Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 20:06:10 (2635)

1999-12-09 20:06:10# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[20:06]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Bara til að svara enn frekar spurningu hv. þm. sem sneri að reglum í útboðslýsingunni, sérsaklega að þeim þætti sem snýr að tilboðssölunni sem slíkri, þá sagði ég áðan, og það er skoðun mín, að ég tel ekki þá hættu vera til staðar að þarna geti orðið um eignasöfnun að ræða á fárra aðila hendur eins og hættan var í útboðinu á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins vegna þess að þá vorum við að bjóða út 51% hlutafjár. En nú erum við aðeins með í tilboðssölu 5% hlutafjár af þessum 15%, eða einn þriðja af þeirri sölu sem núna verður boðin út. Þetta var tillaga einkavæðingarnefndar ríkisstjórnarinnar. Á hana er fallist af þeim ráðherrum sem í einkavæðingarnefndinni eru og ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en að við hana sé fullur stuðningur af ríkisstjórnarinnar hálfu líka.