Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 15:44:44 (2701)

1999-12-10 15:44:44# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[15:44]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlýt að fagna því af hve mikilli ábyrgð hv. þm. Össur Skarphéðinsson lítur á hlutverk sitt í fjárln. (ÖS: Ég ætla að taka við þessu bixi eftir fjögur ár.) og við hljótum að reikna með því að hann vinni með okkur í meiri hlutanum af fullri ábyrgð að þessu verkefni. Það kom reyndar fram hjá --- ef ég mætti hafa frið til þess að mæla, hæstv. forseti.

(Forseti (ÍGP): Ég vil biðja hv. þingmenn um að gefa hljóð í salnum.)

Herra forseti. Það kom fram á fundi okkar með hæstv. heilbrrh. að til stendur að setja ítarlegar reglur varðandi starf einstakra stofnana og jafnvel að kynna þær fyrir okkur í fjárln. fyrir lok 3. umr. Hitt er annað mál, eins og kom fram í máli mínu, að engin einföld ráð eru við þessum vanda og þess vegna verðum við að takast á við hann öll saman. Það má vel vera að trú mín sé mjög mikil, og hún er mjög mikil og ég reikna með því að allir ætli sér að takast á við þetta og líti á ábyrga fjármálastjórnun sem eitt af sínum stærstu hlutverkum.