Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 15:16:41 (2694)

1999-12-10 15:16:41# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[15:16]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að meta þarf sem vandlegast kostnað við hinar ýmsu aðgerðir í verkum og fjárútlátum og út á það set ég ekki. Hins vegar tel ég ástæðu til þess að mæla þessi varnaðarorð vegna þess að við sjáum að æ stærri málaflokkar fara óskiptir til framkvæmdarvaldsins til meðhöndlunar og til skipta á grundvelli reiknilíkana eða ákvarðana sem löggjafarvaldið hefur æ minni tök á. Þess vegna vil ég mæla þessi alvarlegu varnaðarorð.

Herra forseti. Bara tilurð fjáraukalaganna sýnir líka ábyrgð ráðuneytanna gagnvart þeim málaflokkum sem þau fara með. Virðing framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafanum er ekki meiri en svo að það kemur inn hér með útgjaldaliði sem þegar hafa verið framkvæmdir. Þess vegna tel ég, herra forseti, að það sé svo mikilvægt að breyta framsetningu og tímasetningu fjáraukalaganna þannig að Alþingi sjálft verði hinn eiginlegi löggjafi fjárveitingavaldsins en standi ekki í æ ríkari mæli frammi fyrir ákvörðunum einstakra ráðherra og ráðuneyta.