Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 22:03:38 (2655)

1999-12-09 22:03:38# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, GIG
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[22:03]

Gunnar Ingi Gunnarsson:

Herra forseti. Summan af öllu því gáfulega sem hefur verið sagt um þetta frv. er þess eðlis að nýliðum eins og mér ætti að vera óhætt að koma hér upp og tala án þess að verða sér til skammar.

Það kemur fram í athugasemdum við lagafrv. að það þurfi að koma bönkunum úr eign ríkisins að vissu marki til þess að uppfylla ákveðnar reglur Verðbréfaþings. Tilgreindar ýmsar ástæður sem eru taldar vera þess eðlis að það sé skynsamlegt að standa svona að málum og selja hluta úr bönkunum. Í prinsippinu get ég alveg tekið undir það sjónarmið í sjálfu sér. Ég held að það sé skynsamlegt að hagræða og styrkja stöðu banka og gera ýmsilegt annað sem hagfræðin hefur kennt að sé rétt og best að gera í nútímaþjóðfélagi. Það er kannski leiðin og tíminn sem hefur fyrst og fremst verið rætt um.

Það hefur líka komið fram í umræðunni að þingflokkur Frjálslynda flokksins hefur lagt fram till. til þál. sem gengur út á það að fara aðra leið með það í huga að reyna að tryggja betur það sem hefur hingað til verið rætt töluvert um, þ.e. að eigendur bankanna fái sem mest fyrir þá. Við teljum að skynsamlegra sé að fara þá leið.

En það er kannski annað sem ég vil fyrst og fremst gera hér að umræðuefni og það er hlutabréfamarkaðurinn og skattafsláttur almennings. Talað er um að nú þurfi að nýta tækifærið vegna þess að það er hagstætt árferði á hlutabréfamarkaði. Ég var nú hérna fyrir utan húsið áðan í snjókomunni að spekúlera í þessu árferði hlutabréfamarkaðarins vegna þess að það hefur töluvert verið rætt um árferði í velferðarkerfinu, hver staðan er hjá þeim sem minnst mega sín í íslensku þjóðfélagi. Og það er alveg hróplegur munur á lýsingunni á því hvernig árferði hlutabréfamarkaðarins er í dag og lýsingunni á stöðu þeirra sem eiga í mestum erfiðleikum í íslenska þjóðfélaginu. Spurningin er hvort ekki sé einmitt verið að gefa dálítið sérstaka mynd af íslensku þjóðfélagi.

Það er nefnilega búið að smíða þjóðfélag sem getur boðið þeim sem hafa og eiga heimsins bestu kosti. En á sama tíma fer staðan versnandi hjá þeim sem veikastir eru í íslensku þjóðfélagi. Það finnst mér vera hróplegast úr þessu dæmi. Það er himinn og haf á milli þessara tveggja þátta. Og þegar við hugsum um að þarna liggi eignir almennings þá geri ég kröfu til þess að við gleymum því ekki að við höfum mikla og vaxandi þörf fyrir betrumbætur á þessu sviði.

Það er eins og velferðarumtalið og góðærisumtalið í íslensku þjóðfélagi hafi algjörlega farið út af sporinu vegna þess að lífið hefur snúist um þá sem eru að kaupa hlutabréf og safna í sjóði. Það er talað um það í þessu máli að m.a. sé ætlunin að auka sparnað heimilanna og það er talað um að bjóða upp á skattafsláttinn.

Herra forseti. Ég get fullyrt að þær þúsundir sem búa við mestu örbirgðina í okkar þjóðfélagi þekkja ekki þessa veröld sem við erum að tala um. Engir öryrkjar sem byggja afkomu sína á almannatryggingum á Íslandi verða með í þessum leik. Og það fer ekki króna úr þeirra buddu í þetta mál því það er ekki hagstætt árferði í öllum hornum þjóðfélagsins vegna þess að inn í sum hornin vilja menn bara ekkert líta. Öll umræðan undanfarin missiri hefur snúist um hlutabréfamarkaðinn og þá sem eiga og hafa í íslensku þjóðfélagi og allir virðast hafa gleymt hinum. Það er þetta sem hefur kannski slegið mig einna mest varðandi umgjörð þessa máls og umræðuna.

Ég sagði í upphafi að ég get alveg fallist á að það geti verið skynsamlegt að fara þá leið að losa svona stofnanir undan ríkiseign ef það þjónar markmiðinu að stofnanirnar geti veitt betri þjónustu, að almenningur hafi auðveldari aðgang að þjónustu o.s.frv. En ef það er ætlunin að láta í þessu dæmi verða sams konar hagræði fyrir þá sem kaupa og dæmin hafa sýnt okkur, þá fyndist mér að fólk ætti að skoða tillögu okkar og athuga hvort ekki sé hægt að tryggja betur að almenningur fái raunvirði þessara stofnana til sín en yfirfæri ekki milljarðana í hendurnar á þeim sem eru að bíða vegna þess að það er verið að tala um að einhverjir úti í þjóðfélaginu séu að bíða eftir fjárfestingartækifærum. Hverjir eru það? Er það fólk sem hefur þess konar fjármuni í höndunum að það er í vandræðum að geta ekki keypt eitthvað skynsamlegt?

Fyrr í umræðunni kom hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson inn á það að miklir fjármunir væru í umferð úr kvótakerfinu og spurningin er sú hvort einhver hópur í þjóðfélaginu hafi slíka fjármuni og bíði eftir því að boðið verði upp á að hægt verði að kaupa góðar stofnanir, peningastofnanir, af ríkinu á spottprís.

Herra forseti. Mér finnst a.m.k. íhugunarverðast í þessu máli hvers konar mynd hefur verið teiknuð af umhverfi þessa máls. Það er talað um hið hagstæða árferði hlutabréfamarkaðar, skattafslátt almennings og hinn aukna sparnað heimilanna á sama tíma og við vitum af þeirri örbirgð sem ríkir hjá allt of mörgum í íslensku þjóðfélagi og á sama tíma og það virðist vera erfitt, ef ekki útilokað, að ná eyrum hæstv. ríkisstjórnar varðandi þann vanda og þá nauðsyn að taka á þeim málum af krafti, einmitt núna þegar góðærið margumtalaða á að vera sem mest og best. Ég geri raunar kröfu til þess, eins og ég sagði áðan, að menn íhugi það á meðan við erum að losa um eignir almennings, að þessir hópar eru með okkur í þjóðfélaginu. Þetta fólk er engir skussar. Þetta er ekki fólk sem hefur skapað sér þau skilyrði sem eru ríkjandi, heldur fólk í klípu.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan þá höfum við lagt fram till. til þál. um sameiningu ríkisbankanna áður en þeir verða seldir og við vonumst til þess að sú þáltill. fáist tekin fyrir sem fyrst á hinu háa Alþingi.

En að lokum langar mig til þess að spyrja hæstv. viðskrh. hvort við megum búast við því --- ég geng út frá því að þetta eigi eftir að ganga í gegnum þingið fyrir tilstilli stjórnvalda sem hafa slíkan meiri hluta hér á hinu háa Alþingi að það er greinilega tiltölulega einfalt að fara með svona mál hér í gegn --- hvort við megum búast við því að við kunnum að standa frammi fyrir endurteknu efni varðandi það að einhverjir kaupi síðan stofnanirnar sem eru taldir óheppilegir eigendur. Er vitað af einhverjum slíkum hópum? Sá spyr sem ekki veit.