Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 15:22:32 (2697)

1999-12-10 15:22:32# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[15:22]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Hv. formaður fjárln. hefur farið ágætlega yfir starf okkar í meiri hluta fjárln. á þessu hausti. Ábyrgð okkar er mikil varðandi ríkisfjármálin og það er ætlun okkar að þess megi sjá merki að við stöndum undir þeirri ábyrgð. Það er hins vegar svo að samkvæmt venju verður ekki hægt að sjá endanlegar niðurstöður fyrr en við 3. umr. fjárlaga. Það er ákaflega mikilvægt að tekjuafgangur ríkissjóðs verði ekki minni en lagt var upp með þegar hæstv. fjmrh. lagði frv. fram í haust og helst viljum við að hann verði nokkru meiri. Í vinnu fjárln. á þessu hausti voru nokkur meginmál sem við lögðum sérstaka áherslu á. Lögð var áhersla á að koma fjármálum heilbrigðisstofnana á réttan kjöl, að vísu með ströngum skilyrðum eins og fram kemur í nál. og ég mun fara yfir hér á eftir. Annað atriði var fíkniefnavandinn því að ekki er vanþörf á að bregðast við honum. Það er ekki sérstök nauðsyn á að tíunda hér hinn mikla vanda sem þjóðfélagið stendur frammi fyrir varðandi þennan vágest sem nauðsynlegt er að bregðast við. Eðli málsins samkvæmt kemur það fram hjá nokkrum ráðuneytun hvernig auknar áherslur sýna sig í þessum efnum. Að lokum vil ég sérstaklega gera grein fyrir því hér seinna í máli mínu hvernig við, með okkar hætti, bregðumst við því sem í umræðunni hefur verið nefnt byggðavandinn.

Hæstv. forseti. Á liðnu vori var orðið ljóst að rekstur sjúkrastofnana stefndi talsvert fram úr fjárlögum þrátt fyrir að gerðar hafi verið ráðstafanir í lok síðasta árs til þess að greiða upp uppsafnaðan halla þeirra og leiðrétta rekstrargrunninn. Voru þær aðgerðir í samræmi við álit svonefnds faghóps heilbrrn. um nauðsyn þess að stofnanir haldi útgjöldum sínum innan fjárheimilda.

Ríkisendurskoðun var á haustdögum fengin til þess að fara yfir vandann og greina umfang hans við afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga nú í lok ársins. Niðurstaða Ríkisendurskoðunar er að rekstrarhalli stofnana hafi verið gerður upp í árslok 1998, en að á þessu ári hafi aftur sigið á ógæfuhliðina og rekstur stofnana farið langt umfram heimildir fjárlaga.

Nú er svo komið að uppsafnaður rekstrarhalli stofnana í árslok 1999 er áætlaður tæplega 4,2 milljarðar kr. og þar af eru um 3,6 milljarðar vegna halla sem myndast hefur á þessu ári. Hallinn skiptist á launakostnað og rekstrargjöld í nokkuð svipuðum hlutföllum og þessi gjöld vega í heildarútgjöldum sjúkrastofnana. Meginskýringin á umframútgjöldum á launalið er að útfærsla kjarasamninga í mörgum stofnunum virðist hvorki hafa verið í samræmi við þau fyrirmæli og leiðbeiningar sem gefnar voru né fyrirliggjandi fjárheimildir. Í tillögunum er verulegum viðbótarfjármunum varið til reksturs sjúkrastofnana. Það eru fjármunir sem fara í kostnaðarhækkanir sem þegar eru áfallnar.

Ljóst er að bæta má fjármálastjórn stofnana heilbrrn. og gera hana skilvirkari en hún er nú og það er mjög brýnt að ná tökum á þeim vanda og leita í því sambandi allra hugsanlegra leiða svo að þessar stofnanir fari að fjárlögum í framtíðinni. Þannig verði einnig tryggt að nýtt fé fari til þess að ná fram stefnumiðum stjórnvalda, en ekki að um verði að ræða leiðréttingar eftir á. Og framlögin eru veitt með þeim skilyrðum að gerðir verði samningar við stjórnendur og tekið verði á fjármálstjórn stofnana.

Til þess að tryggja rétta framkvæmd ákvarðana Alþingis um fjárframlög til stofnana og verkefna verður gert sérstakt átak sem Ríkisendurskoðun mun upplýsa um með skýrslugerð hvernig fram gengur af hálfu ráðuneytis og stofnana. Áformað er að í samningum við hverja stofnun komi skýrt fram hver fjárframlög eru og að stjórnendur beri ábyrgð á að reksturinn sé innan fjárheimilda. Jafnframt verði erindisbréf stjórnenda endurskoðuð og ábyrgð og eftirlitshlutverk stjórna endurmetið. Þetta er ákaflega mikilvægur þáttur og verður að fylgja þessu fast eftir.

Ríkisendurskoðun mun gefa ráðuneytum og Alþingi skýrslu um framgang málsins á næsta ári. Samhliða verður komið í veg fyrir að stjórnendur stofni til skulda í lánastofnunum og safni upp óeðlilegum viðskiptaskuldum. Gerð verður krafa um að upplýsingar um rekstur stofnana miðað við fjárheimildir liggi fyrir mánaðarlega og að nauðsynlegt talnaefni úr launabókhaldi berist reglulega.

Það verður einnig að kanna hvort breyta þurfi lögum um heilbrigðisþjónustu og staða framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda verði þá sérstaklega skýrð. Jafnframt verður á næsta ári ráðist í að ákvarða hlutlægt framlög til stofnana og reiknilíkönum beitt við skiptingu fjárveitinga á stofnanir í fjárlögum árið 2001. Markmiðið verður, eins og fram hefur komið, að tryggja að stofnanir verði reknar innan fjárheimilda og stjórnendur beri ábyrgð eins og í öðrum atvinnurekstri.

Því er ljóst að mikil vinna er fram undan á næsta ári við stefnumótun og forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu.

Hæstv. forseti. Öllum má vera ljóst að ekki verður við það unað til lengri tíma litið að ekki takist að hafa stjórn á fjármálum sjúkrastofnana. Við getum aldrei litið á það sem náttúrulögmál að rekstur sjúkrastofnana sé ekki í neinum tengslum við þá fjármuni sem ætlaðir eru til reksturs þeirra samkvæmt fjárlögum, að stjórnendur sjúkrastofnana hreinlega sleppi því að líta á fjárlagatölur hvers árs. Sem betur fer er ljós í myrkrinu. Það kemur nefnilega í ljós að á örfáum sjúkrastofnunum hafa menn haft fjárlögin að leiðarljósi við rekstrarákvarðanir sínar. Sú staðreynd segir okkur að hægt er að hafa bönd á rekstrinum leggi menn upp úr því að hafa það hugarfar. Það má vera jafnljóst að þeir stjórnendur sem lagt hafa þá fyrirhöfn á sig að fylgjast með því hvaða fjármunum þeim hafi verið úthlutað í fjárlögum, hljóti að spyrja sig þessarar spurningar: ,,Er verið að hæðast mér?``, þegar halli þeirra stofnana sem keyrt hafa fram úr er greiddur upp eins og við tókum ákvörðun um hér á Alþingi við afgreiðslu fjáraukalaga eftir 2. umr. fyrr í vikunni.

Hitt er jafnljóst að ekki var hægt að sjá fyrir allar þær vendingar sem urðu í launamálum starfsfólks sjúkrastofnana og ómaklegt að kenna stjórnendum um allt það ferli. Ég ætla ekki að rekja þá sögu frekar hér. Nú hefur hins vegar verið tekin sú ákvörðun að byrja á sléttu um áramótin og allir fá sömu hækkun frá grunninum sem ákveðinn var 1998. Við megum ekki gefast upp við það verkefni að hafa stjórn á ríkisfjármálunum, hvort sem það er rekstur sjúkrastofnana eða aðrir þættir. Það er kannski rétt að rifja upp hvað stendur í stjórnarskrá lýðveldisins um þetta efni. Í 41. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, stendur, með leyfi forseta:

,,Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.``

[15:30]

Ég held að nokkuð ljóst sé að þeir sem fara með fjármál ríkisins verði að rifja upp þessa grein stjórnarskrárinnar. Það er augljóst af reynslu þessa árs að nauðsynlegt er að brýna alla aðila sem fara með okkar sameiginlegu fjármuni á þessu ákvæði stjórnarskrárinnar.

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í ræðu formanns þá er þróun byggðar í landinu eitt alvarlegasta efnahagsvandamálið sem við stöndum frammi fyrir. Því er það ákaflega mikilvægt að fylgt verði eftir þeim áformum sem ríkisstjórnin hefur um að snúa við þeim byggðavanda sem birtist okkur í allt of skýru ljósi þessi missirin. Ég vil fara yfir það hvernig brugðist er við í fjárlögum fyrir árið 2000 við þeirri þáltill. sem samþykkt var á Alþingi á sl. vori, nánar tiltekið 3. mars 1999, um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001.

Eins og fram kemur í þál. er þar um metnaðarfull markmið að ræða og sum þeirra krefjast nokkurra fjármuna af fjárlögum. Þál. er skipt í fjóra meginþætti eins og margoft hefur komið fram. Í fyrsta lagi er nýsköpun í atvinnulífinu, í öðru lagi menntun, þekking og menning og í þriðja lagi jöfnun lífskjara og í fjórða lagi bætt umgengni við landið.

Í I. kafla, Nýsköpun í atvinnulífinu, ber fyrst að geta þess að lagt er til í þál. að 300 millj. kr. verði lagðar árlega í eignarhaldsfélög á landsbyggðinni með aðild Byggðastofnunar. Við þetta er staðið í fjárlagafrv. þessa árs eins og til stóð, 300 millj. kr. fara til þessa verkefnis.

Víða er brugðist við í frv. varðandi uppbyggingu á ferðaþjónustu og sérstaklega menningartengdri ferðaþjónustu. Augljóst er að slíkur stuðningur mun koma atvinnugreininni vel í heild sinni. Nægir að nefna sem dæmi stuðning við Vesturfarasafnið á Hofsósi, stuðning við Eiríksstaðanefnd í Dölum og uppbyggingu safnsins á Hnjóti. Og fleira mætti telja.

Þá verður 5 millj. kr. varið til skráningar á gögnum Þjóðminjasafnsins í fjarvinnslu, í tölvuskráningarkerfi sem nefnist Sarpur. Þjóðminjasafnið ætlar að gera áætlun í samvinnu við þróunarsvið Byggðastofnunar um skipulag fjarvinnsluverkefna næstu árin, en fyrstu umferð skráningar verði lokið á næstu fimm árum. Kerfið hefur verið unnið í samvinnu við hugbúnaðarfyrirtæki og fengist hefur 12 millj. kr. styrkur frá Rannsóknarráði Íslands, sem greiðist á næstu þremur árum. Markmið með verkefninu er að staðla og samræma skráningu og leita að menningarsögulegum upplýsingum, bæta aðgengi að slíkum heimildum og tryggja sem best varðveislu menningarsögulegra gagna. Hluta innsláttar hentar að vinna í fjarvinnslu, þ.e. innslátt upplýsinga sem eru til handskrifaðar og vélritaðar. Þetta verkefni er mjög mikilvægt að verði hægt að vinna úti á landi og hefur fjárln. ákveðið 5 millj. kr. til að hefja þetta verkefni.

Í kaflanum Menntun, þekking og menning er ákvæði um að bætt verði skilyrði þess fólks sem sækja þarf nám utan heimabyggðar sinnar. Fjárveiting til jöfnunar námskostnaðar verður aukin samkvæmt tillögum okkar nú við 2. umr. um 76,6 millj. kr. Forsrh. skipaði í október 1998 nefnd samkvæmt tilnefningu allra þingflokka undir forustu hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar til þess að fjalla um byggðamál í tengslum við breytingu á kjördæmaskipan. Meðal fjölmargra tillagna sem samstaða var um í nefndinni er að framlög til jöfnunar námskostnaði verði aukin og framlög verði tvöfölduð á tímabilinu. Vísað er til skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands í þessu sambandi, en hún gerði úttekt á framfærslukostnaði framhaldsskólanema og gert er ráð fyrir að náð verði allt að 90% af lágmarksframfærslukostnaði framhaldsskólanema á þessu tímabili.

Í þál. er einnig gert ráð fyrir að möguleikar fjarkennslu verði fullnýttir og einnig að boðið verði upp á háskólanám á Austurlandi og Vestfjörðum. Fjarnám er ein besta byggðaaðgerð sem ráðist verður í. Þess má sjá merki að fjárln. hefur lagt þær áherslur að herða enn róðurinn í því efni, m.a. er lagt til að Háskólinn á Akureyri fái framlag til að byggja upp leikskólakennaranám með fjarnámsformi. Mikill áhugi hefur komið fram á því námi og er augljóst að það mun hafa jákvæð áhrif á byggð ef fólki er gert kleift að stunda nám í heimabyggð og jafnframt mun það efla leikskólana að ófaglærðu starfsfólki þeirra væri gert kleift að afla sér leikskólakennaramenntunar.

Kennaraháskólinn fær 20 millj. kr. til eflingar fjarnámi og fjölgunar nemenda í því. Mikil aðsókn hefur verið í þetta nám og hefur þurft að neita allt að 2/3 þeirra sem sótt hafa um fjarnámsskólavist. Augljóst er að þessi möguleiki til kennaranáms hefur mikil áhrif til góðs varðandi það að bæta skólastarf á landsbyggðinni og fjölga réttindakennurum.

Í þál. er gert ráð fyrir að auknu fé verði varið til menningarstarfsemi á landsbyggðinni. Þess má sjá merki í frv. og einnig brtt. fjárln. Einnig er nefnt að sérstakt átak verði gert í endurbyggingu og varðveislu gamalla húsa. Má sem dæmi nefna stuðning við endurbyggingu Kaupangs á Vopnafirði, menningarmiðstöðina Skaftfell og Brydebúð í Vík í Mýrdal.

Í III. kafla þál. um stefnu í byggðamálum er lögð áhersla á jöfnun lífskjara. Fyrsti þáttur er jöfnun húshitunarkostnaðar og stefnt á að verð á orku til húshitunar verði fært til jafns við verð á orku hjá meðaldýrum hitaveitum á þriggja ára tímabili. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1999 var fyrsta skrefið stigið og nú er lagt til að annað skrefið verði framkvæmt. Stefnt er að því að hámark á niðurgreiðslum verði fellt niður. Það er því ljóst að þau fyrirheit sem gefin hafa verið um jöfnun húshitunarkostnaðar verða efnd. Verkin tala hér sínu máli.

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir helstu þætti um efndir í þál. um stefnu í byggðamálum sem snýr beint að fjárlagagerð. Það er hins vegar ljóst að byggðamálin sem slík ná inn til allra ráðuneyta og stofnana. Því er ljóst að enn verður að brýna ráðuneyti og stofnanir á því að þeirra hlutverk er stórt við að standa sína plikt við alla landsmenn, hvar á landinu sem þeir búa. Byggðamálin eru verkefni alls ríkiskerfisins, það verða menn að gera sér ljóst.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum þakka bæði meiri hluta fjárln. og minni hluta fjárln. fyrir gott samstarf í nefndinni við að takast á við okkar miklu verkefni.