Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 11:10:48 (2665)

1999-12-10 11:10:48# 125. lþ. 42.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[11:10]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Þetta er ekki rétt hjá hæstv. viðskrh. Ég fékk staðfestingu á því í svari við spurningu minni í efh.- og viðskn. Þar var hæstv. viðskrh. ekki viðstaddur. Ég er hins vegar viss um að aðrir hv. þm. sem eiga sæti í efh.- og viðskn. geta staðfest þetta. Ég spurði formann Sambands ísl. sveitarfélaga ... (Viðskrh.: Sveitarfélaga?) bankamanna. Þessi mismæli voru nú aldeilis hvalreki fyrir viðskrh., eitthvað verulega málefnalegt til að taka upp hér í umræðunni. En ég spurði formann Sambands ísl. bankamanna hver afstaða þeirra hefði verið á sínum tíma og hvort þeir hefðu ekki þurft að bregðast við í mjög þröngri stöðu og orðið að sætta sig við gerðan hlut, þær ákvarðanir ríkisstjórnarinnar sem ekki hefðu verið þeim að skapi. Hann staðfesti að svo hefði verið. Hér er því ekki verið að hagræða neinum sannleika. Þetta eru staðreyndir málsins.

Ef hæstv. viðskrh. telur að um þetta sé sátt í þjóðfélaginu þá er það mikill misskilningur. Það er mikið ósætti um þetta í samfélaginu og þær raddir munu magnast þegar mönnum verður ljóst hvaða áform eru uppi og hvað er að gerast á bak við tjöldin, að ríkisstjórnin er að búa í haginn fyrir Íslandsbanka til að gleypa Landsbankann. Það er það sem verið er að gera. Mönnum óar við þessari þróun og hafa andstyggð á þessum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar.