Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 14:35:11 (2620)

1999-12-09 14:35:11# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[14:35]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt við þessu sem ég er að vara, þessu eina auga í miðju enni sem er ómögulegt að sjá til beggja átta. Skilur hv. þm. ekki að efnahagskerfið er flóknara en svo að það sé hægt að afgreiða það á þennan hátt? Flutningur á miklum arði frá fyrirtækjum og fólki, frá framleiðslunni yfir til fjármagnseiganda, hvort sem það heita lífeyrissjóðir eða aðrir fjármagnseigendur, getur verið varasamur og komið þeim í koll sem aðild eiga að lífeyrissjóðunum og njóta góðs af fjármálastofnunum. Þetta er allt samhangandi. Þetta er ein heild og það verður að gæta að jafnvægi hlutanna. Ég er einmitt að vara við þessari einsýnu gróðahugsun sem virðist knýja hv. þm. Pétur H. Blöndal áfram. Sem betur fer eru ekki allir á þessu máli. En það er verið að reyna að beina þjóðfélaginu inn í þennan farveg. En ég fagna þessari umræðu. Ég mun taka þátt í henni betur þegar ég kem að nýju til hennar síðar í dag.