Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 20:40:49 (2647)

1999-12-09 20:40:49# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[20:40]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir gott innlegg í þessa umræðu. Ég er sammála hv. þm. um að þetta mál snýst ekki um grundvallarbreytingar á starfsemi Búnaðarbankans og Landsbankans. Þetta er í sjálfu sér einfalt og saklaust mál. Hins vegar má velta því fyrir sér hversu langan aðdraganda þarf að hafa að því að koma með mál eins og þetta inn í þingið. Það hefur verið gagnrýnt að tíminn hafi verið allt of knappur. Ég skal að vissu leyti fallast á það, frv. er afgreitt á mjög skömmum tíma. En ég held að við verðum líka að hafa í huga að það væri heldur ekki skynsamlegt fyrir þessi fyrirtæki, sem eru í eigu þjóðarinnar og starfa á þessum verðbréfamarkaði, ef það tæki fleiri vikur eða marga mánuði að velta þeim hlutum fyrir sér hér í þinginu. Við þurfum að hafa það í huga líka þegar við erum að ganga frá málum eins og þessu. Þetta þarf að ganga tiltölulega hratt fyrir sig.

Varðandi sameiningu bankanna, sem aðalumræðan hefur nú farið í, þá benti hv. þm. á hluti sem mjög vert er að skoða þegar og ef að þeirri umræðu kemur. Þau atriði sneru að því hvaða heimildir viðskrh. hefur til þess að sameina og/eða auka samstarf bankanna. Ég hef nákvæmlega sama skilning á lögunum og hv. þm. Ég held að sá skilningur okkar sé réttur. Það þarf atbeina Alþingis til þess að slík sameining geti átt sér stað. Það eru hér í gildi lög um Landsbanka og Búnaðarbanka og Alþingi þarf að taka þau lög til endurskoðunar ef einhver slík sameining ætti sér stað. Það gegnir að mínu viti öðru máli varðandi sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka eins og ég lýsti hér áðan.