Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 11:45:45 (2678)

1999-12-10 11:45:45# 125. lþ. 42.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, JÁ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[11:45]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þetta þingmál snýst í einfaldleika sínum um það að breyta heimild til hlutafjáraukningar í heimild til sölu hlutafjár sem er skynsamleg ráðstöfun og ég styð hana. Ýmsar vísbendingar eru um að stjórnvöld hafi á prjónunum einhvers konar endurskipulagningu á fjármálamarkaðnum en umræður á hv. Alþingi hafa ekki leitt í ljós hvaða stefnu þau hyggjast taka í því efni. Í stuðningi mínum við þingmálið, sem er til ákvörðunar Alþingis, er ekki fólginn stuðningur við samruna stærstu fjármálastofnana á markaðnum hér, þ.e. Landsbanka og Íslandsbanka. Slík ákvörðun mundi setja íslenskan fjármálamarkað úr skorðum, skapa ójafnvægi og erfiða samkeppnisaðstöðu annarra fjármálastofnana á markaðnum þannig að óviðunandi væri.

Ég tel einnig að á meðan ríkið er þátttakandi í fjármálamarkaði eigi það að eiga ráðandi hlut í öflugustu fjármálastofnuninni, þeirri stofnun sem við getum kallað þjóðbanka. Ég segi já.