Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 14:09:39 (2687)

1999-12-10 14:09:39# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[14:09]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. formaður fjárln., Jón Kristjánsson, hefur farið hér ítarlega í gegnum fjárlagafrv. og breytingar á því. Ég þakka honum fyrir fyrirheit um aukinn aga og það að menn hætti að semja fjárlög úti um allan bæ eins og hingað til hefur tíðkast og hefur sést í fjáraukalögum. Og ég þakka honum fyrir að hafa staðið hetjulega gegn þeirri útgerð á ríkissjóði sem á sér stað allt haustið.

Að sinni ætla ég ekki að ræða um stóru tölurnar. Ég ætla að ræða um baunirnar. Mér finnst margt í þessu minna á stjórnarfundi í Flugleiðum. Ég tala ekki um bandarískt hlutafélag heldur um Flugleiðir núorðið, en þar á bæ mundu menn meira að segja ekki ræða svona smotterí á stjórnarfundum heldur fela það deildarstjórum til afgreiðslu. Hér er verið að temja hross og hunda, gefa út bækur, ráða tollverði og rækta krækling og stunda rannsóknir svo lítið eitt sé nefnt.

Ég hef þrjár spurningar til hv. þm. Telur hv. þm. að komið verði böndum á sjálftöku ríkisstofnana? Get ég treyst því að fjáraukalögin verði á núlli fyrir árið 2000?

Í öðru lagi: Telur hv. þm. eðlilegt að hin háa löggjafarsamkunda sé að standa í slíkum smotterísframkvæmdum úti um allt þjóðlífið? Hver ber ábyrgð á framkvæmdum sem hv. Alþingi hefur tekið að sér, ráðherra eða Alþingi, og hvern á að gagnrýna fyrir slíkar framkvæmdir?

Í þriðja lagi: Ég hef rekist á hross úti um allt þetta frv. Hver verða heildarútgjöld ríkissjóðs vegna hrossa árið 2000? (Gripið fram í: Þetta er vegna hrossakaupa.)