Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 14:11:41 (2688)

1999-12-10 14:11:41# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[14:11]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður kom inn á nokkur grundvallaratriði, þ.e. hvort fjáraukalög verði á núlli. Við höfum vissulega einsett okkur að fylgjast með en ég get ekki lofað því. Fjáraukalög eru til þess að mæta ófyrirséðum útgjöldum og óvæntum atvikum þannig að ég fullyrði að þau geta ekki verið á núlli. En við höfum einsett okkur að reyna að stilla fjáraukalögum í hóf eins og hægt er.

Í öðru lagi er það þessir litlu framkvæmdaliðir. Það er grundvallaratriði sem þingið þarf að ræða hvort framselja eigi til framkvæmdarvaldsins meira af úthlutun í þessi smáu verkefni sem þingið er að taka að sér að ákveða framlög til. Miklar umræður hafa verið um það í fjárln. hve langt eigi að ganga í þessu efni. En ég segi alveg eins og er að margir þingmenn eru mjög tregir til að afsala sér þessu valdi til ráðherra og þess vegna er þetta svona. En auðvitað er þetta mál sem við þingmenn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, þurfum að ræða.

Ja, hross. Það er ljóst að 50 millj. kr. framlag er til nýrra verkefna varðandi hross í þessu fjárlagafrv. sem ætlunin er að standi til fimm ára þannig að verulegum fjármunum er veitt í hrossarækt og hestamennsku hvers konar í frv.