Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 20:09:45 (2638)

1999-12-09 20:09:45# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[20:09]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lýsti því í ræðu minni hér áðan að ég teldi ofureðlilegt að ríkið reyndi að minnka sinn hlut í viðskiptabönkunum sem það hefur náttúrlega átt í áratugi og ég tel það fullkomlega eðlilegt. Hins vegar er það aðdragandi málsins og hvernig það ber hér að þinginu sem gerir það að verkum að maður er örlítið hugsi. Maður er hugsi yfir því hvort raunveruleg ástæða þessarar sölu sé sú sem fram kemur í greinargerð með frv., um að nauðsynlegt sé að uppfylla einhver skilyrði á Verðbréfaþingi svo hægt sé að skrá bankana á þinginu. Það er ein af þeim ástæðum sem gefin er upp.

Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni áðan að hann teldi það mjög æskilegt að sameina banka svo að þeir gætu þjónustað stóra kúnna. Nú vitum við að stórir kúnnar geta auðveldlega sótt á Evrópska efnahagssvæðið eins og þeim sýnist þannig að það er kannski ekki í sjálfu sér meginástæðan. En ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann óttist ekki --- hvort sem samruni yrði hjá Búnaðarbanka og Íslandsbanka eða Landsbanka og Íslandsbanka --- að banki með 55--65% eignarhlut á þessum markaði yrði allt of stór?