Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 20:45:07 (2649)

1999-12-09 20:45:07# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[20:45]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það hafa lengi verið í skoðun, allt frá því að stofnuð voru hlutafélög um Landsbankann og Búnaðarbankann, ýmiss konar hagræðingarmöguleikar og ég tel það vera hlutverk viðskrn. að leita að slíkum hagræðingarmöguleikum á markaðnum, kortleggja þá og koma þeim á framfæri ef þeir eru til staðar. En það er engin markviss vinna í gangi sem gengur út á það að sameina tilteknar stofnanir og því hef ég svarað hér áður að ég tel að við eigum að hlusta á þá aðila á markaðnum sem best þekkja til í þeim efnum.

En af því að hv. þm. spurði hvort ég hefði látið kanna lagalega þá stöðu sem hér er uppi varðandi það hvort til þurfi að koma stuðningur eða atbeini Alþingis við að hrinda slíkri sameiningu í framkvæmd, ef hún einhvern tímann verður, þá hef ég ekki gert það. Og ætli það segi nú ekki allt um það hversu stutt þetta er mál er á veg komið, að ekki hafa hafa verið könnuð lögfræðilega svona grundvallaratriði og vonast ég til þess að það rói hv. þm. Ég heyri hins vegar að hv. þm. hefur fullan skilning á því að það getur verið nauðsynlegt að fara út í hagræðingaraðgerðir á þessum markaði. En ég vil ekki gefa mér ákveðna tiltekna hluti í þeim efnum fyrir fram, að eitt sé betra en annað. Þess vegna hef ég við umræðuna tekið undir þá tillögu sem hér hefur verið flutt af tveimur hv. þm. Frjálslynda flokksins, um að rétt sé að skoða þessa kosti og meta þá hvern og einn út af fyrir sig. En í sjálfu sér metur markaðurinn þessa hluti best vegna þess að menn finna þá hvar samlegðaráhrifin er að finna og hver ávinningurinn er af tilteknum aðgerðum sem gripið væri til, til að ná fram þeim markmiðum sem menn mundu setja sér.