Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 22:17:56 (2657)

1999-12-09 22:17:56# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, Frsm. 2. minni hluta ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[22:17]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Nú lýkur senn 2. umr. um mjög umdeilt lagafrv. Ég sakna þess að hæstv. viðskrh. skuli ekki hafa skýrt sjónarmið sín betur. En ég vænti þess að í upphafi 3. umr. á morgun efni hann þau fyrirheit sem hann gaf við umræðuna fyrr í kvöld, að hann mundi skýra afstöðu sína betur en hann hefur þegar gert. (Viðskrh.: Ég get gert það.) Ljómandi fínt ef hæstv. viðskrh. ákveður að gera það, þá er ekkert nema gott um það að segja.

Ég ætla að halda stutta ræðu að þessu sinni. Í þessari umræðu hefur komið fram mjög hörð gagnrýni á vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Hún hefur komið fram í máli nær allra stjórnarandstöðuþingmanna sem tekið hafa til máls í þessari umræðu. Menn hafa gagnrýnt hvernig að þessum málum er staðið af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Í kvöld var auglýst hvenær unnt væri að skila inn tilboðum fyrir hlutabréf í ríkisbönkunum. Það skyldu menn gera dagana 15.--17. des. Þetta leyfir ríkisstjórnin sér að gera án þess að Alþingi hafi afgreitt þetta mál. Þetta lýsir þeirri hrokafullu afstöðu sem einkennt hefur allan málatilbúnað hennar.

En sum okkar hafa ekki látið sitja við það eitt að gagnrýna vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu máli heldur og þá ákvörðun að selja hlut ríkisins í Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Þetta mál fjallar í raun um grundvallaratriði í stjórnmálum. Ég sagði fyrr við umræðuna að í þessu máli kristallaðist sérstaða Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, sem kom fram á sjónarsviðið til þess að berjast gegn fjármagnsöflunum, einkavæðingunni og því hvernig ríkisstjórn landsins þjónar fjármagnsöflum. Það kemur reyndar glögglega fram í þessu máli. Í umræðunni um það hafa birst átakalínur í íslenskum stjórnmálum.

Við höfum auglýst eftir stefnu stjórnvalda í þessu máli. Við höfum vakið athygli á því áhrifamenn á markaði, fulltrúar ríkisbankanna, Búnaðarbankans, Landsbankans, Íslandsbankans hafi auglýst eftir stefnu stjórnvalda. Úr herbúðum stjórnarinnar berast hins vegar engin svör. Hæstv. viðskrh. hefur neitað að láta nokkuð uppi annað en það að ríkisstjórnin sé að fullnægja skilyrðum sem Verðbréfaþing setur. En svo er málum háttað að fyrir 1. júní á næsta ári skal ríkið hafa losað sig við 25% hlut í ríkisbönkunum. Þetta eru einu svörin sem við höfum fengið frá hæstv. viðskrh. og ríkisstjórn vegna þessarar ákvörðunar.

Við höfum hins vegar auglýst eftir stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi fjármagnsmarkaðinn. Við teljum rangt að ráðast fyrst í þessa sölu en heita síðan að taka upp umræðu um málið eins og hæstv. viðskrh. gerði hér áðan. Fyrst skulum við selja en síðan ræða stefnumótun, það sagði hæstv. viðskrh. hér áðan. (Gripið fram í: Skjóta fyrst, spyrja svo.) Skjóta fyrst, spyrja svo.

Það vakti forvitni mína þegar leitað var álits hjá starfsmönnum bankanna, hjá formanni Sambands ísl. bankamanna, hvaða afstöðu sambandið tæki í þessu máli. Hann sagði að sambandið sem slíkt hefði ekki tekið afstöðu þótt sín persónulega skoðun væri sú að rétt væri að sameina ríkisbankana. Afstaða Sambands íslenskra bankamanna birtist þó í einu, í því að sambandið vildi vita meira um framtíðina. Samband íslenskra bankamanna auglýsti eftir stefnu stjórnvalda í málinu. Ég vænti þess að í næstu ræðu sinni muni hæstv. viðskrh. upplýsa okkur nánar um sýn hans á framtíðina.