Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 11:07:09 (2663)

1999-12-10 11:07:09# 125. lþ. 42.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[11:07]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir að skýra hvers vegna hann og ríkisstjórnin sviku gefin fyrirheit. Hæstv. viðskrh. reyndi að skýra fyrir þinginu hvers vegna þau voru svikin. Hann segist hafa skýrt það fyrir starfsmönnum og öllum hlutaðeigandi hvers vegna ríkisstjórnin hafi ákveðið að svíkja loforð sín. Hér var hins vegar um að ræða loforð gagnvart þjóðinni, gagnvart Alþingi, sem gefin voru opinberlega í grg. með stjórnarfrv.

Í öðru lagi vil ég segja um fullyrðingar hæstv. viðskrh. um að farið hafi verið að óskum starfsmanna: Já, eftir að þeim hafði verið stillt upp við vegg. Starfsmenn voru andvígir því í upphafi að bönkunum yrði breytt í hlutafélög. Þeir voru andvígir þessu þannig að þeir voru að bregðast við í mjög þröngri stöðu.

Nú segir hæstv. ráðherra að ekkert liggi á að stíga frekari skref. Sennilega mun einmitt þetta þjóna hagsmunum Íslandsbanka og þeim aðilum sem hæstv. viðskrh. þjónar þegar búið verður að sameina Íslandsbanka og Landsbanka þá sé óhætt að staldra við. Sennilega verður þá ekki mikill áhugi á því hjá eigendum þessa nýja banka að minnka hlut ríkisins. Ég er ekkert viss um að þeim þyki það slæmur kostur að ríkið eigi hlut í bankanum. Ég er ekki viss um það.

Að lokum, herra forseti, var tillaga okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði sú að huga að sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka, að kanna þann möguleika, kanna þann kost.