Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 20:49:43 (2651)

1999-12-09 20:49:43# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[20:49]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er þessari ræðu hv. þm. algjörlega sammála. Það er ekki bara eitt atriði sem menn eiga skoða í þessum efnum og segja: ,,Það er bara hagkvæmnin sem á að ráða þessu.`` Það sem ég á við þegar ég segi að skilaboðin eigi að koma frá markaðnum, er að ég er tilbúinn til að horfa á þær tillögur sem upp koma í þeim efnum. Allir þættir sem hv. þm. rakti hér þurfa að koma þar til skoðunar. Hvaða áhrif mundi tiltekin sameining, sem m.a. kannski fælist í Íslandsbanka/Búnaðarbanka, hafa á bréfin í Landsbankanum? Þegar við horfum á það að við ætlum að selja allt, einkavæða allt á kjörtímabilinu, þá verðum við að meta hvernig við fáum sem mest fyrir þessar eignir okkar í heild sinni. Við eigum ekki bara horfa á einn einstakan þátt. Við verðum líka horfa á það hvaða áhrif þetta gæti haft fyrir neytendur eins og kom fram er ég svaraði áðan hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni. Ég er því algjörlega sammála hv. þm. Allt þetta verður að taka til skoðunar og síðan er það ríkisstjórnar að ákveða hvort menn geta, út frá þeim hlutum sem hér hafa verið raktir, fallist á þá tillögu sem fram kemur. Þetta finnst mér vera grundvallaratriði og ég tek undir þetta með hv. þm.