Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 11:34:42 (2672)

1999-12-10 11:34:42# 125. lþ. 42.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[11:34]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er dálítið vandlifað í þessari umræðu. Nú er ég gagnrýndur fyrir að hafa tekið of mikinn tíma í að ræða málin og í gær var ég gagnrýndur harðlega fyrir að svara ekki nokkrum sköpuðum hlut af því sem ég var spurður um. Þetta er því dálítið snúið. Þess vegna ætla ég ekki að taka mjög langan tíma heldur nýta andsvarið til að svara spurningum hv. þm. og reyna að standa við tímamörkin sem um var talað.

Fyrst varðandi skýrsluna sem hv. þm. spurði um, þá er unnið að því nú í viðskrn., því er ekki lokið, að gera hagkvæmnisathugun á því og finna út hvaða áhrif slík sameining eins og þessar stóru sameiningar hefðu á alla þá þætti sem hv. þm. benti á áðan. (Gripið fram í: Liggur engin skýrsla fyrir?) Það liggur engin skýrsla fyrir um það en búið er að vinna að þessu í langan tíma. Við munum m.a. leita, hv. þm., til erlendra ráðgjafa í þeim efnum og það er undirbúið og upphaflega til komið af hálfu viðskrh.

Í öðru lagi spurði hv. þm. um hvernig farið yrði með málið ef til þessarar stóru sameiningar kæmi eða til einhverrar sameiningar kæmi. Ég er þeirrar skoðunar og lýsti því yfir hér í gær burt séð frá því, og lengra er nú málið ekki komið, að menn hafa ekki enn einu sinni kannað hver lagagrundvöllurinn væri fyrir því að sameina fyrirtæki án atbeina Alþingis. Málið er nú ekki lengra komið en þetta. En það væri partur af svona skýrslu eins og hér er verið að lýsa.

Þó svo að niðurstaða lögfræðinga yrði sú að ekki þyrfti að bera þetta undir þingið, nema bara söluna þegar að henni kæmi, þá er ég þeirrar skoðunar að hér sé um svo stórt mál að ræða að það eigi að bera það undir þingið, alveg sama hvaða sameiningu um væri að ræða. Hún yrði að vera staðfest af þinginu þegar fram liðu stundir. (Gripið fram í: Eftir á?) Ég get ekkert sagt um það. Við skulum fyrst átta okkur á því að engar slíkar viðræður eru í gangi. Ég er bara að lýsa því nákvæmlega núna hvernig slíkir hlutir ættu að koma til kasta Alþingis.

Hitt atriðið, starfsmennirnir, og nú er ég alveg að ljúka máli mínu. (Forseti hringir.) Ég mun leggja áherslu á að eiga jafngott samstarf við þá um það mál komi til þess að slík sameining eigi sér stað eins og ég hef átt við starfsmenn um þessi mál.