Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 22:36:19 (2659)

1999-12-09 22:36:19# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[22:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það hefur margsannast í meðferð þessa máls að það er illa undirbúið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Hér er skyndiákvörðun um að selja hlut í ríkisbönkunum hent inn í þingið til þess að rusla hér í gegn og afgreiða á fáeinum sólarhringum. Nægur tími væri til að fjalla um þetta mál eftir áramót og gefa sér góðan tíma til að skoða alla fleti á því, þar með talið mögulega lagasetningu til að tryggja dreifða eignaraðild og þá hugmynd að láta fyrst reyna á hagkvæmni þess að sameina ríkisviðskiptabankana tvo. Hæstv. ríkisstjórn veitir hér engar upplýsingar um það hvað í vændum sé hvað varðar uppstokkun í bankaheiminum og hæstv. viðskrh. talar í véfréttarstíl.

Eitt er þó ljóst og það er að með þessu frv. velur hæstv. viðskrh. það að gera sjálfan sig að ómerkingi orða sinna og svíkja þær yfirlýsingar sem gefnar voru hér á Alþingi um að ekki yrði um sölu á hlut ríkisins að ræða í bönkunum fyrstu fjögur árin. Ég segi því já, herra forseti, við því að vísa þessu illa undirbúna frv. frá.