Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 11:20:36 (2671)

1999-12-10 11:20:36# 125. lþ. 42.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, Frsm. 1. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[11:20]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Það er ástæða til að draga saman nokkur atriði sem fram hafa komið í lok umræðunnar, ekki síst eftir ræðu hæstv. viðskrh., sem að nokkru leyti hefur opnað þessa umræðu hér aftur.

Ráðherrann talaði um að fram hefði komið hjá Kaupþingi að ekki væri gefinn nægjanlega mikill afsláttur af þessu hlutafé sem nú á að fara að selja. Ef það er rétt þá verður hæstv. ráðherra að gera sér grein fyrir af hverju það er. Það er vegna þeirrar óvissu sem ríkisstjórnin hefur skapað hér á markaðnum og vegna þess að framtíðaráform og stefnumótun um fjármálamarkaðinn eða tímasettar áætlanir um söluna á ríkisbönkunum liggja ekki fyrir. Það kom margoft fram við 2. umr. málsins að ýmsir aðilar sem hefðu komið á fund nefndarinnar hefðu einmitt haft það á orði að svo mikil óvissa væri á markaðnum að nauðsynlegt væri --- og það voru sérstaklega fulltrúar verðbréfafyrirtækjanna --- að verðleggja þá óvissu. Það styður enn það sem við í minni hlutanum höfum haldið fram að nauðsynlegt er að marka stefnu varðandi fjármálamarkaðinn.

Af því að ráðherrann hæstv. talar um mjög góða samvinnu sem hann hafi átt við starfsmenn bankanna þá er nauðsynlegt að hann svari hér einni spurningu sem frá þeim liggur áður en þessari umræðu lýkur. Og nú ætla ég að vitna beint í bréf bankamanna, það er frá formanni Sambands ísl. bankamanna og formönnum starfsmannafélaga beggja bankanna. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Fulltrúar starfsmanna beina því þeim eindregnu tilmælum til Alþingis og viðskiptaráðherra, sem fer með meirihlutaeign í Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands, að áætlanir um framtíð bankanna, sölu þeirra eða sameiningu, verði mótaðar og kynntar starfsmönnum og öðrum hluthöfum bankanna hið fyrsta.``

Þarna eru þeir að leita eftir samráði, samvinnu við hæstv. viðskrh. og ríkisstjórn um þau framtíðaráform sem ríkisstjórnin hefur varðandi bankana. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er það öruggt og geta starfsmenn treyst því að áður en ráðist verður í einhverjar frekari breytingar á fjármálamarkaðnum eða bönkunum verði það gert í fullri samvinnu við starfsmenn bankanna? Ég held að nauðsynlegt sé að það liggi fyrir vegna þess að mikill samruni, sem menn horfa nú á að geti orðið hér að veruleika eftir nokkrar vikur, mun hafa áhrif á starfsöryggi bankamanna. Það liggur fyrir.

Það kom fram í einu dagblaðanna fyrir nokkrum dögum að samruni Íslandsbanka og Landsbanka gæti þýtt fækkun á starfsfólki um hvorki meira né minna en 200--300 manns. Þess vegna er það eðlileg ósk ef á fara í frekari breytingar að fullt samráð verði haft við forustumenn og starfsmenn bankanna varðandi það mál.

Ég held að sú umræða sem hér hefur farið fram og í þjóðfélaginu á síðustu dögum staðfesti að þessi sala sem hér er verið að samþykkja er upptakturinn af mikilli sameiningu í bankakerfinu. Það er nokkurt áhyggjuefni þegar við skoðum markaðshlutdeildina hvernig hún verður ef af sameiningu Íslandsbanka og Landsbanka verður, að eftir þessa sölu í slíkum samruna er ríkið komið í minnihlutaeign, um 40%, meðan hluthafar Íslandsbanka eins og Sjóvá og Eimskip eru með 44%. Það er áhyggjuefni.

Það er fyrst og fremst einmitt þess vegna sem ég hef setið hjá við þetta mál og haft áhyggjur og ýmsa fyrirvara í málinu, það er þetta sem á að fara að gerast núna í næstu framtíð.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra og mér finnst nauðsynlegt að hann svari því: Getum við þingmenn treyst því að fram fari ítarleg könnun og samanburður á þeim kostum sem fyrir hendi eru varðandi frekari hagræðingu í bankakerfinu af hendi ríkisstjórnarinnar og ef ráðist verður í frekari áform varðandi samruna á bönkunum með sameiningu að það verði þá lagt hér fyrir þingið?

Ráðherrann talaði nokkuð skýrt um það í gær að það yrði lagt fyrir þingið en maður veltir fyrir sér hvort ráðherrann þurfi að gera það. Það hefur ekki verið tími til að kanna hvort nauðsynlegt sé að slíkt verði gert.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra: Liggur fyrir nú þegar einhver skýrsla í ráðuneytinu um samanburð á sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka annars vegar og Landsbanka og Íslandsbanka hins vegar, að skýrsla hafi verið gerð um framlegðaráhrifin af slíkri sameiningu? Ég sé að ráðherra kinkar kolli. Þá spyr ég ráðherrann: Ef slík skýrsla liggur fyrir þá er auðvitað nauðsynlegt að fá hana inn í umræðuna. Við þurfum að skoða það ef slík úttekt hefur verið gerð, og ég spyr: Hver hafði frumkvæðið að því að slíkur samanburður og úttekt var gerð? Voru það forustumenn Íslandsbanka, Landsbanka eða Búnaðarbanka eða var það ráðuneytið sjálft?

Ég held að nauðsynlegt sé að fá þetta inn í umræðuna vegna þess að það þarf auðvitað að kanna áhrifin á hlutabréfamarkaðinn, markaðshlutdeild almennt hjá fjármálastofnunum, æskilega stærðarhagkvæmni og áhrif á byggð og atvinnuvegi, þjónustu við viðskiptamenn, starfsöryggi starfsmanna og öryggi innstæðna og ekki síst fákeppni og einokunartilhneigingar á fjármálamarkaðnum. Áhyggjuefnið hjá mér lýtur ekki síst að því, af því að í Íslandsbanka eru aðilar eins og Eimskip og Sjóvá sem tilheyra hinum margumrædda kolkrabba og þetta eru aðilar í tryggingastarfsemi og flutningastarfsemi sem hafa nú markaðsráðandi stöðu í þeim starfsgreinum, ef þeir eiga svo að fá yfirburðastöðu í einhverjum einum bankarisa. Það er áhyggjuefni. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra kanni það alveg sérstaklega hvaða áhrif þetta hefur á fákeppni og einokunartilhneigingar ef þessi plön eru virkilega að verða hér að veruleika.

Ég spái því að slíkur bankarisi sé að verða að veruleika, Íslandsbanki --- Landsbanki. Mér kæmi ekki á óvart að það yrði í maímánuði, kannski skömmu eftir að þing fer heim, að slík sameining gengi eftir. Því er ekkert óeðlilegt að nokkur umræða skuli vera tekin í þetta. Vegna þess að 60--65% markaðshlutdeild er ansi mikið og miklu meira en gerist og gengur erlendis og ekki síst á okkar smáa markaði hér, fjármálamarkaði, þá er þetta allt of stór eining og staða Búnaðarbanka og sparisjóðanna verður mjög veik eftir það. En mér skilst, og er ég nú að reikna í dæmið og tel að ég hafi nokkuð til míns máls, að menn hafi setið yfir því í ríkisstjórninni, forustumenn Framsfl. og Sjálfstfl., hvernig þeir gætu skipt á milli sín þessum bankastofnunum. Mér sýnist á öllu að Sjálfstfl. hafi farið betur út úr þeim skiptum ef Íslandsbanki og Landsbankinn verða sameinaðir en Framsfl. standi eftir með Búnaðarbankann. Í blaðagrein sem kom fyrir rúmri viku er einmitt verið að ýja að þessu, að það þyrfti þá að styrkja fyrirtæki sem tengdust Framsfl. með einhverjum hætti á móti. Og nú eru menn að tala um að Búnaðarbankinn kaupi eignarhluta Landsbankans í tryggingafélögunum.

[11:30]

Mér fannst hæstv. ráðherra taka nokkuð undir það í gær að það gæti verið skynsamlegt. Hæstv. landbrh., Guðni Ágústsson, telur að styrkja þurfi Búnaðarbankann. Menn eru farnir að tala nokkuð opið um þetta, að þessi sameining sé á næsta leiti.

Herra forseti. Mér skilst að samkomulag sé um að ljúka 3. umr. á tiltölulega stuttum tíma þó mér finnist að ráðherrann hafi tekið dágóða stund af þeim tíma sem við höfum hér til umráða. Engu að síður skal ég reyna að stytta mál mitt. Ég vil aðeins segja varðandi þessa sameiningu, sem mönnum er vissulega ofarlega í huga, að maður veltir fyrir sér hvaða markmið menn setja sér í slíkri sameiningu. Eru þeir sem vilja standa í slíkri sameiningu, Landsbankamenn og Íslandsbankamenn, að hugsa um að hér verði eðlileg samkeppni? Ég er ekkert viss um það. Það er hlutverk hæstv. ráðherra að sjá til þess að í slíkri sameiningu, ef af verður, verði tryggð eðlileg samkeppni. Ég hygg að þegar verið er að tala um hagræðingu séu þeir aðilar sem að þessu standa að hugsa fyrst og fremst um arðsemina, að hún sé sem mest til þeirra fjármagnseigenda sem eru núna að fara að eignast þessa banka.

Við fórum yfir það t.d. í gær að þjónustugjöld í Íslandsbanka eru langhæst í þeim einkabanka. Þar er arðsemin til eigendanna mikil en þjónustugjöldin eru há. Þau eru lægst hjá sparisjóðunum þar sem arðsemi eigin fjár er að vísu minni en þar er lagt meira upp úr því að þetta skili sér til viðskiptavinanna og komi fram í lækkuðum þjónustugjöldum.

Ég held að við verðum að varast það, herra forseti, að ganga hratt í þá einkavæðingu sem ríkisstjórnin áformar. Við höfum fyrir okkur dæmi eins og frá Noregi, þar eru víti til að varast. Það var gengið mjög hratt í einkavæðinguna. Til hvers leiddi hún fyrir áratug? Það varð bankahrun. Það varð bankahrun í Noregi sem kostaði ríkissjóð 50 milljarða kr. Og þar var tekin sú ákvörðun eftir slíkt bankahrun að bankar sem höfðu verið í einakeign voru settir að verulegum hluta í ríkiseign aftur. Þess vegna hljótum við að verða að meta hvort slíkur kostur er skynsamlegur, sem ég tel, að a.m.k. annar bankinn verði fyrst um sinn í meirihlutaeign ríkisins meðan við erum að sjá hvernig þessi markaður þróast. Það verðum við að gjöra svo vel að taka með inn í myndina nú þegar menn eru að velta fyrir sér framtíðaráformum á þessum markaði.

Herra forseti. Ég skal gera mitt til þess að umræðunni geti farið að ljúka en ég beini þessum tveimur spurningum til ráðherrans og hann getur svarað því á einni mínútu: Verður haft fullkomið samráð og samvinna við starfsmennina þegar og ef af þessari sameiningu verður? Er það alveg öruggt og geta þingmenn treyst því að áður en skrifað verði undir þá sameiningu, ef af verður, að þingið fjalli um hana, þingið taki ákvörðun í því efni og ekki verði skrifað undir hana með einhverjum fyrirvara þegar Alþingi hefur farið heim í maímánuði?

Ég spyr um þetta tvennt, starfsmennina og þingið. Ég spyr líka hvort áðurnefnd skýrsla í viðskrn. liggi fyrir og hvort þegar liggi fyrir samanburður á þessum tveim kostum sem menn hafa hér verið að ræða. Og ef hún liggur fyrir, sem mér fannst koma fram hjá ráðherra, að frumkvæði hvers var sú skýrsla gerð?