Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 11:19:15 (2670)

1999-12-10 11:19:15# 125. lþ. 42.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[11:19]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hversu skýrt er hægt að svara þessu eða hvort hægt er að svara þessu skýrar en ég hef gert. Það hefur verið undirstrikað af bankastjóra Landsbankans að engar slíkar viðræður séu í gangi. Eigum við ekki að taka það trúanlegt? (LB: Þú sagðir að þær gætu samt verið í gangi.) Ég veit ekki til þess að þær séu í gangi. Og ég er ekkert að gefa undir fótinn með það að svo sé, síður en svo.

Af hálfu ríkisstjórnarinnar eru ekki viðræður í gangi við þessa aðila á fjármagnsmarkaðnum um neinar slíkar breytingar. En hvað framtíðin ber í skauti sér er útilokað að segja til um.

Við verðum auðvitað vör við þá umræðu sem er í gangi, hvernig svo sem hún er til komin. En hún er ekki til komin fyrir tilstuðlan ríkisstjórnarinnar og hún er ekki til komin, eftir því sem var í fréttum í morgun, fyrir tilstuðlan Landsbankans. En það er áhugi hjá öðrum bönkum, og það hefur komið fram, fyrir því að fara í samstarf við Landsbankann. Og það er ekkert skrýtið vegna þess að Landsbankinn er alveg gríðarlega gott fyrirtæki og það sama má segja um Búnaðarbankann.