Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 20:47:15 (2650)

1999-12-09 20:47:15# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[20:47]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki sammála hæstv. ráðherra um að markaðurinn skili þeim skilaboðum sem ein eiga að ráða. Ég tel að hagsmunir ríkisins og hagsmunir almennings geti verið ofar þeim skilaboðum sem koma frá þessum markaði. Það er einfaldlega þannig að það getur vel verið að skilaboð komi frá markaðnum um að hagkvæmast sé að sameina Landsbankann og Íslandsbanka, einfaldlega ef menn eru að horfa á hvað fæst fyrir hlutabréf og hvað komi út úr heildarsamlegðaráhrifum af þessu. Þetta eru einfaldlega tvær stærstu einingarnar. En hvaða áhrif hefur það síðan á hlutabréfin í t.d. Búnaðarbankanum sem ríkið á líka, ef þetta verður gert? Munu þau ekki tapa verðgildi sínu? Og er ekki alveg á hreinu að það hljóti líka að vera hlutverk hæstv. ríkisstjórnar og hv. Alþingis að horfa á hagsmuni neytenda í landinu, þ.e. fólksins sem skiptir við þessar stofnanir og reyna með öllum ráðum að sjá til þess að það fjármálaumhverfi sem verður til í framhaldi af því og í tengslum við það að ríkið er að fara af þessum markaði, er að draga sig út úr bankastarfsemi, skili þegnunum sem allra bestum fyrirtækjum á þessu sviði sem hafa jafna samkeppnisaðstöðu og geta keppt á þessum markaði en eru kannski of lítil til þess að berjast við einn risa sem ríkið hefði þá tekið þátt í að skapa og yrði kannski til þess að hér yrði ekki eðlilegt samkeppnisumhverfi?