Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 15:14:46 (2693)

1999-12-10 15:14:46# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[15:14]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir málefnalega ræðu. Hann kom inn á eitt mál sem er prinsippmál, ef maður segir svo, og mig langar til að koma sjónarmiðum að í andsvari varðandi það. En það er að hann telur að við höfum oftrú á reiknilíkönum og módelum, séum að framselja vald með því að taka trú á þau. Nú höfum við gert kröfu um það í meiri hlutanum að að búið verði til reiknilíkan yfir sjúkrastofnanir og í menntmrn. hafa þeir reiknilíkan yfir framhaldsskólana. Ég tel að þetta sé nauðsynlegt vegna þess að það gefur okkur tæki til að hafa samræmi í úthlutunum okkar og þetta heftir að mínum dómi ekki hendur fjárln. eða þingsins í að taka pólitískar ákvarðanir um að styrkja einstakar stofnanir, en það er þá samræmi í því. Í fyrra, eða á yfirstandandi ári, tókum við þá ákvörðun við fjárlagagerð árið 1999, að setja nokkra fjármuni inn í framhaldsskólana til þess að styrkja vissa þætti í líkaninu sem um þá er haft í fámennum skólum. Þessi háttur þarf því ekki að hefta eða binda hendur löggjafarvaldsins. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að þetta sé fyrirkomulag sem við eigum að styrkja í sessi í fleiri málaflokkum.