Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 20:19:03 (2646)

1999-12-09 20:19:03# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[20:19]

Jóhann Ársælsson:

Herra forseti. Það mál sem er hér til umræðu og segja má að sé býsna stórt mál, er þó ekki stórt að því leytinu til að það eru ekki að verða neinar grundvallarbreytingar á því sem er búið að ákveða hér áður. Þetta snýst um það að í stað þess að auka hlutafé í bönkunum sem fullt leyfi er til, verði ákveðið að selja hlut í bönkunum og að á móti skerðist möguleikarnir til þess að auka hlutafé. Ég get nú ekki sagt annað en að ég tel að það sé réttara að selja hlut í bönkunum en að auka þar hlutafé eins og mál standa nú og þess vegna út af fyrir sig get ég vel fallist á að skynsamlegt sé að koma með þá tillögu sem hér liggur fyrir. Umræður hér hafa aftur á móti snúist um allt önnur og miklu stærri mál en það hvort þau 15% sem þarna er rætt um verði seld með þessari eða hinni aðferðinni. Og það eru full rök fyrir því að færa umræðuna yfir á þetta stig. Reyndar virðist sem ýmislegt í þeirri umræðu sem fór hér fram þegar bankarnir voru gerðir að hlutafélögum hafi ekki gengið þannig fyrir sig að menn séu almennt ánægðir með niðurstöðuna og að menn hafi komist að niðurstöðu sem þeir eru sammála um. Ég t.d. tel að það að gera bankana að hlutafélögum og sérstaklega það að ákveða að selja hlut í þeim hafi kallað fram eðlisbreytingu á bönkunum þannig að það sé alfarið rangt að kalla þá ríkisbanka. Bankarnir eru orðnir hlutafélög sem eru sameign ríkisins og annarra aðila á markaðnum og geta þar með því miður ekki verðskuldað heitið ,,ríkisbanki`` eftir það. Menn geta svo haft á því ýmsar skoðanir hvort ríkið eigi að eiga meiri hluta í þessum fjármálastofnunum eða eiga þær áfram og ég kem betur að því á eftir hvaða afstöðu ég hef til þess.

Ég tel reyndar að endurskipulagningin á fjármálamarkaði okkar hefði átt að ræðast miklu betur opinberlega en gert hefur verið. Og ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst það með miklum ólíkindum að ríkisstjórn sem situr við völd skuli ekki sýna Alþingi og landsmönnum öllum þá virðingu að kynna fyrir mönnum hvaða stefnu hún hafi í endurskipulagningu á fjármálamarkaðnum. Þannig hefur þetta gengið fyrir sig alveg frá upphafi þessarar umræðu að það hefur aldrei verið hægt að átta sig á því hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar sér í þessum efnum. Og ekki er það betur hægt núna en áður. Hæstv. ráðherra kemur hér og lýsir því yfir að það eigi að selja þetta. Svo liggur ekkert á því. Svo getum við hugsað málið. Hann lýsir því líka yfir að eftir þessa sölu komi endurskipulagning og talar í véfréttarstíl. Hann talar ekkert um það hvað hann vilji eða hvað honum finnist æskilegt. Hann talar jú um að ákveðnir kostir og ókostir séu í stöðunni en ekkert um það hvað hann eða ríkisstjórnin telji heppilegt í þessum efnum.

Mér finnst það ekki boðlegt í umræðu um svo mikilsverð mál að heil ríkisstjórn og ráðherra fyrir hennar hönd hafi ekki stefnu fram að bera um hvað sé skynsamlegt að gera og að hverju sé stefnt þannig að hægt sé að ræða þessa stefnu, finna á henni vankanta og kosti og að umræðan geti skilað okkur einhverju. Við eigum hins vegar að reyna að ráða í þau merki sem berast frá markaðnum eða utan úr þjóðfélaginu um það hvað sé að gerast á bak við tjöldin. Og við neyðumst til þess að nota þessar merkjasendingar til að reyna að gera okkur grein fyrir því hvað er að gerast, vegna þess að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn vilja ekki segja okkur hvað þau er að hugsa. Helst ætti maður að skilja það þannig að hæstv. ráðherra og ríkisstjórn hafi ekkert hugsað um það hvað eigi nú að taka við og hvernig þetta eigi að ganga fyrir sig. Ég er ekki á þeirri skoðun að það sé þannig. Ég tek mark á þeim vísbendingum sem hafa borist frá markaðnum því að þeir sem eru að bjóða í hlutabréf á markaðnum fylgjast með, þeir hafa sambönd, þeir kunna á síma og hafa þræði til þess að komast að því hvað sé nú helst líklegt að muni gerast. Og þeir hafa komist að niðurstöðu. Þeir telja að líklegast sé að Íslandsbanki og Landsbanki verði sameinaðir. Þeir hafa fengið um það einhverjar vísbendingar sem þeir taka mark á. Og vissulega eru þessar vísbendingar fyrir hendi. Við höfum orðið varir við þær. Ein kom líklega t.d. í fyrradag frá Landsbankanum. Þá var allt í einu búið að leysa óleysanlegt vandamál í Landsbankanum til langs tíma, þ.e. að ráða staðgengil aðalbankastjóra. Það er vandamál sem hefur ekki tekist að leysa frá því að bankarnir voru gerðir að hlutafélögum á sínum tíma. Það hefur staðið í ríkisstjórnarflokkunum alla tíð síðan. En eins og menn muna var ráðinn einn bankastjóri til Landsbankans fyrir nokkuð löngu síðan og hann hefur ekki fengið mann til þess að leysa sig af eða hafa það hlutverk fyrr en nú. Sá maður sem var ráðinn í þetta embætti hefur eftir því sem ég best veit alltaf haft mikinn áhuga á því að auka líkurnar á því að Íslandsbanki og Landsbanki sameinuðust. Ég lít á þetta sem vísbendingu um að eitthvað sé verið að huga að því máli og einnig það að Framsóknarfl. skuli hafa fallist á að þessi ágæti starfsmaður Landsbankans yrði staðgengill aðalbankastjóra. Ég lít á þetta sem vísbendingu um að Framsóknarfl. hafi fallist á að sú leið yrði skoðuð vandlega að sameina Íslandsbanka og Landsbanka.

Ég tók eftir því að hæstv. utanrrh. lýsti því yfir á fundi fyrir ekki löngu síðan að það mætti kannski nýta sér eitthvað af fjármunum sem komi inn vegna sölu á ríkisbönkunum til byggðamála. Ég lít svo á að hann sé ekki að tala þar út í bláinn. Ég lít þannig á að Framsfl. hafi náð samkomulagi um það að einhver hluti af þessum fjármunum muni þegar tímar líða verða notaðir í byggðamál og að hæstv. iðnrh., væntanlegur hæstv. ráðherra byggðamála eftir áramótin, muni eiga í sjóð að sækja þegar búið verður að selja hlut í ríkisbönkunum. Svona eru nú þessar vísbendingar sem eru að koma af ýmsu tagi.

Hæstv. ráðherra var reyndar að upplýsa það áðan að verið væri að skoða hagkvæmni þess að sameina bankana, hinar ýmsu leiðir til þess. Líklega er þó aðallega verið að skoða möguleikana á annars vegar sameiningu Íslandsbanka og Landsbanka og hins vegar sameiningu Búnaðarbanka og Landsbanka. Ég veit, hvað sem stendur í þeirri skýrslu sem hæstv. ráðherra hefur fengið í hendur, að mjög lítill munur er á hagkvæmni þess að sameina Búnaðarbanka og Landsbanka og að sameina Íslandsbanka og Landsbanka. Ég tel að það sé það lítill munur á því sem kemur út úr því hvað hagkvæmni varðar og framlegðaráhrif, að alvörustjórnvöld á Íslandi ættu ekki að láta það trufla sig í því að horfa yfir þetta svið fyrst og fremst með hagkvæmni heildarinnar í huga, með hagsmuni almennings í landinu í huga og hagsmuni almennra fyrirtækja, en ekki með því að einblína á hvað hugsanlega fáist fyrir hlutabréfin í Landsbankanum. Þau gætu líka á móti lækkað hlutabréfin í Búnaðarbankanum þegar menn tækju upp á því að selja þau vegna þess að ef Landsbankinn yrði seldur og myndaði þetta stóra fyrirtæki sem þá yrði til, og Búnaðarbankinn yrði þá eftir á markaðnum, þá yrði hann vissulega litli bankinn í samanburði við þennan risa sem þarna væri kominn. Ég sé satt að segja ekki að hann gæti staðið sig í þeirri samkeppni þó að hæstv. landbrh. yrði að ósk sinni og hann yrði styrktur t.d. með því að leyfa honum að kaupa VÍS. Ég held nefnilega að Búnaðarbankinn mundi ekkert frekar en Landsbankinn græða neitt á því að kaupa VÍS. Þeim hefur ekki tekist að græða neitt á því enn þá. Ég tel að framsóknarmenn hafi látið plata sig í þessum viðskiptum ef þeir telja að einhver óskaplegur hagur sé af því fyrir Búnaðarbankann að fá að taka við þessu vandamáli sem Landsbankinn kom sér upp fyrir nokkru síðan.

[20:30]

Ég held að menn verði að leita annarra leiða til að styrkja Búnaðarbankann. Satt að segja held ég að menn ættu að doka við og hugsa. Hvers vegna eru menn að leggja út í leiðangur sem kostar það að styrkja þarf fjármálastofnun á markaðnum sem heitir Búnaðarbanki? Hvers vegna? Ég tel að það sé alfarið rangt. Ég tel að ríkið eigi að skoða það alvarlega að sameina Búnaðarbankann og Landsbankann vegna þess að ríkið þarf að hafa hendur á því sem er að gerast á fjármálamarkaðnum á meðan þetta gengur yfir. Ég tel ekki boðlegt annað, á meðan ríkið á í þessum fjármálastofnunum, en að ríkið eigi í öflugustu fjármálastofnuninni. Þess vegna á ríkið auðvitað að eiga í Landsbankanum. Það á að sameina Landsbankann og Búnaðarbankann og svo má selja af því hlutafé en eiga í öflugasta bankanum, þjóðbankanum, á meðan ríkið er þátttakandi í þessari starfsemi. Mér finnst satt að segja hálfhallærislegt fyrir ríkið ef sameining Íslandsbanka og Landsbanka yrði að veruleika, að ríkið ætti minni hluta í þeirri stofnun í vor og síðan einn lítinn Búnaðarbanka sem fellur í verði á markaðnum. Þannig vil ég ekki sjá þetta gerast. Ég tel að menn eigi að taka þessi mál frá hinni hliðinni. Mér virðast margir kostir fyrir ríkið í stöðunni og það er eðlilegt að þeir hlutir verði skoðaðir fyrst.

Ég vil taka undir gagnrýni á að ekki sé gott að koma með mál eins og þetta inn í slíkri tímaþröng sem hér hefur verið búin til. Ég hef þurft að ganga kannski lengra en ég hefði viljað hér á hv. Alþingi til að liðka fyrir því að þetta mál geti haft þann framgang sem menn vilja. Ég ætla ekki að setja fæturna fyrir það. Mér finnst að þarna sé fyrirhuguð skynsamleg leið en hún er bara allt of seint fram komin, hefði þurft að koma hér miklu fyrr til umræðu.

Málið virðist sprottið af skyndiákvörðunum. Menn hafa lýst því að nú séu þeir komnir í jólaskap, vilji skapa mönnum tækifæri til að gefa jólagjafir og gefa öðrum tækifæri til að minnka skattinn sinn. Það er gott og blessað. Ég aftur á móti hef ekkert allt of mikla samúð með þeim. Fólkið sem þarfnast virkilega hjálpar frá ríkinu getur yfirleitt ekki notfært sér þetta. Þeir sem eiga peninga og þurfa að lækka skattana hjá sér hafa gagn af þessu og allt í lagi með það, en best væri fyrir ríkissjóð að sem fæstir hefðu gagn af því. Ríkissjóður tapar auðvitað á þessu.

Mér fannst að vísu hæstv. ráðherra segja það nokkuð greinilega áðan að skoðun hans væri sú að menn hafi ekki heimild til þess að ganga til samninga um sameiningu ríkisbankanna við aðra banka á markaðnum nema leggja það fyrir Alþingi. Ég hefði viljað fá þetta skýrt betur. Ég skil lögin einnig þannig. Hins vegar vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann hafi fengið lögfræðilega úttekt á því hvort sú leið sé fær, ef menn vildu fara hana. Ég er forvitinn og vil fá að vita það. Ég geri mér ekki fullkomlega grein fyrir því hvort svo er eða ekki.

Ég vil enn koma að því að mér finnst hæstv. ríkisstjórn ekki standa sig nógu vel. Hún ber ekki nógu mikla virðingu fyrir hv. Alþingi og fólkinu í landinu í svona stórum málum, þar sem þörf er á opinberri umræðu þegar hæstv. ríkisstjórn hefur komist að einhverri niðurstöðu um leið sem hún vill reyna. Hún á auðvitað að láta reyna á þá leið í umræðunni. Menn eiga ekki að þurfa að standa frammi fyrir því í þessu máli að í fjölmiðlum komi öðru hvoru fréttir af því að þreifingar séu á bak við tjöldin, t.d. af sameiningu þeirra banka sem hér eiga hlut að máli. Menn geta átt von á því að allt í einu spretti fram frétt, einhvern tímann í vetur eða vor, um að nú hafi menn náð samkomulagi og hæstv. ráðherra sé á leið með eitthvert frv. inn í þingið til að ganga frá málinu. Ég tel að menn eigi að leggja spilin á borðið. Hér er tækifærið. Hér eiga menn að segja hvað þeir vilja, hvað þeir telja best og láta reyna á það í umræðunni. Þannig er hægt sé að gera sér grein fyrir því og hafa þá skynsamra manna ráð, ef þau koma fram, en láta ekki annarra skoðanir lönd og leið.

Hæstv. ráðherra hefur þóst, það er hægt að skilja hann þannig, nánast ekkert vita um hvaða sameining sé best og hagkvæmust. Ef hann ætlar bara að horfa á hagkvæmni sölu á hlutabréfum í Landsbankanum, hvað úr því kæmi í ríkissjóð, þá er niðurstaðan náttúrlega alveg klár. Þá kemur það út að hagkvæmast sé að sameina Íslandsbanka og Landsbanka. En ég tel rangt að nálgast málið með þeim hætti heldur verði menn að skoða málið í heild, með heildarhagsmuni þjóðarinnar og þessa markaðar í huga. Vissulega er full ástæða til þess að gefa gaum að því hvernig útibúin kæmu að þessu og hvaða hraði eigi að vera á breytingum á markaðinum. Hvernig er hægt að stjórna t.d. hagræðingunni í þessu? Það mun auðvitað verða mikið vandamál. Margir verða atvinnulausir eða þurfa að leita sér annarra starfa ef ekki verður staðið þannig að málunum að fólk geti brugðist við og stjórnað hvernig samdrátturinn eða samlegðaráhrifin koma niður á starfsemi fyrirtækjanna.

Eftir þær athuganir sem hvað eftir annað hafa verið opinberaðar þar sem menn hafa komist að svipuðum niðurstöðum um hversu mikið sparaðist við að sameina þessi fjármálafyrirtæki þá virðist allt benda til að ef Búnaðarbanki og Landsbanki verði sameinaðir þá séu menn að tala þar um töluvert á annan milljarð og einnig ef sameinaðir yrðu Landsbanki og Íslandsbanki. Það er á hreinu að verði Íslandsbanki og Landsbanki sameinaðir þá eru þessi samlegðaráhrif orðin að samkeppnisbili milli Búnaðarbankans og þess stóra banka sem til yrði. Ég þori að fullyrða að það þýðir ekki að bæta VÍS inn í Búnaðarbankann til þess að jafna það bil. Ég er alveg sannfærður um að það dugir ekki. Menn verða að horfa á aðrar og róttækari leiðir til að búa til samkeppnisgrundvöll fyrir fjármálafyrirtæki á þessum markaði ef af þessari stóru sameiningu verður.

Ég ætlaði ekki að halda hér langa ræðu, það stóð ekki til. Eins og ég sagði í upphafi tel ég ekki að þetta mál snúist um grundvallarbreytingu. Hins vegar getur vel verið að þetta mál sé vísbending um að menn ætli sér í grundvallarbreytingu á bankakerfinu. Mín niðurstaða er sú að það sé meiningin. Ég er á þeirri skoðun að við eigum að láta þetta mál ganga í gegn en ég hef alla fyrirvara á stefnu stjórnvalda, sem er undir yfirborðinu í þessu máli. Ég er ekki að skrifa upp á þá stefnu með því að styðja að þessi 15% verði seld eins og hér er lagt til. Ég tel það skynsamlegri niðurstöðu en þær heimildir sem hæstv. ráðherra hefur núna. Ég kalla eftir því að menn sýni Alþingi, almenningi í landinu, eigendum þeirra fyrirtækja sem hér er verið að tala um, þá virðingu að segja hvað þeir ætla sér að gera í þessum málum.