Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 15:40:19 (2699)

1999-12-10 15:40:19# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[15:40]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli mínu ætlum við að beita þeim tækjum sem við höfum, þ.e. að kalla eftir upplýsingum reglubundið frá stjórnendum stofnana. Við ætlum að fá Ríkisendurskoðun í lið með okkur til að fylgjast mjög náið með fjármálum þessara stofnana og við ætlum að vinna með fagráðuneytinu, heilbrrn., við þetta verkefni. Það er ljóst að á þessu ári hafa fjármál sjúkrastofnana sérstaklega farið úr böndum. Á þessu ári hefur því miður ekki tekist að hafa betri stjórn á en raun ber vitni, en þau tæki sem við höfum er að kalla eftir upplýsingum og brýna fyrir mönnum að fara eftir fjárlögum. Það hlýtur að vera eitt meginmarkmið að benda stjórnendum á hvaða hlutverk þeir hafa. Ef skerpa þarf lög til að þeim takist að komast yfir þennan vanda þá verðum við auðvitað að gera það. En þetta er auðvitað ekki eingöngu stjórnendum sjúkrastofnananna að kenna, að þessu verður ráðuneytið að koma og það er augljóst mál, að ef trúverðugleiki ráðuneytisins á að verða einhver í því að stjórna heilbrigðismálum í landinu, þá verður ráðuneytið að koma inn í þetta verkefni af fullum krafti. Þannig er þetta og við höfum auðvitað okkar meðul og ætlum að beita þeim og við trúum því og treystum að allir sem hlut eiga að máli ætli sér að takast á við þetta verkefni. Það er meginmál.