Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 13:30:44 (2686)

1999-12-10 13:30:44# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[13:30]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (frh.):

Herra forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni að gera grein fyrir þeim brtt. sem varða heilbr.- og trmrn.

Það er í fyrsta lagi Tryggingastofnun ríkisins. Farið er fram á 16 millj. kr. fjárveitingu vegna hækkunar á útseldri vinnu tölvu- og kerfisfræðinga umfram almennar verðlagshækkanir. Nær helmingur af öðrum gjöldum Tryggingastofnunar ríkisins er rekstur á upplýsingakerfum þar sem taxtahækkun á útseldri vinnu tölvu- og kerfisfræðinga vegur þungt.

Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Lögð er til 76,3 millj. kr. hækkun á liðnum. Annars vegar er lagt til að framlög til heimilisuppbótar lækki um 30 millj. kr. Í ljósi útgjalda fyrstu tíu mánuði ársins 1999 hafa forsendur ársins 2000 breyst og áætlun um heimilisuppbót er lækkuð um 30 millj. kr.

Hins vegar hækkar viðfangsefnið Uppbætur um 106,3 millj. kr. Þar er í fyrsta lagi lagt til að 8,5 millj. kr. færist á óskiptan lið daggjaldastofnana til að breyta dvalarrými í hjúkrunarrými. Í öðru lagi er lagt til að 33,8 millj. kr. verði fluttar til Hjúkrunarheimilisins Hlíðar á Akureyri vegna áforma um breytingu dvalarrýmis í hjúkrunarrými. Loks er farið fram á 148,6 millj. kr. óskipt framlag til að standa undir hækkun á daggjöldum dvalarheimila. Eftir að vistunarmat fyrir einstaklinga var tekið upp hefur hjúkrunarþyngd heimilanna aukist og hækkað rekstrarkostnað þeirra. Öll dvalarheimili fá greitt sama daggjaldið fyrir vistmenn sína en daggjald hefur ekki tekið mið af hjúkrunarþyngd.

Gerð er tillaga um að framlög til lífeyristrygginga lækki um 80 millj. kr. í ljósi útgjalda fyrstu tíu mánuði ársins 1999. Þar er m.a. lagt til að framlög til tekjutryggingar ellilífeyrisþega lækki um 50 millj. kr. og hins vegar að framlög til fæðingarorlofs lækki um 30 millj. kr.

Gerð er tillaga um hækkun framlaga á þremur viðfangsefnum undir liðnum Sjúkratryggingar sem nemur alls 171,1 millj. kr. Í fyrsta lagi er lögð til 21,1 millj. kr. hækkun á framlögum til lækniskostnaðar og skýrist hún af tvennu. Annars vegar er farið fram á að framlögin hækki um 40 millj. kr. í ljósi útgjalda fyrstu tíu mánuði ársins 1999. Hins vegar er gert ráð fyrir 18,9 millj. kr. lækkun í kjölfar nýs samnings sem liggur fyrir við Krabbameinsfélag Íslands. Í honum er gert ráð fyrir að tveir fyrri samningar, þ.e. verksamningur Krabbameinsfélags Íslands og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, dags. 30. apríl 1992, og samningur Krabbameinsfélags Íslands við Tryggingastofnun ríkisins, dags. 31. janúar 1995, verði felldir saman í einn. Við þetta falla niður sérstakar greiðslur Tryggingastofnunar fyrir rannsóknir og sérskoðanir sem námu 18,9 millj. kr. árið 1999.

Þá er farið fram á að fjárveiting til hjálpartækjakaupa verði hækkuð um 30 millj. kr. í ljósi útgjalda fyrstu tíu mánuði ársins 1999. Af sömu ástæðu er lagt til að framlög til þjálfunar hækki um 100 millj. kr. og að framlög til sjúkradagpeninga hækki um 20 millj. kr.

Lagt er til að landlæknisembættið fái 5 millj. kr. fjárveitingu til að stofna forvarnastöð með rannsóknir, fræðslu og ráðgjöf sem meginverkefni. Gert verður ráð fyrir stöðugildi rannsóknarmanns á forvarnastöð.

Það er óskað eftir 8 millj. kr. tímabundinni hækkun á fjárveitingum til Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands til kaupa á heyrnartækjum til að stytta biðtíma eftir þeim en hann er nú er allt að níu mánuðir.

Þá er komið að liðnum Sjúkrastofnanir. Lagt er til að veitt verði 1.444,3 millj. kr. hækkun á framlögum til sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og samrekinna heilbrigðisstofnana sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið í kjölfar endurmats á rekstrarkostnaði. Samkvæmt breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umr. frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir fjárveitingu til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla stofnananna til ársloka 1999 í samræmi við mat Ríkisendurskoðunar. Sú hækkun á fjárveitingu sem hér er lögð til gerir stjórnendum kleift að samræma rekstrarkostnað við fjárheimildir ársins 2000. Framlagið er veitt með því skilyrði að stjórnendur stofnananna geri samning við heilbrigðisráðuneyti um að rekstur þeirra verði innan fjárheimilda árið 2000 og ákvæði í samningi verði í samræmi við það sem fram kemur um skipan þessara mála í inngangi nefndarálits meiri hluta fjárlaganefndar. Að öðrum kosti er gert ráð fyrir að fjárveitingin verði felld niður með fjáraukalögum ársins 2000. Nánar er fjallað um þetta í inngangi nefndarálitsins og einnig fjallaði ég nokkuð ítarlega um þetta í upphafi ræðu minnar. Þessu fylgir listi yfir stofnanir sem liggur fyrir á í nefndarálitnu á þskj. 337 og legg ég hann hér með fram.

Þá er lögð til 134,3 millj. kr. hækkun á framlögum til hjúkrunarheimila og daggjaldastofnana í kjölfar endurmats á rekstrarkostnaði. Fjárhæðin er byggð á mati í samræmi við svonefnda RAI-hjúkrunarþyngdarstuðla. Samkvæmt breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umræðu frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir fjárveitingu til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla stofnananna til ársloka 1999 í samræmi við mat Ríkisendurskoðunar. Stjórnendum þeirra er ætlað að halda rekstri þeirra innan daggjalda sem hér eru lögð til árið 2000. Stefnt er að því að gera samninga við þær stofnanir sem enn er ósamið við um þjónustuna og greiðslu daggjalda úr ríkissjóði og framlög notenda fyrir hana. Að öðrum kosti er gert ráð fyrir að daggjöld verði óbreytt frá því sem miðað er við í frumvarpinu. Hér frammi liggur listi um stofnanir og framlag til hverrar stofnunar um sig í nefndarálitinu á þskj. 337.

Þá er það Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri. Lögð er til 37 millj. kr. hækkun framlags til stofnunarinnar. Þar af eru 6,5 millj. kr. til ísótóparannsókna, 10 millj. kr. til aukinnar starfsemi á sviði barna- og unglingageðlækninga, 14,5 millj. kr. til reksturs göngudeildar fyrir geðdeild og barna- og unglingageðlækningar og 3,8 millj. kr. til reksturs þjálfunarlaugar í Kristnesi sem tekin verður í notkun á næsta ári.

Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi. Lagt er til að millifært verði 32 millj. kr. framlag innan þessa fjárlagaliðar af viðfangsefninu Þjónustusamningar við hjúkrunarheimili á viðfangsefni 1.01 Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi. Í frumvarpi til fjárlaga var 32 millj. kr. fjárveiting til hækkunar rekstrargrunns hjúkrunarheimila millifærð á hlutaðeigandi stofnanir. Þau mistök urðu hins vegar að fjárveitingin var tekin af 08-370 1.01 Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi í stað 08-370 1.91 Þjónustusamningar við hjúkrunarheimili. Óskað er eftir leiðréttingu á þessu til að koma í veg fyrir misskilning eftir afgreiðslu fjárlaga.

Sjúkrahús, óskipt. Gerð er tillaga um 87 millj. kr. framlag til þessa nýja liðar. Annars vegar er um að ræða 37 millj. kr. framlag til ýmissa sjálfseignarstofnana og hins vegar 50 millj. kr. til heilbrigðisstofnananna á Akranesi, Austurlandi, Selfossi og Suðurnesjum. Er framlaginu ætlað að auðvelda aðgerðir til að halda rekstrinum innan fjárheimilda. Mun heilbrigðisráðuneyti ásamt fjármálaráðuneyti og Ríkisendurskoðun fara nánar yfir forsendur fyrir framlögum til stofnananna. Síðan munu ráðuneytin leggja tillögu fyrir fjárlaganefnd um skiptingu framlagsins. Afgangsheimildir á þessum lið verða felldar niður.

Sjúkrahús og læknisbústaðir. Gerð er tillaga um 34 millj. kr. hækkun viðfangsefnisins Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða. Sundurliðun er sýnd í sérstökum yfirlitum II með breytingartillögum meiri hlutans. Hluti fjárhæðarinnar, eða 10 millj. kr., er tímabundið framlag til endurbóta á húsnæði Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Það er lögð til 57,2 millj. kr. hækkun framlaga til þessa liðar og skiptist hún á fimm viðfangsefni. Í fyrsta lagi er lögð til 32,1 millj. kr. hækkun fjárveitingar til leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands en drög að nýjum samningi við félagið liggja fyrir. Í honum er eins og að framan er getið gert ráð fyrir að tveir samningar, þ.e. verksamningur Krabbameinsfélags Íslands og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, frá 30. apríl 1992, og samningur Krabbameinsfélags Íslands við Tryggingastofnun ríkisins, frá 31. janúar 1995, verði felldir saman í einn. Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir 13,2 millj. kr. hækkun til að halda áfram óbreyttri starfsemi í skipulagðri krabbameinsleit hjá konum. Auk þess er gert ráð fyrir að 18,9 millj. kr. greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins fyrir rannsóknir og sérskoðanir verði hluti af samningnum og færist fjárveiting vegna þeirra verka af liðnum Sjúkratryggingar, lækniskostnaður.

Þá er gerð tillaga um 13 millj. kr. hækkun framlags til Krabbameinsfélags Íslands, viðfangsefnisins Krabbameinsfélag Íslands, styrkir. Er þar annars vegar um 8 millj. kr. hækkun framlags að ræða til félagsins en það hefur úthlutað styrkjum úr Rannsókna- og tækjakaupasjóði sínum til rannsókna á krabbameini. Hins vegar er um 5 millj. kr. hækkun að ræða til styrktar almennri starfsemi félagsins.

Þá er lagt til að Stórstúka Íslands fái framlag að fjárhæð 1,5 millj. kr. til forvarnastarfa og er það á nýju viðfangsefni, Stórstúka Íslands.

Þá er gerð tillaga um 5,5 millj. kr. tímabundna hækkun á framlagi til Krýsuvíkurskóla til að styrkja rekstur hans.

Loks er farið fram á hækkun viðfangsefnisins Ýmis framlög og er þar um að ræða tímabundið framlag að fjárhæð 5,1 millj. kr. til rannsóknar á ónæmisástandi gegn rauðum hundum. Til þess að tryggja að ónæmisástand allra barna í landinu sé viðunandi er lagt til að rannsókn á ónæmisástandi 12 ára barna verði viðhaldið til 30. júní 2001. Áætlaður kostnaður við verkefnið er rúmlega 10 millj. kr. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 1999 er farið fram á 2,6 millj. kr. sem er kostnaður við verkefnið frá miðju ári 1999. Á árinu 2000 er áætlaður kostnaður við verkefnið 5,1 millj. kr. og 2,6 millj. kr. árið 2001.

Lögð er til 35 millj. kr. hækkun til Samtaka áhugamanna um áfengisvandamálið. Í fyrsta lagi er farið fram á að veitt verði 30 millj. kr. framlag til reksturs unglingadeildar SÁÁ á Vogi. Framlagið er í samræmi við tillögur um aukið framlag til fíkniefnavarna. Forsenda fjárveitingarinnar er gerð þjónustusamnings sem m.a. feli í sér skilgreiningu á þeirri þjónustu sem veitt er, en auk þess ákvæði um fjárhagslegt og faglegt eftirlit með starfseminni. Miðað er við að samningum verði lokið fyrir 1. mars nk. Þá er gerð tillaga um 5 millj. kr. tímabundna hækkun á fjárveitingu til að styrkja rekstur göngudeildar SÁÁ á Akureyri.

Lagt er til að 8,5 millj. kr. framlag verði millifært á óskiptan lið daggjaldastofnana til að breyta dvalarrými í hjúkrunarrými.

Reynslusveitarfélagið Akureyri. Lögð er til 82,2 millj. kr. hækkun framlags til viðfangsefnisins Hjúkrunarrými. Í fyrsta lagi er þar lagt til að 33,8 millj. kr. verði fluttar til Hjúkrunarheimilisins Hlíðar á Akureyri vegna áforma um breytingu dvalarrýmis í hjúkrunarrými af liðnum 08-203 1.51 Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eins og fram kemur í skýringum við þann lið.

Í annan stað er lagt til að veitt verði 33,4 millj. kr. framlag til verkefnisins í kjölfar endurmats á rekstrarkostnaði. Samkvæmt tillögum sem samþykktar voru við 2. umræðu frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir fjárveitingu til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla vegna verkefnisins til ársloka 1999 í samræmi við mat Ríkisendurskoðunar. Fyrirhugað er að endurnýja samning við reynslusveitarfélagið og eiga fjárveitingarnar að duga til að standa undir þeirri þjónustu sem það tekur að sér.

[13:45]

Loks er gerð tillaga um 15 millj. kr. aukið framlag á þennan fjárlagalið. Skýrist það af fjölgun um 15 hjúkrunarrýma á Hlíð á Akureyri í tengslum við framlengingu á samningi við Akureyrarbæ. Um er að ræða sex ný hjúkrunarrými og breytingu á níu dvalarrýmum í hjúkrunarrými. Hjúkrunarrými fyrir íbúa 67 ára og eldri hafa verið fæst á starfssvæði sveitarfélagsins miðað við aðra landshluta.

Reynslusveitarfélagið Hornafjörður. Lagt er til að veitt verði 10,7 millj. kr. framlag til verkefnisins í kjölfar endurmats á rekstrarkostnaði. Samkvæmt tillögum sem samþykktar voru við 2. umr. frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir fjárveitingu til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla vegna verkefnisins til ársloka 1999 í samræmi við mat Ríkisendurskoðunar. Fyrirhugað er að endurnýja samning við reynslusveitarfélagið og eiga fjárveitingarnar að duga til að standa undir þeirri þjónustu sem það tekur að sér.

Heilsugæslustöðvar, almennt. Lögð er til 67,4 millj. kr. fjárveiting á óskiptan lið á þessu viðfangsefni. Þar af eru 55 millj. kr. vegna heilsugæslunnar í Reykjavík og 12,4 millj. kr. til annarra heilsugæslustöðva. Eiga framlögin að auðvelda aðgerðir til að halda rekstrinum innan fjárheimilda árið 2000. Mun heilbrrn. og fjmrn. ásamt Ríkisendurskoðun fara nánar í forsendur fyrir framlögum til einstakra stofnana. Ráðuneytin munu síðan leggja tillögu fyrir fjárlaganefnd um skiptingu framlagsins á einstakar stöðvar. Afgangsheimildir verða felldar niður á þessum lið.

Farið er fram á 10 millj. kr. hækkun fjárveitingar til heilsugæslustöðvanna í Efstaleiti og Grafarvogi. Heilsugæslustöðin í Fossvogi flutti í nýtt og stærra húsnæði í Efstaleiti árið 1999 síðla árs og hækkaði húsnæðiskostnaður við það. Einnig er ætlunin að auka starfsemi stöðvarinnar. Þá er áformað að flytja heilsugæslustöðina í Grafarvogi í nýtt og stærra húsnæði árið 2000. Er þá gert ráð fyrir að húsnæðiskostnaður hækki og að nokkur aukning verði á starfsemi stöðvarinnar.

Lagt er til að sértekjur Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík lækki um 21,9 millj. kr. en á móti lækki rekstrargjöld um sömu upphæð. Sértekjur stöðvarinnar hafa dregist saman og er áformað að laga fjárheimildir að raunverulegri veltu.

Heilsugæslustöðin Lágmúla í Reykjavík. Gerð er tillaga um að hækka launafjárveitingu heilsugæslustöðvarinnar um 20,8 millj. kr. Þessi hækkun á launagrunni stöðvarinnar frá og með árinu 2000 er vegna breytinga á kjörum heilsugæslulækna og hjúkrunarfræðinga á tímabilinu frá 1997 til næsta árs samkvæmt kjarasamningum, aðlögunarsamningum og úrskurðum kjaranefndar. Einnig hafa verið millifærðar fjárheimildir til stofnunarinnar af launa- og verðlagsmálalið fjmrn. innan ársins 1999 til að mæta auknum launaútgjöldum áranna 1997--99. Öðrum heilbrigðisstofnunum hafa þegar verið bættar þessar hækkanir í fjárlögum og fjáraukalögum en þar sem heilsugæslustöðin við Lágmúla er einkarekin og ekki með launaafgreiðslu sína í launabókhaldi ríkisins var ekki lokið við endurmat á launagrunninum fyrir framlagningu fjárlagafrv.

Reynslusveitarfélagið Akureyri. Lagt er til að veitt verði 20,5 millj. kr. framlag til verkefnisins í kjölfar endurmats á rekstrarkostnaði. Samkvæmt tillögum sem samþykktar voru við 2. umr. frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1999 var gert ráð fyrir fjárveitingu til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla vegna verkefnisins til ársloka 1999 í samræmi við mat Ríkisendurskoðunar. Eins og áður segir er fyrirhugað að endurnýja samning við reynslusveitarfélagið.

Reynslusveitarfélagið Hornafjörður. Lagt er til að veitt verði 4,1 millj. kr. framlag til verkefnisins í kjölfar endurmats á rekstrarkostnaði og um það gilda sömu forsendur eins og til reynslusveitarfélagsins Akureyri.

Jafnframt er lagt til að heiti fjárlagaliðarins verði Reynslusveitarfélagið Hornafjörður en það er Reynslusveitarfélagið Höfn í Hornafirði samkvæmt frv..

Farið er fram á 10 millj. kr. framlag til Forvarnasjóðs til að sjóðurinn geti aukið styrki til verkefna á sviði forvarna gegn fíkniefnum.

Lagt er til að veitt verði 1 millj. kr. framlag til Heilbrigðisstofnunarinnar á Patreksfirði til endurnýjunar símkerfis, 4 millj. kr. til Heilbrigðisstofnunarinnar í Ísafjarðarbæ vegna kaupa á skyggnimagnara (C-boga) fyrir stofnunina. Viðbótarframlag mun koma af tækjakaupalið sjúkrahúsanna á næsta ári.

Gerð er tillaga um 8 millj. kr. hækkun til Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki. Annars vegar er lagt til að veittar verði 6 millj. kr. til meiri háttar viðhalds, endurnýjunar á gluggum, til lagfæringa á aðkeyrslu og til frágangs lóðar. Þá er lagt til að veittar verði 2 millj. kr. til sjúkraflutninga til að mæta kostnaði við það að tveir sjúkraflutningamenn fari í útkall í stað eins áður.

Fjármálaráðuneyti. Lagt er til að fjárveiting til yfirskattanefndar hækki um 3 millj. kr. í kjölfar mats á kostnaðaráhrifum af úrskurði kjaranefndar um laun nefndarmanna sem hafa það starf að aðalstarfi. Það gildir frá 1. maí 1999 og hefur kostnaðarauka ársins 1999 verið mætt með fjárheimild af launa- og verðlagsmálalið fjmrn.

Gerð er tillaga um 7 millj. kr. hækkun á fjárveitingu til ríkistollstjóra. Þar er annars vegar um að ræða 3 millj. kr. fjárveitingu til embættisins til að unnt verði að gefa tollvörðum sem bera sérstaka ábyrgð í fíkniefnamálum tækifæri til endurmenntunar og starfsþjálfunar, bæði innan lands og erlendis. Um er að ræða 20 tollverði sem öðrum fremur þurfi að eiga kost á slíkri þjálfun.

Hins vegar er lagt til að fjárveiting til stofnunarinnar verði hækkuð um 4 millj. kr. til að efla starf hennar að fíkniefnavörnum. Stofnunin fyrirhugar að koma á samstarfi við ríkislögreglustjóra um að hafinn verði undirbúningur þess að koma á sjálfvirku, tölvuvæddu tolleftirlitskerfi byggðu á áhættugreiningu.

Farið er fram á 18 millj. kr. til tollstjórans í Reykjavík til kaupa á bifreið með gegnumlýsingarbúnaði. Tollgæslan hefur leitað árangursríkra leiða til að rannsaka fleiri sendingar sem koma til landsins og stemma stigu við smygli fíkniefna.

Gerð er tillaga um 45 millj. kr. fjárveitingu inn á liðinn Lífeyrisskuldbindingar, eftirlaun. Eftirlaun hæstaréttardómara eru undir þessum fjárlagalið. Jafnframt er gerð tillaga um 10 millj. kr. fjárheimild á öðru nýju viðfangsefni, Aðrar lífeyrisskuldbindingar og eftirlaun. Við breytta framsetningu á fjárlögum árið 1998 í kjölfar nýrra laga um fjárreiður ríkisins féllu þessar greiðslur út í áætlanagerð um nýja sundurliðun lífeyrisskuldbindinga og -greiðslna. Tillögunni er ætlað að laga fjárheimildir liðarins að endurbættri áætlanagerð í samræmi við breytta framsetningu fjárlaganna.

Gerð er tillaga um 70 millj. kr. fjárveitingu til skýrsluvélakostnaðar og viðfangsefnisins Tölvukerfi undir þessum fjárlagalið. Hækkun á kostnaði vegna upplýsingakerfa hefur verið mjög mikil á undanförnum árum. Stafar þetta einkum af hækkun taxta fyrir útselda vinnu í upplýsingageiranum og auknum kröfum til kerfanna. Á þessu ári voru útgjöld vegna upplýsingakerfa mun meiri en áætlað var og á það einkum við um skattvinnslukerfi á vegum ríkisskattstjóra. Fjmrn. er að láta gera úttekt á kostnaði við þessi kerfi. Fyrstu niðurstöðu er að vænta fyrir lok þessa árs en fjárveitingin er ætluð til að standa undir áætlaðri útgjaldaaukningu á þessu sviði.

Samgönguráðuneyti. Gerð er tillaga um hækkun fjárveitinga sem nemur 64 millj. kr. á liðnum Ýmis verkefni. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 8 millj. kr. tímabundna hækkun á fjárveitingum til rekstrar Slysavarnaskóla sjómanna, 2 millj. kr. framlag til Slysavarnafélagsins Landsbjargar til rekstrar á björgunarskipinu Þór í Vestmannaeyjum, 49 millj. kr. fjárveitingu til markaðsátaks í Norður-Ameríku og 5 millj. kr. tímabundið framlag til Hestamiðstöðvar Íslands sem ég hef áður gert grein fyrir.

Gert er ráð fyrir 239 millj. kr. hækkun á framlögum til Vegagerðarinnar. Í fyrsta lagi fara 14 millj. kr. til yfirstjórnar, en það svarar til 3% hækkunar á verðlagi á milli áranna 1999 og 2000 í samræmi við forsendur gildandi vegáætlunar. Í frumvarpinu var ekki gert ráð fyrir þessari verðlagshækkun milli ára. Sambærileg breyting er lögð til á öðrum viðfangsefnum.

Þá er lögð til 488 millj. kr. hækkun á styrkjum til ferja og sérleyfishafa. Annars vegar er þar lagt til að 475 millj. kr. fjárveiting verði flutt af viðfangsefninu Ferjur og flóabátar á viðfangsefnið Styrkir til ferja og sérleyfishafa þar sem útgjöld vegna ferja eru rekstrartilfærslur til fyrirtækja fremur en stofnkostnaður. Hins vegar er gerð tillaga um 13 millj. kr. fjárveitingu sem svarar til 3% hækkunar á verðlagi á milli áranna 1999 og 2000 í samræmi við forsendur gildandi vegáætlunar.

Jafnframt þessu er lagt til að heiti viðfangsefnisins verði Styrkir til ferja og sérleyfishafa í staðinn fyrir Styrkir til sérleyfishafa samkvæmt frv.

Lagt er til að hluti áætlaðs framlags til viðfangsefnisins Þéttbýlisvegir í frv., eða 251 millj. kr., færist á viðfangsefnið Þjónusta. Er það í samræmi við breytta framsetningu á fyrirhugaðri vegáætlun fyrir árin 2000--2004 sem verður lögð fram á Alþingi. Loks er gerð tillaga um 52 millj. kr. fjárveitingu til þessa viðfangsefnis sem svarar til 3% hækkunar á verðlagi milli áranna 1999 og 2000.

Af sama toga eru breytingar sem lagðar eru til á viðfangsefninu Viðhald. Jafnframt er gerð tillaga um 47 millj. kr. fjárveitingu sem svarar til 3% hækkunar á verðlagi á milli áranna 1999 og 2000 í samræmi við forsendur gildandi vegáætlunar.

Á viðfangsefninu Þéttbýlisvegir verða breytingar sem nema 392 millj. kr. til lækkunar. Þar er gerð í fyrsta lagi tillaga um 12 millj. kr. fjárveitingu sem svarar til 3% hækkunar á verðlagi á milli áranna 1999 og 2000. Þá er sem fyrr greinir lagt til að hluti áætlaðs framlags til viðfangsefnisins í frv., eða 251 millj. kr., færist á viðfangsefnið Þjónusta og hins vegar að 153 millj. kr. færist á viðfangsefnið Viðhald. Er það allt í samræmi við breytta framsetningu á vegáætlun fyrir árin 2000--2004.

Lagt er til að fjárveitingar til nýframkvæmda hækki alls um 88 millj. kr. Í frv. er gert ráð fyrir 350 millj. kr. frestun hafnarframkvæmda á liðnum Siglingastofnun Íslands. Lagt er til að þar af verði 35 millj. kr. fluttar til Vegagerðarinnar og komi til frestunar á framkvæmdum í vegamálum. Gert er ráð fyrir samsvarandi hækkun fjárveitingar á viðfangsefninu Hafnamannvirki hjá Siglingastofnun. Í annan stað er gerð tillaga um 123 millj. kr. fjárveitingu sem svarar til 3% hækkunar á verðlagi á milli áranna 1999 og 2000 í samræmi við forsendur gildandi vegáætlunar sem ekki var gert ráð fyrir í frv.

Þá er gert ráð fyrir fjárveitingu sem svarar til 3% hækkunar á verðlagi á milli áranna 1999 og 2000 á nokkrum öðrum viðfangsefnum. Til landsvega 2 millj. kr., til tilrauna 3 millj. kr., til safnvega 6 millj. kr., til styrkvega 1 millj. kr. og til reiðvega 1 millj. kr. Í frv. var sem fyrr segir ekki gert ráð fyrir þessari verðlagshækkun milli ára.

Lækkun sú sem lögð er til á viðfangsefninu Ferjur og flóabátar, 475 millj. kr., er vegna fyrrgreinds flutnings fjárhæðarinnar á viðfangsefnið Styrkir til ferja og sérleyfishafa þar sem útgjöld vegna ferja eru rekstrartilfærslur til fyrirtækja fremur en stofnkostnaður.

[14:00]

Siglingastofnun Íslands. Lagt er til að framlög til stofnunarinnar hækki alls um 46,1 millj. kr. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 8 millj. kr. tímabundið framlag til yfirstjórnar til að standa straum af kostnaði við undirbúningsrannsóknir vegna hafnargerðar við álvershöfn sem hugsanlega verður byggð í Reyðarfirði.

Þá er gerð tillaga um 45 millj. kr. hækkun fjárveitinga til hafnamannvirkja. Annars vegar er þar um 35 millj. kr. hækkun að ræða. Í fjárlagafrumvarpinu er sem fyrr greinir gert ráð fyrir 350 millj. kr. frestun hafnaframkvæmda á liðnum Siglingastofnun Íslands. Lagt er til að þar af verði 35 millj. kr. fluttar til Vegagerðarinnar og komi til frestunar á framkvæmdum í vegamálum. Gert er ráð fyrir samsvarandi lækkun fjárveitingar á viðfangsefninu Nýframkvæmdir hjá Vegagerðinni. Hins vegar er um tvær leiðréttingar að ræða sem samtals nema 10 millj. kr. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 1999 er leiðrétt framsetning fjárlaga ársins 1999 með millifærslu á 5,5 millj. kr. af viðfangsefninu Hafnamannvirki yfir á Tollaðstaða á Seyðisfirði og millifærslu á 4,5 millj. kr. af viðfangsefninu Hafnamannvirki yfir á Ferjubryggjur. Þau mistök urðu hins vegar við gerð fjárlagafrumvarps fyrir árið 2000 að þessar millifærslur voru einnig gerðar þar og er lagt til að fjárhæðin, 10 millj. kr. verði færð til baka á Hafnamannvirki. Að sama skapi lækka fjárveitingar til þeirra viðfangsefna sem ég áður gat um.

Þá hækkar viðfangsefnið Lendingarbætur um 0,3 millj. kr. og sundurliðun er sýnd í sérstöku yfirliti.

Loks er gerð tillaga um að framlag til sjóvarnargarða hækki um 2,8 millj. kr. vegna sjóvarna í Leiru í Gerðahreppi.

Lagt er til að fjárveiting til viðfangsefnisins Ferðamálasamtök landshluta hækki um 10 millj. kr. til að styrkja rekstur upplýsingamiðstöðva í ferðaþjónustu.

Iðnaðarráðuneyti. Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundið framlag til Hestamiðstöðvar Íslands. Ég hef gert grein fyrir því áður.

Orkustofnun. Gerð er tillaga um 3,5 millj. kr. til orkurannsókna á Geysissvæðinu.

Orkusjóður. Gerð er tillaga um 6 millj. kr. til að auka svigrúm hans til að veita styrki til jarðhitaleitar, og lagt til að niðurgreiðslur á rafhitun hækki um 160 millj. kr. og ég gerði grein fyrir því fyrr í ræðu minni.

Þá er nýr fjárlagaliður, Byggðastofnun. Það er gert ráð fyrir 502 millj. kr. til hans. Ég gerði grein fyrir því í ræðu minni undir liðnum Forsætisráðuneyti en þetta er tilfærsla á þessu verkefni milli ráðuneyta.

Viðskiptaráðuneyti. Lagt er til að veitt verði framlag að fjárhæð 2 millj. kr. til kærunefndar um ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins sem fyrirhugað er að taki til starfa í janúar árið 2000. Samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi þurfa kærendur að greiða 120 þús. kr. fyrir hvert mál sem þeir bera upp við kærunefndina. Gert er ráð fyrir að lagt verði fram frumvarp til breytingar á þeim lögum þar sem lagt verði til að málskotsgjald kærunefndarinnar falli niður. Er gerð tillaga um framlag úr ríkissjóði til að fjármagna nefndarlaun og störf nefndarinnar þar sem hún verður af þessum tekjum.

Umhverfisráðuneyti. Alls er farið fram á 13 millj. kr. hækkun til viðfangsefnisins 1.23 Ýmis umhverfisverkefni. Ber þar fyrst að geta tímabundins 8 millj. kr. framlags til nefndar um endurnýtingu úrgangs. Nefndinni er ætlað að gera tillögur um umhverfisátak á sviði endurnýtingar úrgangs eins og boðað er í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Áætlað er að nefndin starfi í þrjú ár og að kostnaðurinn verði nokkru lægri síðari tvö árin.

Þá er óskað eftir 3 millj. kr. tímabundinni fjárveitingu vegna kostnaðar við Staðardagskrá 21.

Loks er um að ræða 2 millj. kr. framlag til nýskipaðrar 16 manna nefndar um hálendismál. Nefndin er skipuð til fjögurra ára í senn og er henni ætlað að fjalla um svæðisskipulag miðhálendisins og aðalskipulag innan marka miðhálendisins. Skal nefndin sjá til þess að aðalskipulag sé í samræmi við þá stefnu sem mörkuð er í svæðisskipulagi miðhálendisins og að samræmis sé gætt milli aðalskipulagsáætlana sveitarfélaga á svæðinu.

Auk þessa er lagt til að heiti viðfangsefnisins 14-190 1.58 verði Náttúrugripasöfn í stað Náttúrugripasafn í Vestmannaeyjum samkvæmt frumvarpinu.

Farið er fram á 5 millj. kr. vegna vinnu við gerð náttúruverndaráætlana. Samkvæmt nýjum náttúruverndarlögum skal slík áætlun vera tilbúin fyrir landið allt eigi síðar en árið 2002. Náttúruvernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun koma að verkinu. Hlutverk Náttúruverndar er að afla gagna og meta verndargildi vistkerfa og náttúruminja.

Óskað er eftir 3 millj. kr. framlagi til Veiðistjóra sem fari til rannsókna á hreindýrastofninum á Austurlandi. Unnið er að gerð samnings um að Náttúrustofa Austurlands taki þær að sér.

Farið er fram á 16,5 millj. kr. hækkun til Landmælinga Íslands. Annars vegar er um að ræða 4,5 millj. kr. fjárveitingu til undirbúnings nýs verkefnis á sviði fjarkönnunar. Hins vegar er gerð tillaga um 12 millj. kr. hækkun á fjárveitingum til Landmælinga Íslands til að mæta lækkun á sértekjum.

Ráðgerð er 4,5 millj. kr. hækkun fjárveitinga til Náttúrufræðistofnunar Íslands á viðfangsefnið Setur í Reykjavík. Óskað er eftir 2,5 millj. kr. tímabundnu framlagi til næstu fimm ára til áframhaldandi útgáfu jarðfræðikorta. Við gerð fjárlaga fyrir árið 1999 var samþykkt að veita 2,5 millj. kr. til þessa verkefnis til að efla gerð jarðfræðikorta og hraða útgáfu korta í mælikvarðanum 1:250.000.

Þar að auki er er farið fram á tímabundið 2 millj. kr. framlag á árinu til rannsókna á áhrifum veiðiálags á rjúpnastofninn. Verkefnið er til þriggja ára og er heildarkostnaður 11 millj. kr. Þar af verða 6 millj. kr. fjármagnaðar með framlögum úr veiðikortasjóði, 2 millj. kr. á ári til ársins 2002. Þegar er búið að veita 1 millj. kr. af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar í þetta verkefni vegna rannsókna á árinu 1999 og verður framlag ríkissjóðs 1 millj. kr. árin 2001 og 2002.

Gert ráð fyrir 2 millj. kr. hærri sértekjum vegna styrkja úr rannsóknarsjóðum og samsvarandi kostnaði vegna rannsókna á áhrifum veiðiálags á rjúpnastofninn.

Lagt er til að Náttúrustofu Vestfjarða verði veitt 3,5 millj. kr. tímabundið framlag árið 2000 til rannsókna á Hornströndum. Um er að ræða refarannsóknir, rannsóknir á gróðri og smádýralífi og vatnarannsóknir. Áætlaður kostnaður er 5 millj. kr. og mun bilið brúað með framlögum annars staðar frá.

Vaxtagjöld ríkissjóðs. Gerð er tillaga um að fjárveiting vegna gjaldfærðra vaxta ríkis sjóðs lækki um 600 millj. kr. í kjölfar endurskoðunar á þeirri áætlun í frumvarpinu. Helstu breytingar eru að talið er að vaxtakostnaður af spariskírteinum og ríkisbréfum verði lægri vegna áforma um áframhaldandi forinnlausnir slíkra bréfa á næsta ári. Á móti vegur að reiknað er með nokkru hærri vaxtagjöldum af ríkisvíxlum vegna hærra vaxtastigs á innanlandsmarkaði. Loks er gert ráð fyrir að dragi úr fjármögnun með erlendum veltilánum og að vaxtastig af þeim lánum fari lækkandi. Áhrif þessara breytinga á greidd vaxtagjöld ársins 2000 eru talin verða svipuð og er reiknað með að þau lækki um 550 millj. kr. frá fyrri áætlun frumvarpsins.

Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir tillögum meiri hluta fjárln. en meiri hlutinn leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið hér að framan og gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Undir meirihlutaálitið skrifa Jón Kristjánsson, Einar Oddur Kristjánsson, Árni Johnsen, Hjálmar Jónsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Arnbjörg Sveinsdóttir og Kristján Pálsson.