Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 20:13:04 (2641)

1999-12-09 20:13:04# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[20:13]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta sé hárrétt mat og tek nákvæmlega undir það. Í vaxandi mæli mun það verða svo að íslensk fyrirtæki munu leita eftir bankaþjónustu erlendis ef hún býðst á sambærilegum eða betri kjörum en íslenskir bankar geta veitt. En við þurfum að hafa það markmið og kappkosta að geta boðið og verið samkeppnisfær á þessu sviði.

Einstaklingarnir munu hins vegar ekki í jafnríkum mæli og fyrirtæki leita eftir þessari þjónustu erlendis í framtíðinni. En til þess að þeir geti fengið fjármálaþjónustu á svipuðum kjörum og fólkið í löndunum í kringum okkur fær þá þurfum við að vera með öflugar einingar. En ég tek undir það að svo stór banki sem þarna er lýst --- hvaða samsetning banka það væri, hvort það væru Landsbanki og Búnaðarbanki saman eða Íslandsbanki og Landsbanki, sem eru stærstu samrunaeiningarnar í þessu --- væri fyrirtæki með mjög mikla markaðshlutdeild. Og þá er það auðvitað spurning hvort ekki komi til kasta samkeppnislaganna að skoða þá hluti.