunblaðsins sem birtist miðvikudaginn 1. des. segir, með leyfi forseta:

,,Það er áreiðanlega skynsamleg ákvörðun hjá ríkisstjórninni að selja 15% af hlut ríkisins bæði í Landsbanka og Búnaðarbanka á næstu vikum.``

Þetta er upphaf leiðarans. Ég er ósammála þessari afstöðu en verð hugsi þegar ég les niðurlag leiðarans. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um sölu hlutabréfanna í Landsbanka og Búnaðarbanka mun leiða til opinberra umræðna um þessa þróun alla og ekki við öðru að búast en þær umræður verði töluvert fyrirferðarmiklar á næstu mánuðum.``

Að mínum dómi er spurningin um á hvaða forsendum þessi umræða eigi að fara fram. Á hún að fara fram áður en ráðist er í aukna sölu á hlut ríkisins í bönkunum, eða eftir? (Viðskrh.: Samhliða.) Samhliða, segir hæstv. ráðherra. Hann er að ræða um lög sem hann vill fá staðfest helst fyrir miðnætti, samhliða.

Ég er að vitna í yfirlýsingar úr íslenskum fjármálaheimi, í íslenskum fjölmiðlum. Ég vek athygli á því hve misvísandi upplýsingar og yfirlýsingar koma fram. Ég bendi á hve misjafnar skoðanir á manna eru á þessum málum. Hve augljóst er að umræðan er rétt að hefjast. Þá segir ráðherra: Hún á að fara fram samhliða, þessi umræða. Hann er þá að vísa til næstu tíu, tólf tímanna væntanlega.

Ég hefði haldið að hyggilegra að taka undir með formanni bankaráðs Landsbankans, Helga S. Guðmundssyni, sem eftirfarandi er haft eftir í umfjöllun Morgunblaðsins, sunnudaginn 5. des., undir fyrirsögninni Bankar í tilhugalífi, með leyfi forseta:

,,Helgi S. Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, kveðst mjög jákvæður fyrir sameiningu fyrirtækja á fjármálamarkaðnum en telur skynsamlegt að stjórnendur bankans gefi sér góðan tíma til að skoða málið.``

Hann fær ekki þennan tíma. Menn fá ekki þennan tíma vegna þess að ríkisstjórnin ætlar, helst á næstu klukkutímum, að þröngva þessu frv. fram. Sannast sagna bíð ég spenntur eftir því að hér fari fram umræða þáltill. frá Frjálslynda flokknum um vinnulag sem mér er betur að skapi. Þar er kveðið á um að beina þessari vinnu inn í annan og skynsamlegri farveg.

Þetta vildi ég hafa, herra forseti, sem eins konar formála að ræðu minni um frv. ríkisstjórnarinnar sem kveður á um að selja 15% hlut í ríkisbönkunum. Með þessum frv., þeim lagabreytingum sem þeim fylgja er verið að setja allt fjármálakerfið í uppnám. Þetta eru afar óskynsamleg og óvönduð vinnubrögð. Það er ekkert nýtt frá hendi þessarar ríkisstjórnar en að mínum dómi er alvarlegt að svona skuli staðið að málum til þess eins að geta auðveldað fólki að kaupa jólagjafir. Ég leyfi mér að mótmæla þeim vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð.

Þá vil ég koma inn á sjálft frv. og þá afstöðu sem við höfum tekið til þess í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að beita sér fyrir sölu á 15% hlut í ríkisbönkunum, Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. á sér nokkurn aðdraganda. Löngu er vitað um áhuga fjármálamanna á því að einkavæða ríkisbankana sem og aðrar eignir ríkisins. Einnig hefur verið ljóst allan þennan áratug að þær ríkisstjórnir sem setið hafa undir forsæti Sjálfstæðisflokksins hafa verið hallar undir sjónarmið af þessu tagi. Hins vegar hafa raunveruleg áform sjaldnast verið opinberuð fyrr en að afloknum kosningum og má ætla að skýringin sé sú að andstaða gegn einkavæðingunni er mikil. Í þessu ljósi má eflaust skýra þá aðferðafræði sem notuð hefur verið við einkavæðinguna. Ákvarðanir hafa verið teknar skref fyrir skref og jafnan hefur verið haft á orði að nauðsynlegt sé að fara varlega í sakirnar; í mörgum tilvikum hefur því jafnvel verið lýst yfir að ekki standi til að selja við komandi ríkiseignir, einungis sé ráðgert að koma á breyttu rekstrarformi.

Við munum yfirlýsingar af þessu tagi þegar rekstrarformi Landssímans, Pósts og síma var breytt á sínum tíma. Þá lýstu fulltrúar ríkisstjórnarinnar því yfir að ekki stæði til að selja hlut ríkisins. Reyndar var það líka með Skýrsluvélar hf., Skýrr. Þá komu reyndar ekki yfirlýsingar um að ekki stæði til að selja en gefinn ákveðinn tímafrestur sem síðan var ekki virtur af hálfu eigenda Skýrr. En þetta hefur jafnan verið viðkvæðið: Við erum einvörðungu að breyta rekstrarforminu. Ekki stendur til að selja. Enn eitt dæmið er á leiðinni núna, áhugi ríkisstjórnarinnar eða Sjálfstfl. alla vega, á því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi hefur verið opinberaður. Þá vitum við sem er að næsta skref er að sjálfsögðu að selja. Yfirlýsingar af þessum toga voru viðhafðar þegar fyrst voru viðraðar hugmyndir um að gera Landsbankann og Búnaðarbankann að hlutafélögum í upphafi stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 1995. Nokkru síðar kom svo annað hljóð í strokkinn.

Enn kvað þó við þennan tón þegar frumvarp til laga um stofnun hlutafélaga um Landsbankann og Búnaðarbankann var lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþinginu 1996--1997. Í greinar gerð með frumvarpinu segir eftirfarandi, með leyfi forseta: ,,Þótt ekki sé ráðist í sölu á fjármálastofnunum í eigu ríkisins mælir margt með því að slík starfsemi sé rekin í formi hlutafélaga. Þetta á við jafnvel þótt ríkið sé eini eigandi viðkomandi hlutafélags eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Starfsemi hlutafélaga er í vandlega skilgreindu formi og hefur löggjafinn sett ítarlegar reglur þar um, m.a. um starfssvið stjórnar, framkvæmdastjórnar og aðalfundar. Nefna má að í hlutafélagalögum eru ákvæði sem vernda rétt minnihlutaeigenda. Þar sem ríkið býður öðrum til samstarfs um atvinnurekstur er því hlutafélagsformið sérstaklega viðeigandi. Með því að reka viðskiptabanka í hlutafélagsformi verður reksturinn einnig sveigjanlegri. Þá veldur fjárhagsleg uppbygging fyrirtækis því að mjög æskilegt er að reka fyrir tæki í eign ríkisins í hlutafélagsformi.``

[12:15]

Litlu síðar er áréttað í greinargerðinni að bankarnir verði áfram í eign ríkisins því þar segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið gerir ráð fyrir að óheimilt verði að selja eignarhluti ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., nema með samþykki Alþingis. Þannig er beinlínis tekið fram í 6. gr. frumvarpsins að hlutafé í eigu ríkissjóðs í bönkunum tveimur verði ekki selt, nema með samþykki Alþingis. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að hinum nýju hlutafélagsbönkum verði gefið nokkurt svigrúm til að fóta sig á markaðinum. Þau sjónarmið hafa komið fram að óvissa um eignarhald hlutafélagsbankanna geti leitt til þess að þeir eigi erfiðara með að ná hagstæðum kjörum í lánasamningum við erlenda lánveitendur. Til að tryggja festu í rekstri hlutafélagabankanna er miðað við að ríkissjóður selji ekki hlutabréf sín í þeim fyrstu fjögur rekstrarár þeirra.``

Hvað er verið að segja hér? Það er verið að segja að lögbundið sé að hlutur ríkisins verði ekki seldur næstu fjögur árin, og einnig var sagt að aðalástæðan fyrir að ráðist var í þessar lagabreytingar árið 1997 væri sú að hlutafélagsform væri heppilegt rekstrarform. Það var meginröksemdafærslan fyrir þeirri breytingu. Það átti ekkert að selja, það var meira að segja bundið í lög að það skyldi ekkert selt. Þar að auki ef slíkt vekti fyrir mönnum þá þyrfti að skapa festu í rekstrarumhverfinu og þess vegna var ákveðið og staðhæft í greinargerð með þessu stjórnarfrv. að sala færi ekki fram á næstu fjórum árum, eða frá 1. jan. 1998. Þetta voru fyrirheit og þetta voru loforð.

Eru fjögur ár liðin? Nei, það eru engin fjögur ár liðin. Er þá ekki verið að svíkja fyrirheit og loforð? Jú, það er verið að gera það.

En auðvitað var framtíðarlandið alltaf í huga stýrimanna ríkisstjórnarinnar. Að sjálfsögðu voru þetta bara blekkingar. Að sjálfsögðu átti að svíkja þetta allt. Það var bara verið að plata þjóðina eins og gert hefur verið með aðra hlutafélagavæðingu, eins og gert var með Landssíma, Póst og síma, og önnur fyrirtæki og stofnanir sem hafa verið einkavæddar og síðan seldar. En framtíðarlandið var alltaf í huga.

Í 6. gr. frv. sem ég er að ræða um núna frá 1997 þar sem bankarnir, Landsbankinn og Búnaðarbanki, voru gerðir að hlutafélögum, kemur fram að óheimilt sé að selja hlut ríkisins í bönkunum án samþykkis Alþingis. Engu að síður segir að ráðherra geti, og nú vitna ég, með leyfi forseta: ,,til að styrkja eiginfjárstöðu hlutafélagsbankanna, heimilað útboð á nýju hlutafé``.

Herra forseti. Ég sakna þess að viðskrh. skuli ekki vera viðstaddur umræðuna. Hann hefur áður gerst sekur um að tefja þingstörfin og ég óska eftir því að hann verði viðstaddur alla umræðuna, því að ég ætla að vitna í ummæli sem hann hefur viðhaft hér á Alþingi. En þar sem viðskrh. missti af þeim hluta ræðu minnar þar sem ég fjallaði um frv. ríkisstjórnarinnar frá 1997, um að gera ríkisbankana að hlutafélögum, þá ætla ég að stikla á því í örfáum orðum.

Ég vitnaði í þær lagagreinar þar sem segir að ekki sé heimilt að selja hlut ríkisins í bönkunum, Búnaðarbanka og Landsbanka, nema með samþykki Alþingis. Síðan var kveðið á um það í greinargerð með því stjórnarfrv. að ekki yrði seldur hlutur ríkisins á næstu fjórum árum frá 1. janúar 1998. Nú er desember 1999. Það eru engin fjögur ár liðin. Samt er verið að selja.

En hvernig skyldi standa á því að þrátt fyrir þessi fyrirheit og þrátt fyrir þessi lög sem kveða á um að bannað sé að selja hlut ríkisins nema með samþykki Alþingis, þá er 15% hlutur þegar kominn í eign annarra. Hvernig skyldi standa á því?

Jú, það er vegna þess að fyrirheitna landið, einkavæðingin, var náttúrlega alltaf í huga stýrimanna ríkisstjórnarinnar, að sjálfsögðu. Ég var kominn þar sögu að ég vakti athygli á því að í 6. gr. frumvarpsins þar sem fram kemur að óheimilt sé að selja hlut ríkisins í bönkunum án samþykkis Alþingis, segir engu að síður að ráðherra geti, --- og hér vitna ég, með leyfi forseta: ,,til að styrkja eiginfjárstöðu hlutafélagsbankanna, heimilað útboð á nýju hlutafé``. Með öðrum orðum inn í lögin var þessi klásúla sett, að ríkisstjórnin gæti heimilað útboð á nýju hlutafé. Útboði á hlutafé eru þó sett þau takmörk með þessum lögum að samanlagður eignarhlutur annarra aðila en ríkissjóðs megi ekki vera hærri en 35% af heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum bankanna um sig. Hér hafði sú snilldarlega aðferðafræði verið fundin upp að bann var sett við því að selja ríkisbankana án samþykkis Alþingis en hins vegar gat ráðherra gripið til þess ráðs að styrkja eiginfjárstöðu þeirra með aukningu hlutafjár. Þess vegna er sú staða komin upp nú þegar lagt er fyrir Alþingi frv. um heimild Alþingis til að selja 15% hlut ríkisins í bönkunum tveimur að --- og nú vitna ég, með leyfi forseta: ,,ríkið á ... um 85% hlutafjár í Landsbanka og Búnaðarbanka``. Ég vitnaði til greinargerðar þess frv. sem við erum nú að fjalla um því að ,,nýtt hlutafé í bönkunum að verðmæti um 15% af heildarhlutafé hvors banka var boðið almenningi til kaups síðari hluta ársins 1998``.

Bragðið gekk upp. Þjóðinni var sagt að það ætti ekkert að selja, Alþingi var sagt að það kæmi til kasta þess áður en ákvörðun yrði tekin um sölu á eignarhluta ríkisins.

Og ég minnist þess, herra forseti, að eiga hér orðastað við hæstv. viðskrh. um þessi efni í þingsal, þar sem hann kom upp í andsvar við ræðu sem ég flutti um einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar, þar sem ég gagnrýndi að hlutur ríkisbankanna hefði verið seldur. Hann vildi leiðrétta mig og sagði að þetta væri alrangt, engin sala hefði farið fram. Einvörðungu hefði verið um að ræða aukningu á hlutafé.

En niðurstaðan er nákvæmlega sú sama. Niðurstaðan er sú sama þegar hlutfélagaskráin er skoðuð. (Viðskrh.: Formið er annað.) Formið er annað, segir hæstv. viðskrh., en niðurstaðan sú sama.

Eitt af því sem menn hafa verið að fjalla um í efh.- og viðskn. þingsins, þegar þessi mál hefur borið á góma, er einmitt þetta, hvert er heppilegast form í því að afsala hlut ríkisins í bönkunum. Er skynsamlegra að fara þá leið að auka hlutafé bankanna eða á að selja hlut bankanna beint? Niðurstaðan er nákvæmlega sú sama hvað eignarhaldi viðkemur. Efnahagslegar afleiðingar þessa eru hins vegar mismunandi eins og ég kem að síðar í minni ræðu.

En þetta eru svo grófar blekkingar sem hér hafa verið viðhafðar að það eitt kallar á að menn staldri við. Það er augljóst að í öllum áformum ríkisstjórnarinnar í þessum efnum þurfa menn alltaf að lesa smáa letrið. Ég hefði haldið að við gætum ekki haldið þessari umræðu áfram í reynd nema við fáum mjög skýr svör frá hæstv. ráðherra um hver framtíðaráform hann sér á sviði fjármálamarkaðar á Íslandi. Það gagnar ekki að svara eins og hann gerði í Morgunblaðinu um síðustu helgi að hann ætlaði ekki að hafa neina skoðun, beðið væri eftir boðum markaðarins.

Það er ljóst að um þetta frv. og um þessi mál þarf að fara fram mikil og ítarleg umræða, ekki aðeins hér í þingsal --- við munum reyna að sjá til þess að svo verði gert --- heldur í þjóðfélaginu öllu. Það þarf að fara fram ítarleg umræða í þjóðfélaginu öllu áður en ráðist verður í þessar breytingar. Það dugar ekki að koma til Alþingis og segja, við verðum að samþykkja þetta með hraði vegna þess að jólin séu að koma. Þetta eru menn að segja í fullri alvöru. Og þá er verið að höfða til þess að fólk geti fengið skattameðgjöf. Þetta eru náttúrlega ekki boðleg rök á nokkurn hátt.

En hvers vegna vill ríkisstjórnin selja bankana? Ástæður fyrir ákvörðun ríkisstjórnarinnar að selja bankana hafa verið færðar í margvíslegan búning. Í greinargerð með frv. segir, með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórnin hefur haft þá stefnu að jafna aðstæður á milli ríkis og einkaaðila og draga úr hlutverki ríkisins í starfsemi sem einkaaðilar geta stundað og þar sem samkeppni þrífst. Þetta á ekki hvað síst við um fjármagnsmarkaðinn.``

Hér er lýst pólitískri stefnu. Að sjálfsögðu er reynt að leiða rök að því að það sé til mikilla hagsbóta að fylgja þeirri stefnu og selja ríkisbankana; til lengri tíma þjóni það markaðsviðskiptum, til skemmri tíma sé á það að líta að salan færi ríkissjóði tekjur, en jafnframt hefur því sjónarmiði nokkuð verið haldið á lofti að nú þegar þenslumerkja gætir í efnahagslífinu sé sala á ríkiseignum til þess fallin að draga úr þenslunni því að með því móti sé bundið fjármagn sem að öðrum kosti færi til neyslu.

Hin pólitísku rök fyrir því að einkavæða bankana ber að sjálfsögðu að taka alvarlega. Í greinargerð með frv. er velsæld bankanna rakin til þess að þeir voru gerðir að hlutafélögum. Og þetta eru sjónarmið sem við höfum heyrt hér í umræðum á Alþingi undanfarna daga, bæði um bankana og aðrar stofnanir sem hafa verið einkavæddar. En í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

[12:30]

,,Árangurinn af þessum aðgerðum hefur þegar komið í ljós.`` Hér er vísað til hlutafélagavæðingarinnar. ,,Rekstur Landsbankans og Búnaðarbankans hefur gengið vel og er hagnaður þeirra meiri en áður í sögu bankanna þrátt fyrir að vaxtamunur hafi lækkað verulega. Samanlagður hagnaður bankanna var nærri 1.600 millj. kr. á árinu 1998 og um 1.300 millj. kr. á fyrri hluta þessa árs. Áhyggjur manna um að bankarnir þyrftu langan tíma til aðlögunar áður en hægt væri að hefja sölu hlutafjár ríkissjóðs hafa ekki átt við rök að styðjast. Aðlögunarhæfni bankanna er góð, svo sem meðal annars sést á hagnaði þeirra og lægri lántökukostnaði á nýjum lánum þrátt fyrir afnám ríkisábyrgðar.``

Hér kemur fram að hagsæld bankanna er rakin til þess að þeir voru gerðir að hlutafélögum fyrir fáeinum missirum en ekki til hins að á undanförnum árum hefur betur aflast en dæmi eru um í Íslandssögunni. Markaðir fyrir afurðir okkar hafa verið hagstæðir og öll ytri skilyrði ákjósanleg. Af þessu ástandi hafa bankarnir að sjálfsögðu notið góðs. Fyrirtæki hafa verið aflögufær og þannig hefur dregið úr afskriftum og arðsemi fjár hefur verið mikil. Þetta eru staðreyndir málsins. En síðan leyfir einkavæðingarnefndin og frjálshyggjuliðið og þeir aðilar sem tala fyrir einkavæðingu og sölu á almannaeignum að heimfæra þessa hagsæld í þjóðarbúinu sem verður til vegna hagstæðra ytri skilyrða vegna þess að bankarnir hafi verið gerðir að hlutafélögum. Þetta ætla menn að setja fram sem boðlegan rökstuðning. Það er það náttúrlega ekki. Þetta er ekki boðlegur rökstuðningur.

Í umræðu um ríkisbankana hefur því verið haldið mjög á loft að fyrr á árum hafi þeir verið óábyrgir með afbrigðum, lánað til áhættusamrar útgerðar og fyrirtækja vítt og breitt um landið og síðan þurft að súpa seyðið af afleiðingunum þegar hefur kreppt að í efnahagslífinu. Mér finnst mjög varasamt að fordæma allar slíkar lánveitingar til stuðnings atvinnulífi þótt það sé vissulega ánægjuleg þróun að lánastofnanir sýni ábyrgð í lánveitingum og láni þeim sem öruggt má heita að geti endurgoldið skuldir sínar. Þá kann það engu að síður stundum að vera landsmönnum til góðs að lánastofnanir láti ekki stjórnast af ágóðavoninni einnig heldur sýni einnig félagslega ábyrgð á ögurstundu þegar kreppir að í atvinnulífi byggðarlaga. Pólitísk stefnumörkun ríkisstjórnarinnar er hins vegar þrengri en svo að hún rúmi slíka samfélagssýn.

Ég minnist þess nú frá því fyrir nokkrum mánuðum þegar samdráttur varð mikill á Vestfjörðum, kvóti var fluttur frá því byggðarlagi, fyrirtæki urðu gjaldþrota, urðu að segja upp fólki og einstaklingar sem urðu fjárvana fyrir vikið leituðu eftir lánafyrirgreiðslu í bönkunum, líka til ríkisbankanna og var meinað um slíkt. Þá komu þær röksemdir að veðin dygðu ekki. Bisnessrökin voru komin fram og þetta er sú hugsun sem er farin að gegnsýra allt okkar huglíf. En fólkið fyrir vestan brást ókvæða við og reiddist þessu og spurði hvort það ætti ekki rétt á lánum og aðstoð. Ég tók undir það í hjarta mínu og hefði ekki fundist það neitt óeðlilegt eða óábyrgt að gera slíkt. En þessi hugsunarháttur er víkjandi og hæstv. viðskrh. og Framsfl. gengur fram fyrir skjöldu til að víkja þessum hugsunarhætti út úr þjóðlífi okkar. Mér finnst þetta ekki vera til góðs. En ný sjónarmið og nýir menn eru komnir til sögunnar. Mönnum brá pínulítið fyrst í stað þegar peningafólkið fór að sýna niður í gullkisturnar, hverju þar hefur verið safnað á undanförnum árum, þegar einstaklingur reiddi fram litlar 700 millj. til kaupa á lóð á höfuðborgarsvæðinu og síðan þegar matadorinn með bankana byrjaði fyrir alvöru og menn fóru að tala í milljörðum. Enn brá mönnum svolítið í brún fyrst í stað en nú er þjóðin að venjast þessu. Þetta er hugsunarhátturinn, þetta eru einstaklingarnir og þetta eru öflin, markaðsöflin sem hæstv. viðskrh. og Framsfl. vill leiða til vegs og virðingar í íslensku þjóðfélagi. Fátækt fólk á Vestfjörðum, sem missir vinnu sína, á ekki að fá lán, það er ekki borgunarfólk. En hinir sem hafa aðgengi að bönkunum og fjármálaheiminum njóta allrar fyrirgreiðslu og þeir eiga að njóta allrar fyrirgreiðslu. Ég hlusta á það sem markaðurinn segir. Þetta var viðkvæðið hjá hæstv. viðskrh. í blaðaviðtölum um helgina.

Hvað hefur verið að breytast í bönkunum? Hvað er að breytast í ríkisbönkunum? Hvers vegna er þessi breytti hugsunarháttur þar? Vissulega má til sanns vegar færa að þessi hugsunarháttur eigi að einhverju leyti rætur í tíðarandanum. Þetta er þjóðfélag sem hugsar mjög á viðskiptavísu en það er ekki bara það. Í ríkisbönkunum hefur verið þrengt mjög að lýðræðislegri hugsun og lýðræðislegri stjórnun. Stjórnarfyrirkomulag ríkisbankanna hefur verið með þeim hætti að reynt hefur verið að tryggja að sjónarmið úr sem flestum áttum í samfélaginu komist að og hefur það verið gert með því að kjósa bankaráð ríkisbankanna á Alþingi. Með hlutafélagsvæðingunni var þetta fyrir bí og tilnefningarvaldið fært undir viðskrh. einan.

Þegar bankarnir hafa verið seldir að fullu eins og ríkisstjórnin hefur áform um í fyllingu tímans þá koma stjórnendur bankanna allir úr heimi fjármálanna og með það sjónarhorn á tilveruna sem þar er við lýði. Við vinnslu þessa frv. var leitað til margra aðila á fjármálamarkaði og kom berlega í ljós að sjónarhornið var harla einsleitt og er hugsjóninni um hámarksarðsemi haldið hátt á loft. Sannast sagna fannst mér það vera umhugsunarefni í vinnslu frv. í efh.- og viðskn. þar sem staðið var ágætlega að verki og orðið við öllum óskum um fulltrúa sem kæmu með sjónarmið sín að þessari vinnu, ekkert yfir því að klaga. En mér finnst það umhugsunarefni þegar saman koma fulltrúar fjármálalífsins á Íslandi, fulltrúar bankanna, Seðlabankans, Þjóðhagsstofnunar, Fjármálaeftirlits, allra þessara aðila, hversu einsleit sjónarmiðin eru og hversu þröngt sjónarhornið er orðið. Það er einmitt gegn þessari hugsun, þessari markaðshyggju, þessari þröngu gróðahugsun sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð reis. Þess vegna varð hún til.

Við viljum berjast fyrir öðru sjónarhorni í íslensku þjóðlífi, öðrum hugsunarhætti. Við viljum gerast málsvarar skynseminnar og sanngirninnar, skynsemi og sanngirni. Við erum málsvarar þess og alveg óhrædd að segja það að íslenskur þjóðbanki á að sýna ábyrgð í lánveitingum til byggðarlaga á Íslandi þegar kreppir að, þegar fólki er sagt upp störfum í stórum hópum, þegar fólk missir vinnu sína og atvinnureksturinn lendir í erfiðleikum, þá er ekkert óeðlilegt við það að lánastofnanir sýni ábyrgð og hugsi ekki á þann þrönga hátt sem verið að þvinga alla hugsun inn í.

Í umræðunum um sölu á ríkisbönkunum er ítrekað haft á orði að ríkið eigi ekki að vera að rekast í því sem einkaaðilar geta stundað, eins og þar segir. Reyndar er gengið lengra og fullyrt að einstaklingar geti starfað á hagkvæmari máta en stofnanir sem lúti almannastjórn. Sagan, reynslan talar hins vegar öðru máli. Vitað er að þegar einkabankar hafa lent í kröggum eins og gerðist víða um lönd á síðasta áratug, það gerðist í Bandaríkjunum, það gerðist í Kanada, það gerðist í Svíþjóð, það gerðist í Noregi. Í öllum þessum tilvikum hljóp ríkið undir bagga því að það var mat manna að ella hefði blasað við efnahagslegt hrun í þessum löndum.

Í Noregi veitti norska ríkið um 50 milljarða norskra króna, 500 milljarða íslenskra króna, til að endurreisa banka sem höfðu verið einkavæddir og síðan hrunið. Sú spurning vaknaði í kjölfarið hvort ekki væri eðlilegt að fulltrúar þessa sama almannavalds, sem kom til aðstoðar á ögurstundu, ættu ekki einnig að hafa hönd í bagga þegar betur áraði. Afleiðingin af þessu varð sú að viðhorfin breyttust mjög hvað þetta varðar í Noregi og þannig varð það viðhorf ríkjandi að eðlilegt væri að ríkið, að almenningur ætti afgerandi eignarhluta í nokkrum stærstu bönkum landsins. Norðmenn voru brenndir af reynslunni. Nú er það svo í Noregi að norska Stórþingið mótar stefnuna í þessu tilliti, ekki ríkisstjórnin eins og hér er. Reyndar er það ekki einu sinni ríkisstjórnin því að það er markaðurinn eins og hæstv. viðskrh. segir. Ég hlusta bara á markaðinn. Ég hlusta bara á hvað peningamennirnir segja. Ég hlusta bara á hvað gróðaöflin vilja að ég geri. Ég framkvæmi eins og þau biðja mig um. Þetta er ömurlegur vitnisburður.

Þess má geta til áréttingar að fyrir nokkrum dögum var Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, spurður út í stefnu sína í bankamálum og hann vísaði til stefnu norska Stórþingsins. Þar er viðurkennt að þingið eigi að móta þessa stefnu. Hér er það ekki einu sinni svo. Það er ekki einu sinni ríkisstjórnin. Hún tekur bara við fyrirskipunum utan úr bæ og framkvæmir síðan, einkavæðir og selur fyrir jólin. Hún segir það alveg blákalt að hún sé að gefa jólagjafir. Ég er alveg viss um að einhver hefur haldið að ég væri að grínast í upphafi þegar ég sagði að þessu hafi verið beitt sem röksemdum en eftir að hæstv. viðskrh. kallaði fram í og staðfesti þetta, þá sjá menn að þetta er ekki grín. Þetta er alvara málsins. Menn eru að gefa jólagjafir. Þess vegna segir hæstv. viðskrh. og hv. formaður efh.- og viðskn. að það verði að klára þetta mál fyrir vikulok svo menn geti farið að versla fyrir jólin. Við erum að tala um ríkisbankana á Íslandi og það er gengið í málið af þessari léttúð.

[12:45]

Samkvæmt pólitískum kokkabókum ríkisstjórnarinnar er mikið lagt upp úr söluhagnaði einkavæðingarinnar. Það er hins vegar ástæða til að leggja áherslu á að varast ber að leggja mat á söluna á annan hátt en með langtímahagsmuni að leiðarljósi. Hér eru skammtímahagsmunir varasamir. Aldrei hafa það þótt mikil búhyggindi að selja mjólkurkýrnar fyrir skammtímagróða. Þá er vert að hafa í huga að þótt ríkisstjórnin telji sig geta hagnast um 6 milljarða kr. á sölu 15% hlutar miðað við gengi hlutabréfa bankanna um miðjan nóvember eins og haldið er fram af talsmönnum hennar skal þess minnst að ætla má að nokkur meðgjöf af opinberri hálfu verði með sölunni.

Þá kem ég aftur að því sem ég sagði um skattafsláttinn fyrir jólin. Erfitt er að gera sér grein fyrir hve mikill afslátturinn verður, hve mikið ríkissjóður, skattborgarinn, greiðir í meðgjöf til þeirra sem ætla að kaupa hlut í ríkisbönkunum. Ég leitaði til fjmrn. eftir upplýsingum um þetta efni. Þar var réttilega bent á að erfitt væri að áætla þetta vegna margra óvissuþátta. En ég fékk hins vegar upplýsingar um umfang skattafsláttar af hlutafjárkaupum frá árinu 1991. Þar kemur fram að við erum að tala um háar upphæðir.

Á árinu 1991 nam skattafslátturinn, þessi meðgjöf úr ríkissjóði með hlutabréfakaupum meira en hálfum milljarði kr., reyndar drjúgt það, 664 millj. Á þessu ári, fyrir árið 1999, er upphæðin komin í yfir 800 millj. Þannig erum við að tala um umtalsverða peninga. Ég minni á, þegar menn segja að þetta sé almenningur og eðlilegt sé að stuðla að viðskiptum á þessu sviði, umræðu þá er fram fór fyrir nokkrum dögum um stöðu öryrkja. Ég minni á að fljótlega tökum við til afgreiðslu fjárlög þar sem ljóst er að ríkisstjórnin ætlar að standa gegn beiðnum ýmissa heilbrigðisstofnana og félagssamtaka, líknarfélaga sem sinna aðkallandi verkefnum. Við skulum hafa þessa upphæð í huga þegar ríkisstjórnin kynnir okkur stefnu sína gagnvart hópum sem standa höllum fæti. Þetta eru upphæðirnar þegar við erum tala um skattafslátt. Þetta eru upphæðirnar í heild sinni sem segja þó ákaflega lítið um þær upphæðir sem hér er um að tefla. Eins og við vitum getur þessi skattafsláttur, þessi jólagjöf skattborgarans til hlutabréfakaupenda, numið 60 þús. á heimili. Auðvitað vitum við að kaupendur að þessum 15% hlut eru miklu stærri aðilar.

Í fyrirkomulagi á tilboðssölunni er einungis kveðið á um að sett verði hámark á hvað hver kaupandi megi kaupa og skal miðað við að hver aðili megi kaupa að hámarki 1% af hlutafé bankans. Þannig getur hver kaupandi gert tilboð í 370 millj. kr. í báðum bönkunum eða 150 millj. í Búnaðarbanka og 220 millj. kr. í Landsbanka, miðað við núverandi gengi. Við erum að tala um háar upphæðir sem hver einstakur kaupandi geti keypt. Auðvitað geta menn brosað að tali mínu um skattafsláttinn og meðgjöfina. Það er náttúrlega fyrir einstaklinga sem kaupa fyrir tiltölulega litlar upphæðir. Stóru jólagjafirnar sem ríkisstjórnin er að hugsa um eru til miklu öflugri aðila. Það eru til aðilar sem hæstv. viðskrh. hlustar á og tekur við skilaboðum frá þegar hann segist hlusta á markaðinn, aðspurður hver stefna ríkisstjórnarinnar sé gagnvart samruna og hagræðingu í fjármálaheiminum.

Í grg. með frv. ríkisstjórnarinnar er gerð grein fyrir eignum viðskiptabanka og ríkisbanka en samkvæmt efnahagsreikningi voru eignir viðskiptabanka og sparisjóða alls um 446 milljarðar kr. í lok árs 1998, vaxtatekjur þeirra námu 32,6 milljörðum kr. og starfsmenn voru um 2.700 talsins. Miðað við þessa mælikvarða er Landsbankinn stærsti banki landsins með 32--35% hlutdeild, þá kemur Íslandsbanki með 24--26%, næst sparisjóðirnir með 21--23% og að lokum Búnaðarbankinn með 20--21%. Staðreyndin er sú að almannasjóðir sjá ekki fram á tap af ríkisbönkunum. Ljóst er að öll þróun hefur verið í hagnaðarátt á undanförnum árum og ekki merki um annað en að sú þróun sé einnig fram undan.

Nú hafa verið birtar töflur um gengi bankanna á undanförnum árum. Þegar litið er sérstaklega á Landsbankann og Búnaðarbankann sést að stefnan er í mjög jákvæða átt. Það er að draga úr vaxtamun. Vaxtamunur hjá Landsbankanum var 4,22% árið 1995 en er kominn niður í 3,16% árið 1998. Afskriftir fara minnkandi, eru 1,33% árið 1995, 1,16% 1996 og fara niður í 0,40% 1997 og eru 0,67% 1998. Hagnaður í milljörðum kr. er 0,2 árið 1995 en er komið upp í tæpan milljarð 1998. Eins og ég lýsti áðan er gert ráð fyrir að samanlagður hagnaður bankanna verði mikill á þessu ári. Hann var nærri 1.600 millj. á árinu 1998 en er um 1.300 millj. á fyrri hluta þessa árs. Það því er alveg rétt sem kemur fram í máli hæstv. landbrh. Guðna Ágústssonar í Degi í dag. Landsbankinn er mjög verðmæt almannaeign og það á við um Búnaðarbankann líka, sem ríkisstjórnin er að fara að gefa í jólagjöf. Þetta eru mjög verðmætar eignir. Tölurnar sýna okkur að það gengur mjög í rekstri þessara stofnana.

Arðsemi eigin fjár hjá Landsbankanum var 3% árið 1995 en er kominn upp í 12,4% 1998. Það er von að menn geti ekki beðið eftir jólasveininum. Að sjálfsögðu sjá þeir sem eiga möguleika á að komast yfir þessar eignir mikla kosti við þessa sölu. Ef litið er á samsvarandi tölur fyrir Búnaðarbankann þá var vaxtamunur árið 1995 4,69% hjá Búnaðarbankanum en en var kominn niður í 3,73% 1998. Afskriftatölurnar voru 1,07% árið 1995 en eru komnar niður í 0,87% 1998. Arðsemi eigin fjár var 5,7% árið 1995 en er komin upp í 14,6% 1998. Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn segja í grg. með frv. sínu að þetta sé allt að þakka því að bankarnir voru gerðir að hlutafélögum.

Það getur vel verið að ríkisbankarnir séu orðnir aðgangsharðari við fólk. Þeir lána kannski síður þeim sem illa er hægt að treysta á að geti endurgoldið skuldir sínar, t.d. atvinnulausu fólki, fólki sem missir vinnu sína vestur á fjörðum eða annars staðar eins og gerðist fyrir fáeinum mánuðum. Það má vel vera að þetta skili meiri arðsemi þó ég gagnrýni þá breyttu stefnu. Ég hef ákveðnar efasemdir um þetta. Ég vil víðara sjónarhorn.

(Forseti (GuðjG): Forseti hyggst gera hlé á fundinum frá kl. 1--1.30 og spyr hv. þm. hvort hann sé kominn að lokum ræðu sinnar eða hvort hann óskar eftir að gera hlé á máli sínu.)

Ég óska eftir að gera hlé á máli mínu. Ég á talsvert eftir.

(Forseti (GuðjG): Þá höldum við áfram í svona tvær mínútur en gerum síðan matarhlé.)

Ég var að ræða um hve vel gengur með rekstur bankanna. Ég hef ákveðnar efasemdir um að hörð peningahyggja skili okkur þeim þjóðfélagslega ávinningi sem margir vilja ætla. Ég hef ákveðnar efasemdir um það og gagnrýni það. Hins vegar fagna ég því að sjálfsögðu að bankarnir skuli vera reknir vel. Ég fagna því að bönkunum, eins og öðrum stórum fyrirtækjum og stofnunum í þjóðfélagi okkar skuli ganga vel og enda er augljóst af hverju það er. Við höfum búið við góðæri á Íslandi, hagstæð ytri skilyrði. Það hefur gengið vel í efnahagslífi okkar þrátt fyrir óstjórn, þrátt fyrir þá ríkisstjórn sem hér hefur því miður haldið illa á málum að ýmsu leyti. Ytri skilyrði hafa skilað Íslendingum mikilli hagsæld sem þjóðarheild. Hagsældinni er hins vegar mjög misskipt eins og við fengum að vita fyrir fáeinum dögum í umræðu um kjör öryrkja og aldraðra annars vegar og hins vegar efnafólks, skjólstæðinga hæstv. viðskrh. eða var það öfugt.

(Forseti (GuðjG): Forseti biður hv. þm. að gera hlé á máli sínu. Fundinum verður frestað til kl. 13.30.)